151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi mismælt mig í síðasta andsvari þegar ég talaði um persónuafsláttinn. Ég var að tala um skattleysismörkin, að þau hafi verið verðtryggð.

Að þessari fyrirspurn. Hvað er það í fjárlögunum sem undirbyggir hagvöxt til framtíðar og hvaða mælanlegu markmið erum við með? Þannig er nú með hagfræðina að þetta eru ekki raunvísindi, þetta eru meira félagsvísindi og ekki hægt að setja tommustokk á hagfræðikenningarnar og segja að við fáum nákvæmlega þetta út. En það sem við trúum á er aukið súrefni, að fái skapandi greinar t.d. aukinn stuðning muni það skila sér til baka. Við trúum á rannsóknir og þróun. Við trúum á að við séum í tæknibyltingu og þurfum að sinna umbreytingu í opinbera geiranum með því að fjárfesta þar. Við trúum á að innviðafjárfestingin sé mjög mikilvæg fyrir framtíðina þannig að (Forseti hringir.) Ísland verði samkeppnishæfara og að þetta muni allt á endanum skila sér ef álögum er líka stillt í hóf.