151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hið opinbera er í ákveðinni jafnvægislist til að koma til móts við efnahagslífið með viðeigandi hætti án þess að setja ríkissjóð í of mikinn halla. Afleiðingar af því yrðu verðbólga eða veikara gengi krónunnar. Með viðeigandi mótvægisaðgerðum skiptir halli ríkissjóðs hins vegar engu máli því að aðgerðirnar ættu að skila arðbærum árangri sem jafnar smám saman hallann aftur. Sama á við ef verðbólgan fer ekki á flug. Þá skiptir hallinn í rauninni mjög litlu máli. Óviðeigandi mótvægisaðgerðir lengja hins vegar kreppuna og rýra lífsgæði okkar.

Ég spyr því: Eru 35 milljarðar kr. nóg og eru þær aðgerðir sem valdar eru betri en aðrar? Ég býst við að svarið verði já, en ég hlakka til að heyra rökin. Ég spyr því að tækifærin sem hægt er að nýta eru miklu fleiri, en ríkisstjórnin virðist ákveða að grípa þau ekki. Ég spyr af því að samkvæmt lögum um opinber fjármál eiga stjórnvöld að rökstyðja stefnu sína. Ég spyr af því að það vantar þessi rök. Af hverju eru 35 milljarðar á næsta ári (Forseti hringir.) nægilega mikið til að mæta mestu niðursveiflu í heila öld?