Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:16]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er klassísk mantra, að allt sé ekki ömurlegt á Íslandi og því sé ekki hægt að gera neitt öðruvísi. Ég er að horfa á nákvæmlega sömu tölur og hæstv. fjármálaráðherra, þær tölur að ráðstöfunartekjur efstu 10% í landinu jukust tvöfalt á við allra annarra í fyrra. Þarna er svigrúm. Það er ekki svigrúm hjá hinum tekjutíundunum. Ég er líka að horfa á útflutningsverðmæti okkar í sjávarútvegi. Það er svigrúm. Það er jákvætt að það aukist en er eðlilegt að það séu ákveðnir hópar sem líði fyrir verðbólgu og vonarvöl á erlendri grundu á meðan aðrir hagnast á henni? Getum við ekki tekið okkur saman og dreift þessu?

Varðandi fjárfestingarstigið er þetta líka klassísk framsetning, virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra horfir alltaf bara í eigin barm í ríkissjóð vegna þess að það kemur honum ekkert við hvað sveitarstjórnir landsins eru að gera. Það kemur honum ekki við að ríkið hafi gert það að verkum að sveitarfélögin eru að halda svo mikið aftur af sér í fjárfestingu að við erum að sjá lægstu fjárfestingartölur þar í áraraðir. Þetta er vegna þess að málaflokkur fatlaðs fólks er undirfjármagnaður um 13 milljarða kr. á næsta ári. Uppsafnaður kostnaður er 17 milljarðar. Þetta er peningur sem hefði getað farið í fjárfestingu í landinu, sveitarstjórnir eiga að standa undir helmingi af opinberri fjárfestingu. Hér er látið eins og þetta komi ríkissjóði ekkert við. Það er verið að færa verkefni á milli sveitarstjórna og ríkis, þyngja byrðarnar á öðrum stigum til að hreinsa borð fjármálaráðherra. Ég get alveg sagt, virðulegi forseti, að ég er að horfa á sömu tölur og hæstv. fjármálaráðherra en ég horfi ekki á meðaltöl. Ég horfi ekki bara á yfirborðið, ég lít þar undir og hef tengingu við venjulegt fólk hér í landi.