Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fór mikinn í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra í gær og var borubrattur, fjörlegur og bara býsna skemmtilegur á köflum þótt ég væri ekki sammála öllu. Ég geri mér grein fyrir því að þessi umræða kláraðist í gærkvöldi en hins vegar var margt sem hann sagði þar sem tengir við það sem við erum að ræða núna, svona prinsippmál þegar kemur að sköttum, gjöldum, rekstri og hvernig á að dreifa þessu öllu. Hann ræddi mikið um samanburð á Íslandi og öðrum Evrópuríkjum og var á honum að heyra að á meðan allt væri í kaldakoli austur í Evrópu væri nánast sannkölluð himnaríkisvist hér. Meðal þeirra hluta sem hann nefndi í þessum samanburði voru annars vegar verðbólgutölur og hins vegar staða orkumála. Vissulega er það alveg rétt að það er margt sem er okkur mjög hagfellt og m.a. staða orkumála sem skapar okkur í augnablikinu mjög öfundsverða stöðu. En þá er rétt í upphafi að halda því til haga að sú staða er ekki til komin vegna Sjálfstæðisflokksins eða þessarar ríkisstjórnar út af fyrir sig umfram þann hlut sem allir aðrir flokkar í landinu eiga í þeirri fjárfestingu sem ráðist var í og allur íslenskur almenningur almennt. En það má hins vegar á móti spyrja hvort við værum í þessari ákjósanlegu stöðu ef stefna Sjálfstæðisflokksins hefði ávallt ráðið. Eins og þekkt er hefur það verið blautur draumur hægri manna í landinu, margra a.m.k., að einkavæða Landsvirkjun. Þá spyr ég: Hvert væri orkuverðið þá og hvert rynni arðurinn? Það er allt í lagi að hrósa sér af því sem maður á rétt á en láta hitt liggja á milli hluta og vera aðeins sanngjarnari í málflutningi sínum.

Sá samanburður sem formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi hins vegar ekki í gær í ræðunni og auðvitað vísvitandi var að þrátt fyrir sambærilega verðbólgu hér og í Evrópu, já, og talsvert lægri hér jafnvel en víða í Evrópu, þá búa íslensk heimili og smærri fyrirtæki a.m.k. við vexti sem eru margfaldir á við það sem t.d. tíðkast á evrusvæðinu. Því nefni ég þetta að fyrir rúmu ári talaði hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, um nýjan veruleika í vaxtamálum þegar Seðlabankinn var að bregðast við heimsfaraldri og lækkaði skarpt vexti. Hann gaf fólki, ekki síst ungu fólki, blákalt fyrirheit um að framtíðin væri runnin upp með nýjum veruleika í vaxtamálum Íslendinga, lágvaxtasvæði með sem byggði á örmynt. Þrátt fyrir viðvörunarorð mjög margra í stjórnarandstöðunni þá um þetta, að þetta væri líklega tímabundið og ekki til lengri framtíðar miðað við núverandi stöðu, þá stóð hann bara mjög staffírugur hér í pontu og andmælti harðlega og sagði að víst yrði þetta svona.

Frú forseti. Orð fjármálaráðherra og reynds stjórnmálamanns til áratuga vega að sjálfsögðu mjög þungt í umræðunni og fólk, eðlilega margt, treysti þeim og skuldbatt sig unnvörpum miðað við þennan nýja veruleika. Tók ný lán, skuldbreytti, breytti lánasamsetningunni, svo að dæmi sé tekið. Þessi nýi varanlegi veruleiki hæstv. fjármálaráðherra varði reyndar ekki nema í nokkra mánuði og búmm — kunnugleg staða. Og hvar erum við þá stödd nú og hvaða áhrif hefur þetta á almenning, ungt fólk, tekjulága og bara millitekjufólk? Því ofan á þetta birtist í fjárlögunum að fyrst og fremst eigi að sækja tekjur með skattahækkunum og með því að leggja álögur og flatar hækkanir ofan á ýmsa hluti sem verða bornar uppi af þessum sama almenningi sem nú er að súpa seyðið af nýrri stöðu í vaxtamálum. Þetta er bara ekkert svo lítill baggi að bera til viðbótar við hitt.

Hæstv. fjármálaráðherra varð býsna tíðrætt um skattamál almennt í gær og hvernig ýmsir flokkar, gjarnan félagshyggjuflokkarnir, vildu hækka skatta á meðan hans flokkur vildi lækka þá ævinlega, alltaf. En skoðum þetta aðeins nánar og það er mikilvægt af því að Sjálfstæðisflokknum hefur, með þessari eilífu möntru sinni um að hann sé skattalækkunarflokkur, tekist að sannfæra stóran hluta almennings um að þannig sé það í raunveruleikanum. En þetta er hins vegar rangt. Nú er það þannig að allir flokkar gera sér meiri eða minni grein fyrir því að það er ólíkt að reka samfélag eða fyrirtæki og það þarf að afla tekna frá fyrirtækjum og almenningi til að standa undir sameiginlegum verkefnum ríkisins; löggæslu, menntun, heilbrigðiskerfi, alþjóðasamningum og ýmislegu öðru, já og auðvitað hafrannsóknum og umsjón með okkar dýrustu auðlind, fiskveiðiauðlindinni. Reyndar duga veiðigjöldin ekki til að standa undir þeim kostnaði en það er önnur saga sem við ættum kannski að tala aðeins meira um og oftar.

Munurinn á frjálshyggjuöflunum og félagshyggjuöflunum liggur hins vegar í því að meðan þau fyrrnefndu líta svo á að skattar eigi eingöngu að standa undir nauðsynlegustu tekjuöflun og lágmarksþjónustu vilja þau síðarnefndu að þeir fari í að afla tekna en einnig til að jafna kjör fólksins í landinu. Þetta kallar fjármálaráðherra í ræðu sinni í gær stjórnlyndi, að félagshyggjufólk leyfi sér að vilja að þau sem eru mjög vel aflögufær leggi meira til samfélagsins en hin, jafnvel þó að þeir sem hafa auðgast óhóflega hafi gert það í skjóli nokkuð óeðlilegra laga og stundum fyrirgreiðslna. Ég kalla það hins vegar bara blákalt á móti svartasta stjórnlyndi af hæstv. fjármálaráðherra að ætlast til þess að stór og fjölmennur hópur í landinu líði skort vegna þess að ríkisvaldið gerir öðrum kleift að auðgast óheyrilega í skjóli t.d. óeðlilegrar úthlutunar á þjóðareign, svo ég nefni einhver dæmi.

Herra forseti. Sagan sýnir að jöfn samfélög eru frjálsari, kraftmeiri friðsamari og framfarasinnaðri. Um það vitnar sagan og á þeirri stefnu og staðreynd byggir hugmyndafræði jafnaðarfólks, líka skattstefna þeirra.

Herra forseti. Nú er það svo að eftir erfið áföll, vissulega að mestu utanaðkomandi, þarf að ná niður halla og ná jafnvægi í efnahagsmálum. Þá er áhugavert að sjá hvaða leið hægri menn fara. Í stað þess að freista þess að finna hverjir geta raunverulega borið hinar þyngri byrðar og hafa jafnvel hagnast býsna mikið vegna ástandsins og á ástandinu meðan á því stóð a.m.k., þá eru bara lagðir flatir skattar á allt saman sem bitnar á endanum verst á almenningi og auðvitað allra verst á þeim sem allra verst hafa það. Það segir sagan okkur. Þannig að ef það er einhver sem stendur undir nafnbótinni í þessum sal að vera kallaður „skattmann“ þá er það nefnilega Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Og ef einhver heldur því fram að þetta séu einhverjir órar vinstri manns sem stendur hér í pontu þá er allt í lagi að vitna bara til fyrrum þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sigríðar Andersen, sem segir í viðtali í morgun að svo langt sé gengið í aukinni skattlagningu með þessu nýja fjárlagafrumvarpi að það sé óhætt fyrir sósíalista að segja það gott, enda erindið þrotið. Skýrari verður nú dómurinn ekki, frú forseti, og það beint innan úr Valhöll.

Þetta fjárlagafrumvarp, sem ég á eftir að ræða um hér síðar, ber þess auðvitað merki að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla og vissulega þarf að bregðast við því. En það er auðvitað mjög bagalegt að stórum og nauðsynlegum verkefnum sem gefin eru fyrirheit um samdægurs á einhverjum fundum úti í bæ skuli ekki vera gerð skil í fjárlagafrumvarpinu og þingið eigi að vera í algerri óvissu um það í nokkrar vikur hvað það á að kosta. Þetta er óábyrgt með öllu.

Það má segja að ríkisstjórnin sé að fara blandaða leið. Það er hægt að sýna aðhald með tvennum hætti. Það er að draga úr þjónustu en það er líka hægt að afla tekna og það er verið að skera niður hér, náttúrlega mjög /bagalega, í nauðsynlegri fjárfestingu og það er auðvitað ekki verið að bregðast við fjárþörf stóru kerfanna. Það hvort tveggja á eftir að koma í bakið á okkur. En síðan er verið að afla tekna, eins og ég sagði áður og ætla svo sem ekki að endurtaka það, og það er gert þannig að því er bara dreift flatt yfir. Ég hlýt að taka undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni sem beindi spurningum til hv. þm. Haraldar Benediktssonar um hvað hans kjósendur í dreifðari byggðum segja við þessum álögum sem munu fyrst, harðast og síðast bitna á landsbyggðinni.