154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[12:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er alltaf áhugavert að fá þetta rit í hendurnar og ég ætla að byrja á smá hrósi, ótrúlegt en satt. Gæðin á þessu frumvarpi eru aðeins betri heldur en ég að á að venjast. Greiningarnar eru góðar og það er betri samfella í þeim. Ég kvartaði undan því síðast þannig að ég er bara nokkuð ánægður með framsetninguna í frumvarpinu og ég er sérstaklega ánægður með það sem fjármálaráðherra hefur tilkynnt um, að það komi greinargerð með fylgiritinu þar sem fylgja forsendur ráðuneytanna fyrir þeim tölum sem eru hérna á bak við. Það vantar að stíga síðan næstu skref þar sem koma forsendur stofnana. Það kemur kannski næst en það er alla vega jákvætt, svo við afgreiðum hvað er jákvætt við þetta. Ég er ekki alveg sammála pólitíkinni og efnisinnihaldinu í þessu en þetta er þó jákvætt skref.

Það eru ansi margir málaflokkar hérna sem maður myndi vilja grafa aðeins í en ég ætla að reyna að vera á almennum nótum svona í 1. umræðu. Við erum að glíma við efnahagsástandið sem er og við fáum frumvarp til fjárlaga sem er uppskrift ríkisstjórnarinnar. Ég horfði á fréttirnar í fyrradag þar sem gangandi vegfarendur voru svona snilldarlega spurðir hvort þeir ætluðu að lesa fjárlagafrumvarpið, allar þessar 382 síður plús fylgiritið. Svörin komu mér skemmtilega á óvart þar sem sum svörin voru jákvæð. Við skulum samt viðurkenna það að þetta er enginn skemmtilestur þegar allt kemur til alls því að eins óspennandi og þessi bók lítur út þá er hún samt mjög mikilvæg. Ekki kannski mikilvæg á sama hátt og Íslendingasögurnar eða Hringadróttinssaga eða Uppruni tegundanna, en fjárlagafrumvarpið er samt nokkurs konur biblía fyrir okkur hérna á þinginu alla vega fyrir næsta ár. Og mig langar til að fjalla um fjárlagafrumvarpið út frá því hlutverki sem það gegnir í samfélaginu því eitt svar hjá þessum gangandi vegfarendum var: Hvað er það? Hvað er þetta hérna? Viðkomandi vegfarandi hafði bara ekki hugmynd um hvað fjárlagafrumvarp væri og það er bara mjög skiljanlegt því að þessi bók er ekki aðlaðandi á nokkurn hátt fyrir neinn sem væri að leita sér að lesefni sér til skemmtunar. Fjárlagafrumvarpið er ekki YouTube- myndband eða TikTok-stikla.

Ég þarf vonandi ekki að útskýra fyrir neinum hérna inni hvað fjárlagafrumvarp er. En ég held að það sé samt nauðsynlegt að við ræðum aðeins um það til að tryggja sameiginlegan skilning. Það var nefnilega fleira sem ég sá í fyrradag sem gerði það að verkum að ég held að það viti ekki allir hversu mikilvæg þessi bók er. Það var þannig að þegar ég var að skoða þessa bók þá rakst ég á eftirfarandi upplýsingar, eða réttara sagt í fylgiriti fjárlagafrumvarpsins sem er sagt önnur bók og mun þynnri og heitir: Fylgirit með frumvarpi til fjárlaga. Það er eiginlega útprentað excel-skjal, mjög áhugavert, með alls konar upplýsingum. Ég fann eftirfarandi í kaflanum um styrktar- og samstarfssamninga en þar stóð: „Samtökin '78 – fræðsla er varðar málefni hinsegin fólks, 2023 15 milljónir, 2024, 0 kr.“ Áhugavert. Í umræðunum sem spruttu upp í kjölfarið var sagt að þetta væri bara tímabundið fjárframlag frá þinginu sem væri verið að fella niður, að Samtökin '78 væru enn að fá 40 milljónir. En það fjármagn finnst hvergi þegar maður les þessa bók, hvorki í frumvarpi til fjárlaga né í fylgiritinu með því. Mér finnst það mjög áhugavert því að umræðurnar um málefni hinsegin fólks hafa svo sannarlega bent til þess að það þurfi fræðslu. Ég fletti þessu því betur upp í þessari góðu bók og ég finn markmið, þriðja markmiðið í málaflokki jafnréttismála. Þar stendur: „Markmið 3: Réttindi hinsegin fólks tryggð.“ Áhugavert. Þar undir kemur: „Framfylgd verkefna í aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks – Forsætisráðuneytið – Innan ramma“, svo ég vitni í frumvarpið, með leyfi forseta. Innan ramma, það er frábært. En hvað kostar það eiginlega í peningum að vera innan ramma? Fyrir neðan þetta stendur:

„Fjárheimild málaflokksins lækkar um 35 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður. Annars vegar 20 m.kr. framlag vegna aðgerða gegn hatursorðræðu, þingsályktunartillaga og hins vegar 15 m.kr. framlag til Samtakanna '78.“

Allt í lagi, hugsa ég, og fletti upp þessari aðgerðaáætlun. Það er rosalega flott síða þar sem farið er yfir aðgerðaáætlana. Ég finn hana og þar eru dregin fram alls konar verkefni í þessari aðgerðaáætlun. Þarna eru verkefni innan stjórnsýslunnar um fræðslu og forvarnir og rannsóknir og vinnumarkað og hinsegin sjávarútveg og landbúnað. Þetta er mjög yfirgripsmikil aðgerðaáætlun sem var samþykkt hérna á þinginu og virðist vera fylgt vel eftir. Á síðunni er farið yfir stöðu verkefnanna, t.d. stöðu verkefnisins um hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Staða í apríl 2023: Samið var við Samtökin '78 um að skrifa og gefa út bækling með fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og fræðslustarfi. Verkefnið er komið vel á veg.“

Samið var sem sagt við Samtökin 78, það kemur fram í aðgerðaáætluninni. Í fylgiritinu hverfur svo fjármagnið úr styrktar- og samstarfssamningi við Samtökin '78 á næsta ári.

Hvaða ályktun dregur maður af þessari framsetningu? Hvar eru þessar 40 milljónir sem var talað um? Hvar eiga ég og aðrir þingmenn eða gangandi vegfarendur að leita sem vilja í alvörunni komast að því hversu mikinn pening Samtökin '78 frá ríkinu til að sinna því mikilvæga starfi sem þar er unnið? Hvar eigum við að komast að því ef það er ekki með því að lesa fjárlagafrumvarpið og fylgirit þess?

Þetta er nefnilega það sem frumvarp til fjárlaga snýst um og að lokum þau fjárlög sem Alþingi samþykkir: að svara þeim spurningum sem fólk getur haft um það hvernig opinberir aðilar nota almannafé. Svörin við þeim spurningum eiga að vera í þessari bók.

Stærðarsamhengi fjárlaga er síðan enn þá áhugaverðara. Þess vegna er frumvarp til fjárlaga í alvörunni rosalega áhugaverð lesning. Mæli með henni, í alvöru. Frumvarp til fjárlaga er uppskrift ríkisstjórnarinnar að framtíðarsamfélaginu. Það er uppskrift sem er samin í stefnumótun stjórnmálaflokka fyrir kosningar, í stjórnarmyndunarviðræðum og lokum við ríkisstjórnarborðið. En við skulum samt ekki gleyma að umboðið til að leggja fram frumvarp til fjárlaga kemur frá kjósendum, fólki sem greiðir skatta til þess að fjármagna samfélagsleg verkefni, rekstur heilbrigðiskerfis, menntakerfis, lögreglu, dómstóla og félagslegs öryggisnets ásamt ýmsu öðru sem ritað hefur verið í lög á Alþingi.

Það er dálítið merkilegt að skoða fjárlög út frá því sjónarhorni. Hvað kostar að uppfylla þau lög sem Alþingi hefur samþykkt? Við fáum hvergi aðgang að þeim upplýsingum, sem er áhugavert út af fyrir sig.

Það er oft talað um þennan mikilvæga stöðugleika í efnahagsmálum. Fjármálaráðherra talar nú um að endurheimta stöðugleikann. Það er pínu kaldhæðnislegt þegar íslensk efnahagssaga er skoðuð. Ef það ætti að velja eitthvert orð sem ætti að lýsa efnahagi þessarar litlu eyju lengst norður í hafi þá væri stöðugleiki örugglega meðal síðustu orða sem yrði fyrir valinu, bara í alvörunni.

Þó að frumvarp til fjárlaga líti út fyrir að vera það leiðinlegasta sem hægt er að hugsa sér þá eru hérna gríðarlega mikilvægar upplýsingar um efnahagsmálin sem eru þegar allt kemur til alls upphaf og endir allra mála. Öllu sem við viljum gera fylgir spurningin um hvort við höfum efni á því. Okkur langar nefnilega að gera svo margt en við höfum einfaldlega ekki efni á því öllu og því þarf að forgangsraða. Viljum við t.d. betra heilbrigðiskerfi? Viljum við Fjarðarheiðargöng, uppfæra hringveginn í hringlest, rafvæða samgöngur, viljum við Sundabraut, viljum við ásættanleg lífskjör fyrir eldra fólk, mannsæmandi grunnframfærslu, framhaldsskóla- og menntaskólakerfi sem er ekki að ganga á jafnræði nemenda til menntunar?

Hvort sem svarið er já við þessu öllu eða ekki þá eru það samt væntingar okkar og vonir að við höfum bolmagn til að framkvæma meira á morgun heldur en við höfðum í dag. Við viljum gera meira og það er jákvætt. En það er gott að hafa háleit markmið um að gera betur og meira. Í fjárlögum sjáum við misháleit markmið ríkisstjórnarinnar sett fram. Þetta er þeirra raunveruleiki. Þegar þau eru búin að komast að niðurstöðu um allt sem þau vilja gera, þá er þetta niðurstaðan sem þau komast að. Þetta er það sem þau telja sig geta gert með tilliti til forgangsröðunar. Eftir að búið er að forgangsraða og setja allt annað til hliðar sem þau vildu gera þá er þetta það sem er eftir. Þess vegna er mjög mikilvægt að rýna aðeins í tölurnar í fjárlagafrumvarpinu og skilja hvaðan við erum að koma, hver staðan er eiginlega og í hvaða ástandi efnahagsmálin eru því það er ekki svo augljóst.

Stóra efnahagslega talan sem flestir kannast við, talan sem er notuð til þess að útskýra stöðu efnahagsmála er verg landsframleiðsla. Þetta er kakan sem er stundum notuð og á að drottna yfir öllu. Hún þýðir í raun og veru bara hversu mikil verðmæti verða til á hverju ári. Það er ekki flóknara en það þegar allt kemur til alls. Árið 2018, sem var fyrsta heila árið sem núverandi ríkisstjórn hafði eitthvað um málin að segja, var verg landsframleiðsla 2.844 milljarðar kr., á andvirði ársins þá. Í lok núgildandi fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir því að verg landsframleiðsla verði 5.491 milljarður kr. sem er nálægt því tvöföldun á tíu árum. Það er dálítið rosalegt, er það ekki? Nei, í rauninni ekki, því að við erum með krónu hérna á Íslandi sem er dálítið merkileg og hún verður alltaf verðlausari og verðlausari. Krónan virkar svipað eins og að skera pítsu í sífellt fleiri sneiðar. Jú, jú, við erum með fleiri sneiðar en pítsan er alveg nákvæmlega jafn stór. Það er alveg jafn mikið til skiptanna hvort sem þú skerð pítsuna í fleiri sneiðar eða ekki. Dagsdaglega er einmitt talað um köku, að stækka kökuna, en kakan er nú bara dálítil lygi þegar betur er að gáð.

Ef við skoðum þetta enn þá betur þá tvöfaldaðist verg landsframleiðsla líka á milli áranna 1998 og 2008 og svo sambærilegt dæmi sé tekið þá rétt tvöfaldaðist hún líka á milli áranna 2008 og 2018. Ef ég sýni ykkur mynd hérna, bara eins og í Gettu betur, stórglæsilegt línurit, ég veit ekki hversu vel það sést: Þetta er breyting á vergri landsframleiðslu á tíu ára tímabili, rétt rúmlega tvöföldun yfir öll árin, hefur farið aðeins minnkandi en allt í lagi. Þetta er íslenskt efnahagslegt samhengi, tvöföldun á tíu árum eða svo, nánar tiltekið 8,2% hækkun að meðaltali á ári á raunvirði hvers árs fyrir sig. Þetta er í raun hið íslenska efnahagskerfi sem við búum við. Þetta er bara okkar sannleikur þegar kemur að vergri landsframleiðslu. Efnahagurinn er miklu flóknari heldur en bara þetta eina, en byrjum að tala um þetta. Þetta er stöðugleikinn þegar allt kemur til alls, 8,2% hækkun á hverju ári, alveg sama þó að það komi hrun eða uppsveifla fram og til baka, 8,2% að meðaltali. Það er þar sem við endum.

Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við hefur meðalhækkunin verið 7,8% og miðað við þjóðhagsspá er gert ráð fyrir 6% hækkun á ári að meðaltali, sem væri þá samtals upp á 7% fyrir þennan áratug af ríkisstjórn ef fjármálaáætlunin gengur upp eins og hún er sett fram. Ekki 8,2% heldur 7%, sem er ansi mikið minna. En ég ætla að leyfa mér að efast um að það standist þegar allt kemur til alls. Líklega verður árleg hækkun nær langtímameðaltalinu þegar upp er staðið, aðallega af því að hagspáin er yfirleitt röng, hún er alltaf miklu minni, of lág þegar vel gengur og of há þegar illa gengur. Þarna inni í tölunum eru líka hagtölur vegna heimsfaraldurs og helmingurinn af þessu er einmitt samkvæmt þessari þjóðhagsspá. Hún gerir alltaf ráð fyrir því að hagvöxturinn fari bara niður í tæplega 3% strax eiginlega fyrsta árið eftir eftir spánna. Það er gerð spá fyrir þrjú, fjögur, fimm ár. Næsta ár er kannski raunhæft miðað við stöðuna en árin þar á eftir eru bara langtímahagvöxturinn hjá þeim sem er eitthvað í kringum 3%, rétt tæplega 3%. Það er rosalega skrýtið miðað við það þegar við skoðum þessa áratugi upp á 8,2%. Þar inn í er jú hagvöxturinn en á núvirði hvers árs fyrir sig, með verðbólgunni og öllu því. Mér finnst hjálplegra í rauninni að skoða það. Þá getum við bara hugsað okkur að miðað við verga landsframleiðslu í fyrra á andvirði þess árs verður verg landsframleiðsla á næsta ári 8,2% meiri á andvirði þess árs — af því að við erum alltaf að glíma við æðislegu krónuna. Það þýðir að ef við gefum ríkisstjórninni smá svigrúm, t.d. út af heimsfaraldrinum sem hafði þó nokkur áhrif á landsframleiðslu árið 2020, er efnahagurinn bara að sigla sinn sjó eins og undanfarna þrjá áratugi. Það eru vissulega smá öldur fram og til baka en þegar allt kemur til alls er rúmlega 8% vöxtur á ári. En munið: Bara fleiri sneiðar, ekkert endilega stærri pítsa.

Ef við viljum í alvörunni efnahagslegan stöðugleika, eins og Sjálfstæðisflokkurinn þreytist ekki á að tönnlast á, þá þurfum við einfaldlega að læra af sögunni, læra af reynslunni. Þessi 8,2% vöxtur er auðvitað ekkert í hendi en þetta hefur verið þróunin undanfarna áratugi. Það þýðir að opinber fjármál ættu að taka tillit til þess. Það myndi búa til stöðugleika. Ríkið segir einfaldlega: Á næsta ári verður landsframleiðslan 8,2% umfangsmeiri en í ár. Þá vitum við hversu mikið við höfum milli handanna til að vinna með og þannig búum við til stöðugleika, ekki með því að elta efnahagssveifluna upp og niður. Ef það er 10% hagvöxtur þá er ríkinu alveg sama, 8,2%. Ef það er 10% niðursveifla þá skiptir það ekki máli. Við gerum bara ráð fyrir 8,2%. Hagvöxturinn nær þessu að lokum, fer upp fyrir og niður fyrir. Við bara siglum eftir okkar stefnu og höldum þann sjó og okkur er alveg sama í rauninni hvernig efnahagurinn er. Við bara pössum upp á það að ríkið haldi stöðugleikanum.

Þar er alveg tvímælalaust lykillinn en við höfum ekki séð það í verki. Við höfum séð ríkisstjórnina hlaupa fram og til baka eins og hauslausar hænur og segja: Heyrðu, það er ekkert til fyrir menntamálin. Og hinum megin: Það er allt á blússandi siglingu. Það er enginn stöðugleiki. Það eru engin rök í þessari umræðu hvað það varðar. Það er ekki grundvallað á neinum gögnum.

En allt í lagi, hvað svo? Við höfum þessa landsframleiðslu og allt þar fram eftir götunum. Og það er jú búið að setja lög um ýmsa opinbera þjónustu eins og ég nefndi áðan; heilbrigðisþjónustu, löggæslu, skóla, lífeyri og alls konar svoleiðis. Og til að greiða fyrir þá þjónustu og halda einhverjum stöðugleika í efnahagsmálum leggur ríkið skatta á allt og ekkert. Til þess að skilja stöðuna ekki bara út frá vergri landsframleiðslu svoleiðis þarf líka að horfa aðeins dýpra. Byrjum samt á samanburði opinberra fjármála við landsframleiðslu, bara svona efnahagssögulega — æðislegt orð — og þá hafa útgjöld ríkisins verið 30,9% af vergri landsframleiðslu á ári. Þetta er bara söguleg staðreynd. 30,9% af vergri landsframleiðslu, það eru útgjöld ríkisins. Það er meðaltal undanfarinna þriggja áratuga. Af öllum verðmætum sem verða til í hagkerfinu er þetta hlutur ríkisins. Stundum er þetta hlutfall hærra. Síðan 1995 hefur það hæst verið 43,3% árið 2008 og stundum lægra og var lægst 25,1% árið 1997. Svipaða sögu er síðan að segja af tekjum ríkisins. Þær hafa að meðaltali verið 30,5% af vergri landsframleiðslu á ári. Og takið eftir því að tekjurnar hafa að meðaltali verið 0,4% lægri en útgjöldin sem gerir rúmlega 400 milljarða kr. á núvirði í mínus.

Hér er mynd: Svona sveiflast þetta fram og til baka, tekjur og gjöld, upp og niður og fram og til baka. Þarna munar, bilin sem eru þarna á milli eru 400 milljarðar. Þetta er staðan, 30,9% í útgjöld og 30,5% í tekjur. Þetta er halli á rekstri ríkisins sem útskýrist að langmestu leyti af útgjöldum ríkisins vegna nýliðins heimsfaraldurs. Afkoman fyrir 2020, frá 1995, var jákvæð, þ.e. — og nú hef ég stóran vara á — frumjöfnuður ríkissjóðs var jákvæður. Við höfum alltaf átt í erfiðleikum með fjármagnskostnað og ef eitthvað hefur verið stöðugt í íslenskri efnahagssögu þá er það að fjármagnskostnaður hefur verið hár. Augljóslega þarf að laga þennan halla einhvern veginn en merkilegra er eiginlega að skoða þessi hlutföll hjá núverandi ríkisstjórn því miðað við fjármálaáætlun gerir hún ráð fyrir að greiða 30,8% af vergri landsframleiðslu í útgjöld en einungis 29,8% í tekjur, sem er mun lægra heldur en langtímameðaltalið. Auðvitað eru 29,8% dágóður slatti en í samanburði við langtímameðaltalið eru þetta einungis 29,8%. Hér er líka gott að bæta við að þetta eru hrein útgjöld og tekjur, ekki fjármagnsgjöld sem ég var að tala um o.s.frv., það þarf að passa aðeins upp á það.

Ég vil líka minnast á það að hagkerfið vex meira á næsta ári heldur en langtímameðaltalið, um 10,1%, 2% meira en meðaltalið. Útgjöld hækka líka meira eða um 10% og tekjurnar um 17,5%, líklega minna samt þar sem tekjurnar 2023 verða væntanlega hærri heldur en var gert ráð fyrir í fjárlögum 2023. Hvað þýðir þetta? Jú, stóra myndin er sú að útgjöld ríkisins eiga að minnka á komandi árum niður í 30,4% af vergri landsframleiðslu, en tekjur ríkisins eiga að lækka lítillega á sama tíma, niður í 29%. Þetta er efnahagssaga ríkisstjórnarinnar, þegar allt kemur til alls, stóra myndin. Minni útgjöld heldur en langtímameðaltalið og lægri tekjur, mun lægri tekjur. Minna bákn — frábært fyrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins — upp á hálft prósent og skattalækkun upp á 1,5%. Að vísu með samsvarandi halla þarna á milli, ef tekjurnar eru minna hlutfall af vergri landsframleiðslu en útgjöldin þá endum við í halla.

Ef ég segi það skýrt: Efnahagsþróunin á tíma þessarar ríkisstjórnar hefur verið undir meðaltali enda hafði heimsfaraldur þó nokkur áhrif á efnahaginn. Samkvæmt hagspánni gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að ríkið dragi úr umsvifum sínum fram til ársins 2028 og verði þá hálfu prósenti undir langtímameðaltali í útgjöldum og 1,5% undir tekjum. Samtals með lægri tekjur en útgjöld þó að afkoman endi síðan að vísu loksins í plús 2028, þetta er uppsafnað þarna á milli. Að því sögðu þá held ég að það sé vanáætlun eins og hagspáin er iðulega. Ef gert er ráð fyrir því að langtímaþróun haldi, ekki að hagspáin haldi, hún er yfirleitt allt of langt undir þróuninni, þá ætti ríkið að vera komið í plús árið 2025. Ég býst við því ef allt gengur eðlilega og ríkisstjórnin þvælist ekki fyrir. Fræðilega meira að segja 2024, það er alveg séns. Ég ætla ekki að giska á hversu miklar líkur er á því, kannski 50/50, segjum það. Það væri sem sagt ekki út af afrekum ríkisstjórnarinnar heldur einfaldlega af því að hagkerfið siglir bara sinn sjó að mestu leyti óháð því hvað ríkisstjórnin gerir þó að ríkisstjórnin reyni að monta sig rosalega mikið af því. Eins og fjármálaráðherra sagði hérna áðan þá hefur ríkisstjórnin ekkert mikið hlutverk í að stjórna verðbólgunni en er samt að leggja fram ýmsar tillögur og montar sig af því að hún sé að reyna að hafa einhver áhrif á verðbólguna þegar þau eru síðan ekki nein þannig að það er alveg eins gott að sleppa því bara, þegar allt kemur til alls. Ekki að fara í aðgerðirnar heldur að sleppa því að monta sig af því að áhrifin eru hverfandi.

Þrátt fyrir allt og þegar allt kemur til alls þá er í alvörunni tiltölulega gagnslaust að rýna í þessar tölur, rýna í þessa þjóðarköku, því að á bak við þessar tölur er þjónusta hins opinbera. Opinber þjónusta snýst um tvennt. Annars vegar fólkið sem sinnir þeim störfum og árið 2021 var meðalfjöldi stöðugilda hjá ríkinu 19.164 og fyrir þau stöðugildi voru greiddir rúmir 319 milljarðar kr. í laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnað. Árið 2022 var meðalfjöldi stöðugilda 19.503 með launakostnað upp á rúma 388 milljarða. Umreiknað á mánuði per stöðugildi eru það eitthvað um 1,39 milljónir á mánuði árið 2021 og 1,66 milljónir á mánuði árið 2022. Þetta eru laun, tölvur, mötuneyti og alls konar. Það þýðir að þegar fjármálaráðherra segir að það eigi að spara 5 milljarða með því annaðhvort að segja upp fólki eða ráði ekki neinn í þess stað þá ætti það að fækka stöðugildum um 250 eða svo. Áhugavert.

Hin hliðin á opinberri þjónustu er fólkið sem er verið að þjónusta. Árið 2021 bjuggu 368.792 á Íslandi. Árið 2002 vorum við orðin 376.248. Það þurfti að þjónusta 2% fleira fólk. Við þetta bætast tæplega 700.000 ferðamenn árið 2021 og rúmlega 1,7 milljónir árið 2022 sem þýðir að fjöldi ferðamanna á landinu á hverjum degi hefur farið úr rúmlega 14.000 að meðaltali upp í rúmlega 34.000. Það er eins og farið hafi verið úr því að vera með heilan Mosfellsbæ aukalega á landinu upp í að vera með mitt á milli íbúafjölda Hafnarfjarðar og Kópavogs. Til að sinna opinberri þjónustu þarf fólk. Þó að við getum endalaust reynt að hagræða með tækninýjungum og sameiningum stofnana þá er staðreyndin almennt sú að fleira fólki fylgir stærri efnahagur og meiri þörf á þjónustu, 2% fleira fólk þýðir í raun og veru 2% aukahagvöxtur og 2% meiri þjónustuþörf, svona almennt séð. Bætum ferðamönnum ofan á þetta og bæði hagvöxturinn og þjónustuþörfin verður enn meiri. Álagið verður enn meira.

Við þurfum að hugsa um það hvernig við erum að uppfylla þau lög sem við höfum sett um réttindi fólks, um þjónustu sem hið opinbera veitir og þar fram eftir götunum. Við sjáum vandamál í því í málaflokki fatlaðra og heilbrigðiskerfinu, biðlistar út um allt, og í menntakerfinu eins og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra kom inn á í gær í sinni stefnuræðu. Þegar allt kom til alls þá finnst mér umræðan ekki vera á réttum stað um það hvar lausnirnar liggja í rauninni. Það er alltaf talað um stóru kökuna, það þarf að stækka kökuna. Við erum með verga landsframleiðslu, hagþróun, samanburð við hinar og þessar þjóðir. En þegar við komum niður á gólfið hvernig áhrif hafa þessar tölur á fólk? Hvernig eru þessar tölur að uppfylla þau lög sem við setjum hérna í þinginu? Þeirri spurningu er ekki svarað í þessu frumvarpi og ég skil ekki af hverju, svo ég haldi nú áfram með skilningsleysi mitt.

Við þurfum að skoða þetta í stærra samhengi. Við þurfum að hætta að horfa bara á þennan hagvöxt og aftur hagvöxt. Það eru fleiri mælikvarðar sem hið opinbera þarf að horfa til varðandi húsnæðismál, varðandi menntamál, varðandi heilbrigðismál. Verg landsframleiðsla segir okkur ekkert um það hvaða áhrif hagvöxturinn í rauninni hefur beint á t.d. á hag öryrkja. Ekki nein. Segir okkur ekkert um það hvernig álag á heilbrigðiskerfið mun þróast vegna áhrifa af fjölda ferðamanna.

Það er ýmislegt annað sem ég myndi vilja tala hérna um, söluna á Íslandsbanka, nánar um húsnæðismálin og annað sem ég var með hérna. En ég ætla að enda á því að nefna að við erum með nokkrar breytingartillögur.

Við erum með tillögu um að hækka fjármagnstekjuskatt upp í 30% og að persónuafsláttur fjármagnstekna verði hækkaður upp í 400.000 kr. á sama tíma. Það hefur breyst dálítið hvernig það er verið að éta upp í rauninni tekjur af almennum sparireikningum. Persónuafslátturinn þar ætti að halda aðeins í við þróunina á vaxtahækkununum. Við gerum ráð fyrir u.þ.b. 15 milljörðum í tekjur vegna þessarar breytingar. Við gerum ráð fyrir því að það þurfi að bæta við 800 millj. kr. í loftslagssjóð, að minnsta kosti miðað við stöðuna. Við leggjum til að fella niður heimild til sölu Íslandsbanka því að það er ekki hægt að treysta þessari ríkisstjórn til að selja þennan banka frekar en nokkuð annað. Við leggjum til 3 milljarða í framkvæmdafé til hjóla- og göngustíga þar sem einn milljarður er ætlaður til að flýta framkvæmdum þeirra verkefna sem skipulagðar eru samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, annar milljarður er ætlaður til uppbyggingar hjóla- og göngustíga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og þriðji milljarðurinn er ætlaður í uppbyggingu hjóla- og göngustíga annars staðar á landinu. Einnig 3 milljarða í Strætó vegna orkuskiptaverkefnis, þ.e. bættar verði upp 600 milljónir sem voru teknar úr orkuskiptasjóð Strætó vegna Covid og afgangurinn, 2,4 milljarðar, fari óskiptur til orkuskipta í almenningssamgöngum um allt land. 420 milljónir til héraðssaksóknara til að efla embættið og tryggja málsmeðferðarhraða. Þá 420 milljónir til Samkeppniseftirlitsins til þess að efla eftirlitið, enda hefur komið í ljós að það er ekki vanþörf á. Nóg að gera þar nefnilega. Svo að lokum 230 milljónir í málaflokk framhaldsfræðslu til eflingar íslenskukennslu fyrir innflytjendur en það á að fella niður fjárheimild upp á 115 milljónir þar sem við viljum að sé ekki gert og bætt við tvöföldu fjármagni.