154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[14:47]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hefur þessi vinna þegar farið af stað og ég geri ráð fyrir því að fá tillögur frá öllum þessum hópum í síðasta lagi 15. október. Ég vil samt segja, virðulegur forseti, því hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir nefnir að þetta sé ekki óvild í garð greinarinnar, að það er hins vegar svo að maður heyrir það margsinnis að hún sé að vaxa allt of hratt. Þá bendir maður á: Ja, við erum samt ekki búin að ná tölunni síðan 2017. Þá spyr ég: Hvaða vöxtur hefur átt sér stað í fjölda ferðamanna frá árinu 2017? Þetta er í raun og veru ekki alveg rétt sem hv. þingmaður er að segja varðandi vöxt ferðaþjónustunnar. Hafandi sagt það þá hef ég fullan skilning á því að við þurfum auðvitað að þekkja ruðningsáhrifin og þegar gengið er að styrkjast með þessum hætti þá hefur það áhrif á aðrar greinar og við getum ekkert horft fram hjá því. En ég bið bara þingmenn um að tala um staðreyndir (Forseti hringir.) til að umræðan sé upplýst og uppbyggjandi.