154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Mig langar til að rifja upp fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem hv. þingmaður, núverandi formaður Miðflokksins, fór fyrir í forsæti og hæstv. fjármálaráðherra var fjármálaráðherra í. Ef ég man rétt þá var tekin prinsippákvörðun, nú þekki ég ekki eða fylgdist ekki nægjanlega vel með á þeim tíma en eins og minni mitt segir var tekin prinsippákvörðun um að ná hallalausum fjárlögum í fyrstu fjárlögum þeirrar ríkisstjórnar. Hæstv. fjármálaráðherra leiðréttir mig ef þetta er misminni. Ég held að það sé einhver prinsippákvörðun sem þarf að taka en ég hef skilning á því að það geti verið erfitt að taka slíka ákvörðun í jafn undarlega samsettri ríkisstjórn og við búum nú við. En eins og hæstv. ráðherra var að teikna upp sviðsmyndina hér áðan þá eru ríkisfjármálin orðin dálítið mikið þeirrar gerðar að excel-skjalið og einn kontóristi gætu uppfært hlutina vegna þess að þetta er að megninu til vísitölubundið og stærstu útgjaldaliðirnir fastir. Ég held að við þurfum með einhverjum ráðum að komast út úr því þótt ég sé ekki að leggja til að við gerum grundvallarbreytingar til að mynda á almannatryggingakerfinu, sem hæstv. ráðherra vísaði í sem bundna vísitölu. En við þurfum, held ég, að setja með einum eða öðrum hætti meiri pólitík í ríkisfjármálin þar sem verður leitað leiða til að draga úr skattlagningu eins og við mögulega getum. Við erum á verðlaunapalli innan OECD hvað heildarskattlagningu varðar, þegar búið er að taka tillit til fjármögnunar lífeyrisskuldbindinga, og við eigum að reyna að komast af þeim palli. Ég fagna þeim tóni sem hæstv. ráðherra slær hér, að hann sé tilbúinn í þá vegferð að leita leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem fyrst og halda þeim þar (Forseti hringir.) af því að auðvitað skiptir það máli og þótt hæstv. ráðherra hafi sagt að mörg lönd væru með viðvarandi halla á frumjöfnuði (Forseti hringir.) þá er það ekki það sem við höfum vanist undanfarið og eigum ekki að sætta okkur við.