154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er alltaf jafn gaman að ræða þessa hluti við hv. þingmann. Það sem gerir verkefnið auðvitað líka erfitt er að stóru útgjaldaliðirnir eru þessi mikilvægu velferðar-, heilbrigðis- og menntamál. Ekkert okkar hefur gaman af því að skera niður þar. Þess vegna er ég að leggja svo mikla áherslu á forgangsröðunina, frekar að skipta út, það er líka aðhald að taka einhver verkefni út og setja brýn verkefni inn, draga úr biðlistum í mikilvægri grunnþjónustu fyrir fólk, setja eitthvað annað á bið. Það felur ekki í sér peningalegan sparnað en það lagar til í þessu.

Þetta er líka svo erfitt — hv. þingmaður kemur og talar um samspil ríkisstjórnarflokkanna sem eru svona, eins og hann orðaði það, komnir á endastöð í sínu pólitíska samstarfi og fara ekkert leynt með það. Það sem ég kannski verð að segja að ég hef ákveðnar áhyggjur af er að birtingarmyndin verði mögulega sú að það eigi sér stað einhver hrossakaup, að það verði ekki pólitískt samtal heldur að málamiðlunin felist í því að einn flokkur fái þetta og annar hitt. Það er eiginlega enn þá minni vandvirkni í því fólgin. (Gripið fram í.) Já. Þess vegna árétta ég bara, ég veit ekki — ég held að eitt af því mikilvægara sem hægt er að gera núna hér á þinginu sé að tryggja fjárlaganefnd einhvers konar vinnufrið og að nefndin — nú andvarpar hv. þingmaður, báðir sýnist mér. En þetta er bara svo mikilvæg vinna, að það sé farið ofan í grunninn á þessum málum. En svo má segja að það sé óskhyggja. Þetta er kannski ekki ríkisstjórn sem klárar þessi mál en það er þá annarra að taka boltann. Staðan er ekki góð.