154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þrjú atriði sem mig langar til að fara yfir. Við erum búin að tala um það ansi lengi að það þurfi að gera ýmsar góðar betrumbætur en ekkert gerist. Ég er búinn að vera hvað mörg ár í þessu, sex ár, þetta er sjöunda fjárlagafrumvarpið sem ég er að vesenast í hérna og einhvern veginn hreyfist ekki neitt þegar allt kemur til alls í raun og veru, alla vega ekki okkar megin frá. Mér finnst vanta einmitt að þingið segi: Heyrðu, fyrirgefið þið, stjórnsýsla, gott og vel að þið skilið okkur fjárlagafrumvarpi en við viljum að það sé gert á ákveðinn hátt þannig að það sé aðgengilegt fyrir okkur — sem það er ekki. Við höfum verið að reyna að vinna að þessu í fjárlaganefnd en það hefur ekki hreyfst mikið.

Annað sem ég klóra mér aðeins í hausnum yfir er að fyrri fjármálaáætlanir hérna eftir Covid gerðu ráð fyrir mun hægari efnahagsbata en hefur gerst. Þrátt fyrir það erum við í rauninni með meiri niðurskurð en þær fjármálaáætlanir gerðu ráð fyrir. Það er mjög áhugavert að það sé einmitt verið að skera meira niður á þessu ári en síðasta þegar það ár átti líka að vera aðhaldsár út af verðbólguáhrifum, það var sérstaklega í því fjárlagafrumvarpi líka, miðað við að það er samt að ganga betur heldur en upprunalegu fjármálaáætlanirnar gerðu ráð fyrir.

Þriðja, varðandi aðhaldið. Það er nú Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur svona mestan áhuga á aðhaldi í ríkisfjármálum, af hverju stökkva ekki Sjálfstæðisflokkurinn og þau ráðuneyti sem Sjálfstæðisflokkurinn stýrir á tækifærið að fá að taka til sín allt aðhaldið og útfæra það eins mikið og þau geta og monta sig af því?