131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:36]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að vekja athygli hv. þm. á því að fleira er hægt að gera fyrir þá sem lægri hafa kjörin en að lækka skattprósentuna. Þannig hafa útgjöld til ýmissa málaflokka hækkað allverulega samhliða þeim skattalækkunum sem gerðar hafa verið. Ég minni hv. þm. einnig á að á tímabilinu frá 1994 fram til ársins 2002 jókst kaupmáttur lægstu launa um 58%.

Við höfum tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem tvöfaldaði útgjöld almannatrygginga frá árinu 1998 til ársins 2005, þ.e. úr 19 milljörðum hafa þau hækkað upp í 38 milljarða. Það má taka fleiri slík dæmi.

Í ríkisfjármálunum er verið að koma mjög verulega til móts við ýmsa þá sem lægri hafa kjörin og illa eru settir í þjóðfélaginu, öryggisnetið hefur verið þétt svo um munar ár frá ári, ár eftir ár.

Hvað dvelur orminn langa? spyr hv. þm. Í núverandi ríkisstjórn hefur verið gengið út frá því að meginþungi skattalækkananna muni koma til framkvæmda á síðari hluta kjörtímabilsins þannig að það er í sjálfu sér ekkert farið forgörðum þó að ekki hafi enn tekist samkomulag um það hvernig útfæra á lækkanir eða endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu. En ég get alveg tekið undir með hv. þm. um að ég vil sjá niðurstöðu í því máli sem allra fyrst.