131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:26]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerir að umtalsefni við þessa umræðu fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það er rétt sem hv. þm. vitnaði til að fyrir um hálfum mánuði síðan, 17. september, náðist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um ákveðin atriði sem tekin skyldu til umræðu og skoðunar milli þessara tveggja stjórnsýslustiga og varða fjárhagsleg samskipti.

Þar kemur fram í 3. lið að nefndinni verði falið að fjalla um horfur í fjármálum sveitarfélaga með sérstakri áherslu á að skoða þau sveitarfélög og svæði sem standa höllum fæti fjárhagslega, meta ástæður fyrir þeim vanda og gera tillögur sem leitt geta til úrbóta, og einkum verði horft til eftirfarandi atriða, þ.e. hvort rýmka beri heimildir sveitarfélaganna til nýtingar núverandi tekjustofna, hvort það komi til álita að marka þeim nýja tekjustofna, hvort ójafnræðis gæti í tekjumöguleikum sveitarfélaga og hugsanlegar breytingar á jöfnunarkerfi í því sambandi, og að síðustu hvort Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði markaðir nýir tekjustofnar, m.a. í tengslum við fækkun undanþágna frá fasteignaskatti.

Í 6. lið kemur fram að í tengslum við fækkun og eflingu sveitarfélaganna geti skapast aukin þörf fyrir fjármagn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að aðstoða einstök sveitarfélög við sameiningu í samræmi við reglur sjóðsins. Fram kemur að þeirri þörf verði mætt með framlögum úr Jöfnunarsjóði og ef þörf krefur með framlögum úr ríkissjóði á árunum 2005–2009.

Hv. þm. spurði enn fremur um einkahlutafélög, húsaleigubætur og fráveitumál. Tími minn í fyrra andsvari mínu, hæstv. forseti, leyfir ekki svör við þeim spurningum en ég mun víkja að þeim í síðara svari mínu.