133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Það hefur, eins og vænta mátti, víða verið komið við í þessari umræðu í dag. Þingflokkarnir eru ekki sammála um grundvallaratriði í öryggis- og varnarmálum, hafa ekki verið það. Það undirstrikast mjög glöggt í þessari umræðu.

Það má ekki gleyma því á hvaða grunni það samstarf sem nú er verið að tala um er byggt. Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið 1949 og gerðu varnarsamning 1951 við Bandaríkin af ástæðum sem þá lágu alveg skýrar fyrir. Við vorum að tryggja öryggi okkar sjálfra. Við vorum jafnframt að skipa okkur í fylkingu með þeim öflum í okkar heimshluta sem vildu standa vörð um lýðræði og frelsi gegn þeim sem ekki voru á þeirri línu. Við vitum alveg hvernig þeim átökum lauk. Lýðræðisþjóðirnar unnu hina hugmyndafræðilegu baráttu og Sovétríkin hrundu og fylkingin þeirra megin flykktist inn í Atlantshafsbandalagið. Öll hin nýfrjálsu ríki létu það verða eitt sitt fyrsta verk að ganga í lið með lýðræðisríkjunum í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.

Við tókum þátt í þessari baráttu, þessari hugmyndafræðilegu baráttu með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og við tryggðum okkar eigin varnir með samningnum 1951 en við vorum jafnframt þá að leggja lóð á vogarskálarnar fyrir bandamenn okkar vestan hafs og austan.

Nú er þetta sem betur fer allt breytt. Staðan er gjörbreytt. Það þarf ekki að ræða það mikið hér. En við stöndum frammi fyrir nýjum veruleika. Hin gamla hernaðarlega ógn sem kynni að stafa af öðru landi er ekki fyrir hendi í dag. Við gerum ekkert ráð fyrir því að hingað verði gerð innrás frá öðru ríki. En það eru ýmsar aðrar ógnir í gangi eins og við höfum margrætt og þekkjum vel. Við þurfum að búa okkur undir hið óvænta í öryggismálum okkar, hvort sem það er vegna hefðbundinna eða óhefðbundinna ógna. Við þurfum að vera undir það búin að eitthvað óvænt geti gerst jafnvel þó við eigum ekki von á að það verði ráðist á okkur. Hvernig gerum við það best? Það er spurningin sem við þurfum að svara. Mín niðurstaða og okkar í ríkisstjórninni var sú, þegar Bandaríkjamenn ákváðu að kalla heim herstyrk sinn frá Íslandi, að besta leiðin til að tryggja öryggi okkar væri að vera áfram í varnarsamstarfi við þá á grundvelli varnarsamningsins en að sjálfsögðu á nýjum forsendum sem byggðust á að hér væri ekki föst viðvera varnarliðs.

Það er sú niðurstaða sem nú er fengin og við ræðum hér um. Við munum vonandi ganga frá því máli í næstu viku með formlegri undirritun. Auðvitað hefði verið betra, að mínum dómi og þeirra sem eru sama sinnis og ég, að hér hefði áfram verið einhver lágmarksviðvera bandarísks varnarliðs. Það hefði verið betra. En sá kostur var ekki fyrir hendi. Þá verða menn að spila úr málinu á grundvelli þess sem raunhæft er og fyrir hendi er. Ég hefði frekar viljað hafa hér einhverja lágmarksviðveru. Ég hefði viljað hafa þessar fjórar þotur sem við höfum verið að tala svo mikið um. En það var ekki raunhæft og það mál gekk ekki upp eins og náttúrlega allir vita.

Við munum ljúka þessu máli með undirritun í næstu viku. Ríkisstjórnarflokkarnir bera ábyrgð á þessu samkomulagi. En það er hins vegar mjög athyglisvert að í þessum umræðum hefur komið fram að arftaki Alþýðuflokksins, minnsta kosti hluta Alþýðuflokksins, Samfylkingin, ætlar ekki að bera neina pólitíska ábyrgð á þessu. Þá liggur það bara fyrir. Þá geta arftakar Alþýðuflokksins reynt að fá þessu breytt í nýrri ríkisstjórn ef þetta er eitthvað sem þeir eru ekki ánægðir með.

Alþýðuflokkurinn bar ábyrgð á samkomulaginu sem gert var 1989 varðandi grunnvatnsmálið. Alþýðuflokkurinn á sér mikla sögu í þessum samskiptum öllum. Ég gagnrýni ekki það sem þá var gert. En ég vek athygli á að það er ekki hægt að skjóta sér undan ábyrgðinni sem menn tóku á sig varðandi einstök mál.

Virðulegi forseti. Það er ekki tími til að ræða þetta mál öllu lengur hér. Við gerum það vonandi við betra tækifæri í öðrum umræðum. En ég þakka þessa umræðu og vænti þess að hún megi verða til að upplýsa þetta mál aðeins betur en ella hefði orðið.