135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[14:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki meint það sem hann sagði um vinnubrögð fjármálaráðuneytisins við að semja þessa skýrslu tvisvar á ári. Hann gaf til kynna að þar væru menn að misnota aðstöðu sína og fegra myndina frá því sem raunin væri. Þetta er mjög alvarlegur áburður á þá sem þessa skýrslu vinna sem eru nú, og hafa verið, toppfagmenn. Málið er auðvitað það að síðan er fjöldinn allur af öðrum aðilum sem gefur út þjóðhagsspár alveg eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi varðandi þjóðhagsspá Landsbankans. Það eru auðvitað ýmsir aðrir sem standa í þessu.

Í töfluyfirlitinu í þessari skýrslu geta menn borið saman mismunandi spár og ráðuneytið birtir hér sjálft yfirlit yfir það hvernig spárnar frá ráðuneytinu hafa breyst í áranna rás. Þær breytast ekki vegna þess að menn hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera á einhverju tímabili heldur vegna þess að forsendurnar breytast og umhverfið breytist. Það er ástæðan fyrir því að þannig er.

Hv. þm. Árni Páll Árnason vakti athygli á veigamiklu atriði í sambandi við viðskiptahallann. Það er náttúrlega þannig að á móti þeim skuldum sem hann býr til myndast eignir og Íslendingar hafa verið að byggja upp miklar eignir í útlöndum. Þær eru í þessu bókhaldi öllu saman metnar á bókfærðu verði, þ.e. kaupverði, þær eru ekki metnar á markaðsverði. Í flestum tilvikum eru því eignirnar sennilega vanmetnar á móti skuldunum og það hefur heilmikil áhrif á þetta uppgjör, en það er líka þannig að þær skuldir sem hér er verið að tala um, og standa að baki viðskiptajöfnuðinum, eru byggðar á viðskiptum einkaaðila sem væntanlega lána ekki fjármuni nema til arðgefandi starfsemi sem þeir þá eiga von á að geti borgað lánin til baka. Það þarf að hafa allt þetta í huga.

Því hefur jafnframt verið haldið fram af ábyrgum aðilum hér í þjóðfélaginu að mikil skekkja sé í þessu dæmi. Ég minni á það sem fram hefur komið, til að mynda frá Samtökum atvinnulífsins, hvað þetta mál varðar.

Nóg um það, ég ætla ekki að gera lítið úr því að viðskiptahallinn er of mikill hvað sem þessu öllu líður. Við höfum verið að byggja hér upp atvinnuvegi í landinu, m.a. með stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi, til þess að auka útflutninginn, til þess að afla gjaldeyris til þess að efla þann jöfnuð sem um er að tefla. Það er búið að flytja mikið inn til þess að geta búið til þessi útflutningstækifæri síðar meir. Hv. frummælandi vék að því, gerði nú heldur lítið úr því, en það er alveg rétt sem hann sagði, að einkaneysla hefur verið mikil í landinu og innflutningur sem af henni hefur stafað. En grunnstoðirnar í íslenskum þjóðarbúskap eru mjög sterkar. Það viðurkenna allir menn, það kemur fram í öllum mælingum sem alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki birta um stöðu okkar og að því er dáðst víða um heim hvernig Íslendingar hafa getað komið ár sinni fyrir borð efnahagslega með sitt litla hagkerfi. Það er móðgun að nefna land eins og Mjanmar eða Laos eða önnur slík lönd í sömu andrá og Ísland hvað varðar efnahagsmál. Það fær náttúrlega ekki staðist með nokkrum hætti, okkar staða er svoleiðis margfalt, margfalt betri en hjá slíkum aðilum og eiginlega fyrir neðan virðingu manna að koma með slíkan samanburð. (Gripið fram í.)