135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að það þyrfti fullkomna hugarfarsbreytingu gagnvart byggðum og byggðamálum. Ég er sammála því. Ég held hins vegar að sá sem þurfi helst á slíkri hugarfarsbreytingu að halda sé hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. Ég verð að segja það um leið og ég þakka honum fyrir að taka þetta mikilvæga mál til umræðu að ég sakna þess bjartsýna baráttumanns sem áður gekk hér keikur um sali. Í staðinn er kominn formaður Framsóknarflokks sem er fullur af bölmóð, fastur í pólitísku þunglyndi og sér ekki til sólar. Við þekkjum það hins vegar sum af eigin reynslu, við sem höfum gengið í gegnum þennan djúpa dal sem hann er í núna, að á meðan forustumenn stjórnmálaflokka tala af slíkri vantrú á landsbyggðina og vantrú á sína eigin þjóð þá eru þeir um leið að tala niður fylgi síns eigin flokks. Það var töluverður munur á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og formanns Framsóknarflokksins hérna áðan og kannski er það skýringin á því að Vinstri grænir hafa verið að eflast á kostnað Framsóknarflokksins sem hefur undir bölmóðstauti formannsins tapað um fjórðungi fylgisins á örskömmum tíma.

Frú forseti. Það er því alveg rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það þarf hugarfarsbreytingu. En hennar sér stað í þeim rauðu þráðum sem renna í gegnum mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Á hvað leggur ríkisstjórnin áherslu? Á að efla grunngerðina. Á að bæta innviðina og það felst í því eins og allar ályktanir sveitarstjórnar lögðu fram: bæta samgöngur, bæta menntun, bæta fjarskipti og ýta undir nýsköpun starfa á landsbyggðinni. Það er þetta sem hefur verið gert. Það hafa verið lagðir fimm, fast að sex milljarðar í að flýta samgöngubótum á landsbyggðinni, þessi svæði hafa forgang, skiptir það ekki máli? Það hafa verið lagðar 800 millj. í að bæta endurmenntun og menntastig landsbyggðarinnar? Skiptir það ekki máli?

Það hafa verið settar 500 millj. í að efla hafrannsóknir og efla rannsóknir á þorskeldi þegar teknar eru þær upphæðir sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu og í mótvægistillögunum. En það er eins og hv. þm. Guðni Ágústsson hafi ekki lesið tillögurnar.

Það eru næstum því 600 millj. sem eru teknar til að efla nýsköpun á landsbyggðinni. Það eru settar 180 millj. kr. í vaxtarsamning á landsbyggðinni, þar á meðal á Norðurlandi vestra þar sem Framsóknarflokkurinn beiddi upp í fyrra og á norðausturhorninu þar sem Framsóknarflokkurinn hafði greinilega engan sérstakan áhuga á því að setja upp vaxtarsamning. Svona mætti lengi telja.

Í fjölmiðlum hefur formaður Framsóknarflokksins farið háðulegum orðum um aðgerðir sem kosta samtals í nýjum útgjöldum 6,5 milljarða. Samtals eru hreyfðir fast að 13 milljörðum. Hann hefur kallað þetta mús, hann hefur kallað þetta fúsk, hann hefur kallað þetta vitleysu og hann hefur kallað þetta plat. Hann kvartar meira að segja undan því og stillir sér upp með stórútgerðarvaldinu að það fái ekki nóg í sinn hlut. Það fær þó 500 millj. kr. sem eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði í gær að væri umdeilanlegt og það er það. Hann gefur ekkert fyrir þó að Byggðastofnun sé reist úr þeirri öskustó sem Framsóknarflokkurinn skildi hana eftir í. Hlustaði hv. þingmaður á fréttir í gær? Byggðastofnun er þegar farin að vinna sitt verk. Það er verið að búa til 25–30 störf á Ísafirði fyrir atbeina Byggðastofnunar. Formaður Framsóknarflokksins hefur greinilega ekki lesið heima sem er sjaldgæft. Þær tillögur sem hann hefur verið að berjast fyrir eru allar utan eina að finna í tillögum ríkisstjórnarinnar. Svo einfalt er það nú, hv. formaður, og óska ég honum nú góðs dags og meiri bjartsýni í framtíðinni.