137. löggjafarþing — 3. fundur,  19. maí 2009.

endurskipulagning þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[14:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er ákveðinn prófsteinn á þá ríkisstjórn sem nýlega hefur tekið við völdum í landinu. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hafði, eins og öllum er kunnugt, ekki meiri hluta á Alþingi og var það Framsóknarflokkurinn sem veitti þeirri stjórn hlutleysi sitt og varði hana vantrausti á sínum tíma. Nú hefur þessi stjórn góðan meiri hluta á vettvangi þingsins en þetta er jafnframt stjórn sem í orði kveðnu, í aðdraganda síðustu kosninga, boðaði ný og breytt vinnubrögð, samráð og þjóðarsátt í íslensku samfélagi á einum erfiðustu tímum sem við höfum upplifað í lýðveldissögunni.

Þegar við horfum á afstöðu aðila í samfélaginu eins og aðila vinnumarkaðarins, sem vara mjög alvarlega við því að sú leið sé farin sem ríkisstjórnin leggur til, er það ekki glæsileg byrjun hjá nýrri ríkisstjórn að hunsa gersamlega þau aðvörunarorð sem koma bæði frá atvinnurekendum og launafólki. Það ber ekki mikinn vott um samráð eða samræðustjórnmál að ný ríkisstjórn skuli byrja á því að leggja fram frumvarp, sem sitt fyrsta mál á vettvangi Alþingis, algerlega í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er þetta það samráð sem ráðherrann boðaði í aðdraganda síðustu kosninga? Hefði ekki verið einnar messu virði hjá ríkisstjórninni að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins og reyna að finna einhverja lausn á því máli sem við ræðum?

Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt í gríðarlega mikla vinnu við það að koma með tillögur um það hvernig við getum sem þjóð unnið okkur út úr þeim efnahagsvandræðum sem blasa við okkur. Aðilarnir hafa í sameiningu lagt í miklu vinnu, eins og ég sagði áðan, til að koma með tillögur. Mig langar að vitna í umsögn Alþýðusambands Íslands sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð settu í gang vinnu við að stofna sérstakan fjárfestingarsjóð til að vinna að endurskipulagningu atvinnulífsins. Niðurstaðan af þessari vinnu var að stofna sérstakan fjárfestingarsjóð þar sem lífeyrissjóðum, innlendum og erlendum kröfuhöfum gömlu bankanna, nýjum fjárfestum og ríkinu yrði boðin þátttaka í þessu endurreisnarstarfi. Áhersla var lögð á dreifða og opna eignaraðild og að skilgreindum siðferðislegum og samfélagslegum viðmiðunarreglum yrði beitt við val á fjárfestingarkostum. Óskað var eftir því við stjórnvöld og Alþingi að veittar yrðu heimildir til að útvíkka fjárfestingarheimildir til lífeyrissjóðanna þannig að þeir gætu tekið þátt í þessu mikilvæga endurreisnarstarfi og var orðið við því.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ástæða til þess að beinlínis vara við því formi sem hér er lagt til, þ.e. að ríkið stofni opinbert hlutafélag sem eignaumsýslufyrirtæki. Ljóst má vera að afar erfitt verður að ákveða hvaða fyrirtækjum eigi að bjarga og hvaða fyrirtækjum eigi ekki að bjarga.“

Við horfum upp á það, frú forseti, að íslenskt samfélag er að fara marga áratugi aftur í tímann og þetta eru stór orð. En þegar Alþingi Íslendinga ætlar að veita fjármálaráðherra heimild til að skipa fimm fulltrúa sína í stjórn þessa fyrirtækis, sem hefur mjög loðnar skilgreiningar á hvaða fyrirtæki séu þjóðhagslega mikilvæg og hver ekki, vil ég spyrja hæstv. ráðherra, mér finnst mikilvægt að það komi fram í umræðunni: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að skipa þessa stjórn? Á hér að vera um flokksbundna aðila í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni að ræða? Ég hélt að við hefðum, í aðdraganda þessara kosninga, talað fyrir nýjum vinnubrögðum, nýjum þjóðarsáttmála um það hvernig íslenskir stjórnmálamenn eigi að vinna. Það er því mikilvægt að fá svar hæstv. ráðherra um hvernig standa eigi að skipan í stjórn þessa fyrirtækis. (Fjmrh.: Framsókn hefur aldrei skipað flokksmenn í nokkurt fyrirtæki.) Nú heyri ég að hæstv. ráðherra er mjög umhugað um fortíðina og Framsóknarflokkinn.

Við gætum rætt um ýmsa hluti hér þar sem hæstv. ráðherra er eldri en tvævetur. Eigum við að ræða um það hvaða ráðherrar á ríkisstjórnarbekkjunum komu að því að setja frjálsa framsalið á í fiskveiðistjórnarkerfinu? Eigum við að ræða það, hæstv. fjármálaráðherra? Það er einfaldlega þannig að flestir eiga sér einhverja fortíð í stjórnmálum. En með fullri virðingu er meðalaldur í þingflokki Framsóknarflokksins innan við 40 ár. Ein mesta nýliðun á vettvangi þingsins varð í þingflokki Framsóknarflokksins og þingflokkur Framsóknarflokksins hefur tekið þá ákvörðun að horfa fram veginn, hvernig samfélag við ætlum að skapa, en ekki að líta alltaf í baksýnisspegilinn eins og gömlum stjórnmálamönnum er tamt. Við erum að tala um það hvernig samfélag við viljum byggja til framtíðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því og það er mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu: Hversu mikið getur þetta félag skuldbundið ríkissjóð? Er ekki um algerlega opinn víxil að ræða? Ný stjórn í þessu fyrirtæki getur skuldbundið íslenskan ríkissjóð og íslenskan almenning, er ekki vert að reyna að takmarka það með einhverjum hætti? Eða er það svo að við alþingismenn, gamlir jafnt sem þeir sem eru að setjast á þing í fyrsta skipti, ætlum með samþykkt á þessu frumvarpi að samþykkja opinn víxil til einhverra stjórnarmanna í opinberum hlutafélögum úti í bæ sem geta tekið ákvörðun um að skuldbinda íslenskan ríkissjóð og skattborgara um tugi milljarða kr. án þess að þingmenn komi þar nokkuð að, þingmenn sem eiga að fara með fjárveitingavaldið? Hér er að öllu óbreyttu um afsal þingsins að ræða í hendur framkvæmdarvaldsins og aðila úti í bæ sem eiga að skilgreina eftir eigin hentugleika hvað eru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að setja þurfi einhver bönd á það hvað aðilar geta gert til að skuldbinda ríkissjóð með því að yfirtaka stór og mikil fyrirtæki í samfélaginu.

Hæstv. ráðherra talar um að menn hafi leitað að sænskri fyrirmynd í þessum efnum en ég vil minna hann á að í því tilviki var höfuðáhersla lögð á að skilja á milli atvinnulífsins annars vegar og stjórnmálanna hins vegar. Ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætla að setja „sitt fólk“ í stjórn þessa félags er ég hræddur um að við horfum upp á sams konar þróun og var fyrir mörgum áratugum, þar sem fólk fékk jafnvel húsnæðislán út á flokksskírteinið, þar sem aðilar flokkanna sátu í stjórn gömlu Húsnæðisstofnunarinnar og það voru kvótar á flokkana. Sjálfstæðismenn áttu viss mörg lán, kratar áttu viss mörg lán, framsóknarmenn viss mörg lán og halda mætti áfram eftir því. Er þetta samfélag sem við viljum skapa á grunni þeirra efnahagslegu rústa sem blasa við okkur? Ég segi nei. Ég spyr ráðherrann að því hvort hann telji ekki að það sé eðlilegt að í stjórn þessa félags, ef af því yrði, mundu skipast aðilar sem til að mynda yrðu tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins, frá Seðlabankanum, jafnvel úr háskólanum, aðilar sem eru ekki merktir með einhverjum flokkspólitískum stimplum. Það er alveg ljóst að fram undan eru mjög margar erfiðar ákvarðanir á vettvangi viðskiptalífsins. Þar þurfa aðilar að ákveða hverjir lifa og hverjir deyja og á það þá orðið að skipta máli hvaða flokki viðkomandi aðili tilheyrir eða ekki? Í guðanna bænum, við skulum forðast það að fara að tengja stjórnmálin og íslenskt viðskiptalíf á ný órjúfanlegum böndum.

Frú forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er það ljóst að aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins, hafa eindregið lagst gegn því að þetta frumvarp verði samþykkt. Við hljótum því að velta því fyrir okkur hvernig samskiptum aðila vinnumarkaðarins og þessarar nýju ríkisstjórnar verður háttað í framhaldinu. Þegar atvinnurekendur í landinu og talsmenn launamanna segja að við skulum ekki ráðast í þessar aðgerðir og ekki er á þá hlustað hvert verður framhaldið í þjóðarsáttinni hér á landi? Við eigum eftir að lenda mjög mörgum erfiðum málum á þessum tímum sem við lifum og hvert á samráðið að vera? Þetta er ekki samráð, frú forseti, heldur er hér um einræði að ræða, einræði tveggja flokka sem ætla að koma þessu frumvarpi í gegn með góðu eða illu alveg sama þó að tveir af stjórnarandstöðuflokkunum hafi lýst yfir andstöðu sinni við málið, alveg sama þó að Alþýðusamband Íslands eða Samtök atvinnulífsins hafi lagst gegn því. Nei, þetta mál skal í gegn. Eru þetta þessi nýju stjórnmál sem þessir tveir flokkar hafa talað fyrir? Ég segi nei.

Mér finnst með ólíkindum og ríkisstjórninni til vansa að hún skuli ekki hafa gert heiðarlega tilraun til að koma til móts við þá sem hafa gert mjög alvarlegar athugasemdir við þetta. Hvað er að því að hafa opna heimild um það að aðrir aðilar en ríkið geti komið að eign á þessu félagi? Lífeyrissjóðirnir, erlendir kröfuhafar, innlendir kröfuhafar — hvað er að því að hafa þetta opið og gegnsætt? Hvað er að því að fleiri en ríkið komi að svona félagi? Ég vil að hæstv. ráðherra rökstyðji það af hverju ekki má veita lífeyrissjóðunum aðgang að þessu og öðrum aðilum vinnumarkaðarins. Í annars ágætri ræðu, þar sem ég var ósammála honum um margt, rökstuddi hann það ekki af hverju þetta eigi einungis að vera ríkisins í stað þess að hleypa fleiri aðilum að, hafa ferlið gagnsætt, losa um þær efasemdarraddir sem eru í kringum þetta mál hjá öllum aðilum á vinnumarkaðinum, reyna að koma til móts við þá með einhverjum breytingum, einhverri opnun. Nei, það kemur ekki til greina. Við hljótum að krefjast svara við því af hverju slík opnun er ekki í frumvarpinu.

Ég óska ríkisstjórninni að sjálfsögðu — þar sem þetta er fyrsta ræða mín eftir að nýkjörið þing kom saman — velgengni. En mér finnst þetta start hjá þessari ríkisstjórn, að koma fram með mál af þessu tagi í algerri andstöðu við stóran hluta af stjórnarandstöðunni og aðila vinnumarkaðarins, án þess að gera heiðarlega tilraun til að ræða málin á þeim vettvangi — mér finnst þessi fyrstu spor ríkisstjórnarinnar því miður ekki lofa góðu. Þetta er algerlega í andstöðu við það sem forustumenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, og allir frambjóðendur þeirra í aðdraganda síðustu kosninga, boðuðu. Opin vinnubrögð, lýðræðisleg umræða, samráð skyldi haft. Síðan er fyrsta mál ríkisstjórnarinnar lagt fram í þingsölum í algerri andstöðu við aðila vinnumarkaðarins og fleiri í samfélaginu.

Þetta byrjar ekki vel, frú forseti. Ég vona að þetta muni ganga betur en fyrsta mál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram gefur til kynna. Við framsóknarmenn segjum það af fullum heilindum að við erum tilbúnir að koma að því að styðja öll góð mál. En við viljum leiða mál til lykta í samvinnu og í samráði við mikilvæga aðila í samfélaginu, lykilaðila eins og aðila vinnumarkaðarins sem munu gegna því hlutverki, með kjörnum fulltrúum á þingi, að skapa alvöruþjóðarsátt til að við getum komið okkur út úr þeim erfiðleikum sem blasa við okkur. En það er alveg ljóst að ef við vinnum ekki saman að því að leysa hlutina, ef við tölum ekki saman, þá verður þessi ganga mun erfiðari en ella hefði þurft. Ég vil fyrir hönd okkar framsóknarmanna hvetja til meira samráðs og meiri samræðu um þau viðfangsefni sem blasa við okkur en að við þurfum ekki að horfa upp á það að ríkisstjórnin leggi fram mál án þess að reyna að ná einhverri niðurstöðu um það áður.