141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég heyri að hann er kominn í prófkjörsbuxur og talar mikið um árangur ríkisstjórnarinnar. Ég hjó eftir því í máli hv. þingmanns, hann leiðréttir það þá ef ég hef ekki tekið nægilega vel eftir, að hann setti ákveðinn fyrirvara við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna, þ.e. gistingu, sem á að skila 2,6 milljörðum á næsta ári. Hann nefndi að það yrði skoðað og þessi starfshópur sem á að fara yfir þessi mál muni fylgjast með því. Hann nefndi líka sérstaklega að þeir aðilar sem starfa í ferðaþjónustu eru búnir að fjármagna sig eða gera áætlanir fram í tímann. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort honum finnist ekki óeðlilegt að hafa svokallað samráð eftir á, eftir að búið er að taka ákvörðun um að leggja á skattinn.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um svokallaða tímabundna skatta. Þegar verið er að koma með nýja skatta heyrum við forustumenn ríkisstjórnarinnar og talsmenn í ýmsum málum segja að þeir séu tímabundnir og réttlætingin er alltaf: Jú, þeir eru auðvitað tímabundnir út af núverandi stöðu ríkissjóðs og þeir munu auðvitað verða lagðir af innan ákveðins tíma. Síðan ganga áætlanir um að bæta hagvöxtinn og umhverfið í efnahagslífinu ekki upp og þá eru þeir ekki lagðir af. Núna er til að mynda verið að framlengja mjög marga þessara skattstofna inn í framtíðina. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái einhvern tíma færi á því að lækka þessa skatta sem áttu alltaf að vera tímabundnir.

Síðan vil ég benda hv. þingmanni á þau markmið sem sett eru fram í fjárlögum ársins 2013, en við þekkjum það bæði frá árinu 2010 og 2011 að það hefur munað tugum milljarða á markmiðunum og niðurstöðunni. Markmiðin eru fín og góð en niðurstaðan er auðvitað sá reikningur sem skattgreiðendur þurfa að borga, þ.e. almenningur í landinu. Nú þegar á árinu 2012 eru í kringum 11,5 milljarðar í mínus út af framkvæmd fjárlaganna á gjaldahliðinni. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann um viðbrögð hans við þessu og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að upphafsstaðan fyrir árið 2013 sé ekki eins og til var ætlast.