143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað þannig að með því að leggja á verulega lægri sérstök veiðigjöld á þessu ári, á næsta ári og inn í framtíðina er verið að afsala ríkissjóði umtalsverðum tekjum sem við mörg hver teljum að hann gæti vel fengið af því að greiðandinn þoli það vel. Afkoma sjávarútvegsins er ef eitthvað er enn þá betri, samanber nýjustu tölur, en menn höfðu áttað sig á. Veiðigjöldin, virðisaukaskattur á hótelgistingu, auðlegðarskatturinn, orkugjöldin sem þessi ríkisstjórn ætlar öll að láta hverfa er auðvitað tekjutap.

Það er alveg stórkostlegt að standa hér í þessum sporum, hafandi setið undir endalausum ræðum frá þáverandi stjórnarandstöðu allt síðasta kjörtímabil um hina ægilegu skattpíningu og 200-skattana frá mér og allt það — nei, nú var ég ekki nógu duglegur, við vorum ekki nógu dugleg í sköttum. Þetta er alveg „hilarious“, frú forseti.

Það var ekki þjónkun við erlenda kröfuhafa sem réði því, væntanlega ekki þegar þáverandi ríkisstjórn samþykkti að reyna að leysa Icesave-málið með samningum né allar tilraunirnar til að gera það allt síðasta kjörtímabil, við þurfum lengri tíma til að fara betur yfir það mál. (Forseti hringir.) En enn er hv. þingmaður við sama heygarðshornið að veifa hér mörg hundruð milljörðum sem aldrei voru til staðar í því máli. Núvirtur I. Icesave-samningurinn hefði kostað innan við 70 milljarða kr.