144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er auðvitað mjög stórt spurt þegar farið er út í greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfja, en meginatriðið varðandi þessa breytingu er að það er verið að ljúka innleiðingu á greiðsluþátttökukerfinu. Það er það sem um er að ræða.

Hvernig eigum við að taka á þessum málum til framtíðar? Stærsti vandi okkar er kannski ekki sá að ákveða hvernig við ætlum að haga hlutdeild sjúklinga á móti hlut ríkisins, heldur sá að lyf virðast fara síhækkandi og það er alþjóðlegt vandamál. Við þurfum að taka á því með miklu breiðari umræðu en þeirri hver hlutur sjúklingsins á nákvæmlega að vera og hlutur ríkisins. Við eigum að skoða það hvernig við getum laðað fram lægra lyfjaverð í landinu með aukinni þátttöku t.d. við Norðurlöndin í útboðum og annað slíkt. Þetta er risastór umræða.

Hitt, sem snýr að hlutfalli frumgjalda af landsframleiðslu, er í sjálfu sér eins og ég benti á fyrr í dag ekkert annað en fyrri ríkisstjórn stefndi að, þ.e. (Forseti hringir.) að beita áframhaldandi aðhaldi í ríkisrekstrinum svo að við getum hætt að safna skuldum.