144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem spurt er um hér er í raun og veru spurningin um það hvort ekki sé rétt að vera með lægra þrep. Það felst í tillögunni að viðhalda tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi. Það felst líka í tillögunni sú skoðun að gengið hafi verið of langt í því að skilja á milli efra og neðra þrepsins, enda er munurinn, 18,5%, sá mesti sem þekkist hjá þeim löndum sem við horfum til og hafa sambærileg kerfi, sá mesti sem þekkist. Það býr til ranga hvata.

Lækkun neðra þrepsins kemur við marga viðkvæma vöru, það er alveg hárrétt. Þess vegna verður sú ákvörðun ekki tekin án þess að eitthvað annað komi á móti. Við lækkum efra þrepið og förum með það niður í lægsta stig sem það hefur verið frá því að kerfið var tekið upp. Það hefur aldrei verið 24% eða lægra, aldrei áður, það skiptir máli. Hvers vegna? Vegna þess að allur meginþorri neyslunnar er í efra þrepinu. (Forseti hringir.) Svo kemur afnám vörugjaldanna til viðbótar ásamt öðrum aðgerðum.