144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að hafa skilning á því að þessi greinarmunur á nauðsynjavörum og öðrum vörum merkir eitthvað.

Ég fagna afnámi vörugjalda, en þetta eru ekki nauðsynjavörur í þeim skilningi sem þarna eru undir. Þetta eru matur, heitt vatn, rafmagn, að kunna að lesa. Þetta eru fullkomnar nauðsynjar. Mér finnst það ekki hljóma sem einföldun vegna þess að mér finnst það mjög athyglisverð yfirlýsing af hálfu hæstv. ráðherra að það verður áfram tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi. Þá finnst mér þetta bara vera spurning um hverjar eru hinar sanngjörnu skattprósentur. Það er engin sérstök einföldun í því að hafa þær frekar 24/12 en 25/7. Það er einfaldlega bara spurning um pólitík og forgangsröðun.

Síðan er sagt að verið sé að afnema undanþágur í þessu kerfi — sem ég tel mjög mikilvægt — en hér og nú er bara verið að afnema eina undanþágu og það er á afþreyingarferðum í ferðamannaiðnaði. (Forseti hringir.) Hvaða fleiri undanþágur? Getur hæstv. fjármálaráðherra sýnt okkur aðeins meira á spilin, hvaða fleiri undanþágur á að afnema?