144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur tröllið stolið jólunum. Almenningur á Íslandi hefur fært margvíslegar fórnir og unnið þrotlaust starf við að endurreisa Ísland úr hruninu á sex árum og nú loksins þegar svigrúmið er að skapast er það allt tekið fyrir ríka fólkið, fyrir útgerðina og fyrir hina tekjuháu en lífsnauðsynjar fyrir launafólk í landinu hækkaðar stórkostlega.

Þetta er sárgrætilegt því að það fólk sem hefur á undanförnum árum lagt á sig skattahækkanir, launalækkanir, hækkanir á skuldum, greiðslubyrði og margháttaða aðra erfiðleika, tugir þúsunda íslenskra heimila sem hafa haldið skútunni gangandi ár eftir ár þó að oft væri svart fram undan, er það sem ætti nú að vera að njóta uppskerunnar. Það ætti ekki að vera að nota uppskeruna í að lækka auðlegðarskattinn hjá 5 þúsund ríkustu heimilunum í landinu um 10 milljarða. Þeim 10 milljörðum væri betur varið hjá heimilunum í landinu. Það ætti ekki að hækka lífsnauðsynjar á þessi heimili til að lækka gjöld á ýmiss konar lúxusvarning og sykraða vöru. Það ætti sannarlega ekki að nota þann ávinning sem starf almennings í landinu, launafólks og lífeyrisþega á síðustu árum hefur skapað til að lækka veiðigjöldin hjá stórútgerðinni sem sannarlega græðir á tá og fingri þessi árin, sem betur fer.

En þessi forgangsröðun þarf ekki að koma okkur á óvart hjá fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur auðvitað boðað kjósendum sínum það að hjá Sjálfstæðisflokknum verði hinir tekjuháu og efnameiri í fullum forgangi. Hann er í sjálfu sér ekki annað að gera en að framfylgja þeirri skýru hægri hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. En maður hlýtur að spyrja þegar þessar áherslur koma fram annað árið í röð: Hvar er Framsóknarflokkurinn? Er Framsóknarflokkurinn bara alveg týndur í þessu stjórnarsamstarfi?

Við höfum heyrt hér í allt sumar fjöldamarga þingmenn Framsóknarflokksins vara sérstaklega við þessum áherslum, mótmæla áformum um hækkanir á lífsnauðsynjum á almenning opinberlega. Hvernig bregðast formenn stjórnarflokkanna við, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson? Taka þeir tillit til athugasemda Karls Garðarssonar, Vigdísar Hauksdóttur eða annarra hv. þingmanna Framsóknarflokksins eins og Haraldar Einarssonar eða hv. þm. ... (ÖS: Eða Framsóknarfélag Skagafjarðar?)

Nei, viðbrögð formanna stjórnarflokkanna við þessum athugasemdum þingmanna Framsóknarflokksins voru þau að þeir hættu við að hækka matarskattinn í 11% og um 8,8 milljarða og ákváðu að hækka hann frekar í 12% og um 11 milljarða. Þegar athugasemdir þingmanna Framsóknarflokksins komu fram þá ákváðu þeir ekki að draga úr hækkununum á lífsnauðsynjar fyrir almenning heldur sérstaklega að bæta í, strá salti í sárin. Og eftir yfirlýsingar formanns þingflokks Framsóknarflokksins í gær um það að Framsóknarflokkurinn hafi samþykkt framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir íslenska ríkið, þingmáls nr. 1 á Alþingi Íslendinga svona til að kanna viðbrögðin, hlýtur maður að ítreka þá spurningu sem fjármálaráðherra vék sér undan áðan í umræðunni: Er meiri hluti í þinginu fyrir því að hækka álögur á lífsnauðsynjar fyrir heimilin í landinu um 11 milljarða á einu bretti, þessa stærstu einstöku hækkun á neyslusköttum á Íslandi frá hruni a.m.k., sem Bjarni Benediktsson kynnir hér? Standa 32 þingmenn á bak við þá tillögu eða á bara að knýja þingmenn Framsóknarflokksins til að sætta sig við þessa skýru hægri hugmyndafræði ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar?

Annað áhyggjuefni við þessi fjárlög verður líka að nefna og það lýtur ekki að misskiptingunni sem þarf ekki að koma á óvart frá ríkisstjórn hinna ríku. Þetta eru bólufjárlög. Við þekkjum það að bólur stækka og springa þegar veikir stjórnmálamenn úthluta verulegum fjármunum til vitlausra hópa á versta tíma. Við höfum séð hagvöxtinn og það er gott að við höfum árum saman núna búið að stöðugum hagvexti. En það er hætta á því í höftum að hér sé að myndast bóla, að hér sé einkaneyslan að verða of mikil. Nú þarf sterk bein til að þola góða daga.

Hvað gerir ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þá? Hún gerir það sama og ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gerði í síðustu bólu fyrir hrun: Hún eys út skattalækkunum til hinna ríku og hinna tekjuháu, þensluhvetjandi aðgerðum, og státar sig af því hér í ræðustólnum að gera það. Hvað mun það gera? Það mun auka á þrýstinginn, það mun auka á þensluna og auka á hættuna á því að hér verði aftur bóla og hér komi aftur bakslag.

Það er sérstaklega alvarlegt að það sé svona lítil fyrirstaða í forustumönnum ríkisstjórnarinnar svo snemma á kjörtímabilinu sem raun ber vitni því að einmitt nú er sannarlega aðhalds þörf. En það er auðvitað fullkomin mótsögn í því hjá hæstv. fjármálaráðherra að lýsa því yfir í annarri setningunni að hann sé að gæta verulegs aðhalds í ríkisfjármálum og lýsa því síðan yfir í hinni setningunni að hann sé að ausa tugum milljarða út til ráðstöfunar til hinna tekjuháu og efnameiri í samfélaginu. Í slíkum aðgerðum felst ekkert aðhald. Þvert á móti eru þær þensluhvetjandi á versta tíma. Þó að kerfisbreytingar í vörugjöldum geti á ákveðnum tímapunktum verið réttar hljótum við að setja alvarleg spurningarmerki við það hvort núna, þegar við þurfum að gæta þess að hagkerfið sporðreisist ekki, að hér verði ekki bólumyndun inni í þeim óeðlilegu gjaldeyrishöftum sem eru, sé rétti tímapunkturinn til að hvetja til aukins innflutnings á þeim vörum sem verið er að lækka með þessu móti.

Það á að vera okkur víti til varnaðar hvernig hér var gengið fram í tíð ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks 2003–2007 með því að lækka skatta á vitlausa hópa á versta tíma. Það er einmitt það sem verið er að gera í þessum fjárlögum. Það er verið að lækka skatta á vitlausa hópa á versta tíma.

Við þurfum frið á vinnumarkaði en fjárlögin valda ófriði. Við þurfum sanngirni en fjárlögin auka á misskiptingu. Við þurfum velferð en hér er niðurskurður á ferð. Við þurfum aðhald en hér eru skattalækkanir til hinna ríku sem auka á þensluna sem hafin er í íslensku samfélagi.

Virðulegur forseti. Ég hlýt að vona að á bak við þessa tillögu sé ekki meiri hluti í þinginu og að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa reynt að andæfa þessum áformum nái fram þeim breytingum sem þeir hafa kallað eftir, stöðvi þessar taumlausu skattahækkanir á lífsnauðsynjar. Og ég segi það aftur, hæstv. fjármálaráðherra, að það þýðir ekkert að segja við fólk sem horfir á matinn í matvöruversluninni hækka úr hófi fram að það sé búið að lækka efra þrepið í virðisaukaskattinum, það sé komið tilboð á Lexusum eða gosdrykkir hafi lækkað um 22% eða annað slíkt og því um líkt. Þetta eru einfaldlega mestu breytingar á neyslusköttum á síðari árum hið minnsta og þær hafa veruleg alvarleg íþyngjandi áhrif, einkum og sér í lagi fyrir lægst launaða fólkið.

Og talandi um lægst launaða fólkið þá hljótum við líka að horfa til þess að hér er því miður lítið sem ekkert gert fyrir þá stóru hópa sem eru öryrkjar og ellilífeyrisþegar í okkar samfélagi. 650 millj. kr. leiðrétting fyrir þann stóra hóp eru sannarlega ekki margar krónur, sérstaklega þegar til þess er litið að núna þegar svigrúmið er að skapast, núna þegar hagvöxtur undanfarinna ára og uppbyggingarstarf þjóðarinnar er að skila árangri, stefnir í það að laun í landinu geti hækkað um allt að 6%. En þá eiga laun lífeyrisþega einungis að hækka um 3,5%. Þó hafa skerðingar þeirra frá því í hruninu enn ekki verið bættar.

Nú er það auðvitað þannig að á erfiðum tímum geta menn þurft að taka ákvarðanir um það að skerða lífskjör. En það er óskiljanlegt að núna þegar hagvöxturinn er að skila ríkissjóði meiri tekjum, þegar síðasta ríkisstjórn skildi við ríkisfjármálin svo að segja á núlli í ríkisreikningi árið 2013 og við erum loksins að fá peninga til að ákveða að ráðstafa til góðra verka, er ekki ákveðið að nota þá peninga til að auka fjármagn í velferðarkerfið, er ekki ákveðið að nota þá til að lækka skatta hinna lægst launuðu sem mestu byrðarnar hafa þurft að bera í gegnum þetta hrun. Þeir eru ekki notaðir til að bæta kjör öryrkja eða ellilífeyrisþega. Nei, því miður. Veiðigjöld eru lækkuð og auðlegðarskatturinn er lækkaður og innflutningsgjöld á ýmsum vörum eru afnumin.

Það sem kannski vekur mann hvað mest til umhugsunar er það hvar er síðan ákveðið að skera sérstaklega niður. Það er almennt áhyggjuefni að gerð er krafa um niðurskurð alls staðar í ríkisrekstrinum um nokkra milljarða kr. — nema í yfirstjórninni. Hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra er ekki að sjá hagræðingarkröfur á yfirstjórnina. Þar aukast fjármunirnir til æðstu stjórnar ríkisins. Þar eru settir nýir sendiherrar, þar er fjölgað aðstoðarmönnum og það er augsýnilega veisla í yfirstjórninni meðan gerð er hagræðingarkrafa svo kölluð á velferðarþjónustuna. Það er hættuleg forgangsröðun vegna þess að það er sannarlega erfitt fyrir stjórnendur hjá ríki og sveitarfélögum, alveg eins og í hverju öðru fyrirtæki raunar, að gera kröfu til þess að fólkið á gólfinu spari ef þeir sjálfir treysta sér til að eyða meiru í ár en í fyrra.

Það er áhyggjuefni að sjá ýmis af þeim málum sem finna má á málaskrá hæstv. fjármálaráðherra. Meðal annars er þar að finna mál um kjararáð. Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort hér sé á ferðinni frumvarp um það að ekki eigi lengur að setja neinar skorður við hæst launuðu stjórnendurna hjá íslenska ríkinu, hvort verið sé að snúa af þeirri braut sem hér hefur verið uppi, þá viðleitni að auka jöfnuð og draga úr þeim gríðarlega launamun sem hér var á árunum fyrir hrun. Maður hlýtur að spyrja hvort við séum að fara í sömu stemninguna og var á árunum 2003–2007, það eigi að auka á launamuninn hjá ríkinu með því að afnema þökin á æðstu stjórnendur hjá því. Það væri ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst okkur um þetta.

En hvers vegna ákveðið er sérstaklega að skera niður, umfram það sem skorið er niður annars staðar, á þætti eins og atvinnuleysisbætur, starfsendurhæfingu fyrir fólk sem hefur orðið fyrir örorku og á þætti eins og það að dreifa örorkubyrði milli lífeyrissjóða þannig að lífeyrissjóðir erfiðisvinnufólks þurfi ekki að skerða réttindi þeirra hópa vegna hárrar örorku — hvers vegna þessir liðir og aðrir slíkir skuli verða fyrir meiri niðurskurði en aðrir þættir í kerfinu, hlýtur að kalla á skýringar. Sérstaklega hvað varðar hina atvinnulausu, það kallar á skýringar að um leið og atvinnuleysistíminn er styttur skuli úrræðin líka vera tekin út, fjármunir í úrræði fyrir fólk sem er að leita sér að vinnu séu teknir burtu. Ef menn ætla að stytta tímann er algert lágmark að styðja þetta fólk eins mikið og hefur verið gert til atvinnuleitar en ekki skera þar niður úr báðum áttum.

Virðulegi forseti. Hér er allt of mikið af efni til að tæpa á í 15 mínútna ræðu en ég vona sannarlega að hv. fjárlaganefnd hafi þá forustu sem þarf til að stöðva þessar geigvænlegu skattahækkanir á lífsnauðsynjar fyrir almenning sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson boðar.