144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, mér er kunnugt um bankaskattinn sem hæstv. fjármálaráðherra nefnir hér, ég man reyndar ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki stutt það þegar honum var komið á á sínum tíma.

Hæstv. fjármálaráðherra gerði að umtalsefni að þrotabúin hefðu ekki verið sett undir hann. Það var ákveðin skýring á því, það var hreinlega ekki talið nógu ljóst hvernig ætti að skattleggja það viðfang.

Það liggur líka fyrir að bankaskatturinn, ef hann hefði verið nýttur, er 20 milljarðar sem á að innheimta í fjögur ár. Það mundi líklega duga fyrir þeirri framkvæmd sem ég gerði að umtalsefni, nýjum Landspítala. Þá má spyrja sig hvað gagnist betur til lengri tíma. Sú skuldaniðurfelling sem dreifist, eins og ég benti á í umræðum um það mál í vor, með ómarkvissum hætti ótengt tekjum eða eignastöðu fólks og virkar í raun ekki sem leiðrétting á þau lán sem ætlunin var að leiðrétta með þessari aðgerð — þetta fjármagn mundi væntanlega duga til að byggja nýjan Landspítala miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir.

Hæstv. ráðherra nefnir líka að síðasta ríkisstjórn hafi ekki skilað neinu af sér í því máli. Vissulega var mjög mikið unnið að þeim málum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Til að mynda var farið yfir allar áætlanir um byggingu nýs Landspítala og þær skornar niður í það sem við getum kallað svarta-lágmark miðað við þær aðstæður sem ríkið býr við núna. Skornar niður í svarta-lágmark en það breytir því ekki að mikil þörf er á nýjum Landspítala. Ég hefði talið að það væri eitthvað sem við ættum öll að geta verið sammála um, þar þarf að grípa til einhverra aðgerða. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort ekki væri ástæða til að leggja í sérstaka tekjuöflun til þess að geta fjármagnað nýjan Landspítala.

Hvað varðar kollsteypustjórnmálin þá er ég er ekki að segja að þetta sé fyrsta ríkisstjórnin sem fer kollsteypur en það mælir þeim ekki bót, hæstv. fjármálaráðherra.