145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í raun og veru mjög merkilegt að lesa þskj. 1, um stefnu og horfur, í frumvarpi til fjárlaga, því það minnir mann á hversu stutt er síðan við sem vorum þá í þessum sal glímdum við gríðarlegan halla á ríkissjóði. Myndin á bls. 45 sem sýnir afkomu ríkissjóðs frá árunum 2005 til ársins 2019 sýnir þetta mjög vel. Þess vegna vil ég nota tækifærið hér við upphaf ræðu minnar að segja að auðvitað eru það jákvæð tíðindi að við erum að komast út úr þessum hremmingum og eins og ég hef margoft áður sagt er rétt að halda því til haga að allir flokkar hafa komið að því verkefni og tekið þátt í því að byggja upp efnahaginn eftir þessa erfiðu kreppu. Það segir líka beinlínis á bls. 64 í þingskjalinu að aðlaga hafi þurfti skattkerfið að verulegum samdrætti skatttekna strax eftir hrun og, eins og það er orðað, með leyfi forseta, „staga í það og stækka með margs konar viðbótum“. En síðan kemur fram stefna núverandi ríkisstjórnar sem telur nauðsynlegt að einfalda kerfið á ný.

Nú ætla ég að segja að vissulega geta ýmsar lækkanir á sköttum verið af hinu góða. Ég vil nefna sérstaklega lækkun tryggingagjaldsins sem við höfum talað fyrir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hins vegar leyfi ég mér að spyrja enn og aftur, og hef svo sem gert það frá árinu 2013 þegar núverandi ríkisstjórn tók við, hvort það hafi verið tímabært að fara í þær breytingar á skattkerfinu sem þá strax var ráðist í með tilheyrandi skattalækkunum, við getum nefnt auðlegðarskatt sem ekki var framlengdur, orkuskatt sem ekki var framlengdur, lækkun veiðigjalda og annað slíkt. Ég tel að þær pólitísku ákvarðanir sem núverandi ríkisstjórn tók við upphaf síns kjörtímabils hafi orðið til þess að draga úr þeim afgangi sem við hefðum getað haft núna til að greiða niður skuldir og hefja uppbyggingu innviða. Þannig að þótt ég taki undir með öðrum hv. þingmönnum sem fagna því að bjartari tímar séu fram undan þá tel ég í fyrsta lagi að staðan hefði getað verið talsvert sterkari, talsvert betri, og í öðru lagi vil ég líka segja það að ef marka má þá umræðu sem á sér stað um efnahagsmál í heiminum þá eru ýmis teikn á lofti um að við gætum jafnvel verið að horfa framan í aðra kreppu og ég tel ekki sérstaklega skynsamlegt að veikja tekjustofna ríkisins með þeim hætti sem núverandi ríkisstjórn hefur gert á þessum hraða. Það er númer eitt. Ég held að þetta sé óskynsamleg ráðstöfun í ljósi þess að við gætum verið að horfa framan í aðra kreppu. Það var frétt í gær af hagfræðingnum Willem Buiter, sem er frægur fyrir það að hafa spáð fyrir um kreppuna á Íslandi, en hann telur ýmis teikn á lofti um að við gætum verið að horfa fram á verulegan samdrátt á alþjóðavettvangi. Ég held því að menn hafi gengið ansi hratt um þær gleðinnar dyr að ráðast í skattalækkanir fyrst og fremst á hugmyndafræðilegum forsendum.

Segja má að þeir tekjustofnar sem sofnuðu í hruninu, ef við getum orðað það þannig, séu að vakna á ný sem gerir að verkum að innkoman er sæmileg, en við skulum líka horfa til þess að í skattstefnu ríkisstjórnarinnar er miðað að því að fækka skattþrepum. Hér er boðað að fækka þeim úr þremur í tvö og við þekkjum líka þær ráðstafanir sem þegar hefur verið gripið til og ég hef nefnt, og þetta gengur þvert á þá ráðgjöf sem okkur berst frá alþjóðlegum stofnunum á borð við OECD. Ég vil minna á að það er ekki lengra síðan en í desember 2014 að OECD sendi frá sér skýrslu, ég veit ekki hver yfirskrift hennar var en hún hefði mátt bera yfirskriftina „Dauði brauðmolahagfræðinnar“, þ.e. það er ekki öllum til góða að hinum ríku sé gefinn kostur á að safna sem mestum auði. Staðreyndin er sú að það kerfi sem hefur verið að byggjast upp á Vesturlöndum snýst um að þeir sem eiga mesta peninga fyrir og mestan auð fyrir hafa best tækifæri til að auka þann auð. Það er ástæðan fyrir vaxandi misskiptingu auðsins sem við sjáum í heiminum og líka hér á Íslandi. Þó að það sé rétt sem talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa bent á að tekjujöfnuður hefur orðið meiri á Íslandi, ekki síst vegna aðgerða fyrrverandi ríkisstjórnar og er með því mesta sem gerist, þá hefur misskipting auðsins vaxið hér á landi eins og annars staðar. Ég tel að ríkisstjórnin og við öll í þessum sal ættum að taka mark á ráðum OECD, sem seint mun teljast róttæk alþjóðastofnun, sem beinlínis gefur ríkisstjórnum heimsins þau ráð að íhuga að breyta skattkerfum sínum þannig að efnaðra fólk greiði sanngjarnan hluta tekna sinna í skatt, hærri tekjuskattur verði lagður á efnameiri, horfið verði frá skattareglum sem gagnast einkum tekjuhærra fólki og eignarskattar verði endurmetnir. Af hverju kemur þetta fram hjá OECD? Er það eingöngu til að tryggja jöfnuð sem einhverja hugmyndafræði? Nei, beinlínis vegna þess að rannsóknir stofnunarinnar sýna að samfélögum þar sem jöfnuður er mestur hefur líka vegnað best efnahagslega. Og það er einnig umhugsunarefni þegar gögn eru skoðuð sem sýna okkur að hagkerfi hafa hreinlega vaxið minna vegna ójafnaðar.

Þessar athugasemdir, sem ég hef auðvitað gert fyrr við skattstefnu ríkisstjórnarinnar, ítreka ég í þessari 1. umr. um fjárlagafrumvarp þessa árs, enda heldur ríkisstjórnin áfram á sömu braut og boðar fækkun skattþrepa í nafni einföldunar en ekki endilega í nafni skynseminnar. Það hefur margt ágætt komið hér fram í ræðum, m.a. um skynsemina í því að lækka skatta þegar spáð er verðbólgu upp á 4,5%. Við erum þegar farin að heyra varnaðarorð um að þetta geti verið þensluhvetjandi þannig að það liggur alveg fyrir að við munum þurfa að skoða þetta mjög vandlega í vinnu okkar og í umræðum um frumvarpið.

Mig langar á þessum örstutta tíma sem ég hef að nefna útgjaldahliðina. Það er að sjálfsögðu jákvætt að verið sé að auka við ýmsa málaflokka en það er sitt hvað sem vekur upp spurningar, til að mynda hvað varðar uppbyggingu innviða. Þá vil ég nefna sérstaklega Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Ferðaþjónustan hefur auðvitað verið vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi og hún hefur kannski ekki notið nægilegrar athygli í pólitískri umræðu hér á þinginu þegar horft er til þess að vöxturinn hér á landi er langt umfram almennan vöxt í ferðaþjónustu í heiminum. Það er vissulega almennur vöxtur í ferðaþjónustu í heiminum en hér á landi er sá vöxtur langt umfram það. Það er spáð áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu á heimsvísu til ársins 2030 og spáð áframhaldandi vexti hér á landi líka á næstu árum og árið 2015 verður enn eitt metárið. Í ljósi þessa vekur það auðvitað athygli að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skuli standa í stað. Fram hafa komið þær skýringar á því að styrkir úr honum séu ekki fullnýttir, að fólk sé ekki tilbúið með verkefni til að nýta þessa styrki, en þetta sýnir okkur skort á stefnumörkun.

Þá kem ég að því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi hér í fyrri ræðu sinni. Þetta er gallinn við það þegar lagt er af stað í þá vegferð að bakka út úr öllu því sem ákveðið hefur verið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég nefni sérstaklega fjárfestingaráætlunina sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerði að umtalsefni áðan þar sem ákveðið var að ráðast í fjárfestingar í rannsóknum, nýsköpun, innviðum, ferðamannaþjónustu og ferðamannastöðum. Það var ákveðið að snúa þessu öllu við á þeim forsendum að fjárfestingaráætlunin væri ekki fullfjármögnuð. Það reyndist rangt, t.d. þegar skoðaðar eru arðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum til ríkisins sem mundu duga til að fjármagna þá áætlun. Síðan höfum við séð þessa liði tínast inn. Ég tek undir með þeim sem fagna því að hér eigi að auka við rannsóknir og nýsköpun. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það muni reynast heillaspor. En af hverju var ekki bara hægt að halda áfram og standa við þá ákvörðun sem var tekin á árinu 2012 að auka einmitt við fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun? Það er lykillinn að hagsæld samfélagsins. Það er mín sannfæring. Ég hef ekki orðið vör við annað en hér séu allir sammála um það. Ég kalla það meinbægni, meinbægni í raun og veru, sem hafi ráðið för hjá núverandi ríkisstjórn þegar horfið var frá öllum þessum áformum, hvort sem var um uppbyggingu á þessu sviði eða í ferðaþjónustu, en sú meinbægni kostar auðvitað samfélagið sitt. Það kostar samfélagið þegar skorið er niður í rannsóknasjóði milli ára og svo aftur bætt í, því þá er ekki hægt að gera langtímaáætlanir. Það er nákvæmlega það sem við erum að súpa seyðið af í ferðaþjónustunni, það er ekki hægt að gera langtímaáætlanir af því að bakkað er út úr því að leggja fjármuni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og lagt af stað með aðrar hugmyndir, sem virðast nánast fyrst og fremst vera settar fram til að koma fram með aðrar hugmyndir því þær virðast ekki einu sinni njóta stuðnings meiri hlutans í þinginu. Þannig að meinbægnin ræður för og það kostar. Það kostar okkur til að mynda að hafa ekki fjárfest í ferðamannastöðum með þeim hætti sem við ættum að gera í þessum risastóra útflutningsatvinnuvegi sem skilar okkur gríðarlegum fjármunum bara á þessu ári. Við horfum fram á áframhaldandi vöxt og ég spyr: Er ætlunin, allt til þess að standa ekki við fyrri ákvarðanir, að vera enn og aftur óundirbúin á næsta ári, á nýju ferðamannaári? Fjárlagafrumvarpið virðist sýna að það skortir stefnu í stórum málaflokkum og eftir henni hljótum við að kalla í umræðu um málið hér á þingi.