145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að segja það sem flestir hafa hugsað í gegnum tíðina. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Þetta er nokkuð sem menn hafa rætt minnst í ræðustól en kannski meira annars staðar. Ég vil þó segja að það er mjög ósanngjarnt, virðulegi forseti, af hv. þingmanni — og ég veit að hv. þingmaður er nýr og hefur kannski ekki sett sig alveg inn í það — að skamma núverandi hæstv. fjármálaráðherra fyrir það.

Þetta hefur verið svona lengi og hæstv. fjármálaráðherra hefur einmitt, í tví- ef ekki þrígang, flutt frumvarp um opinber fjármál sem hefur það meðal annars að markmiði að bæta framsetningu fjárlaga í þá átt sem hv. þingmaður nefndi, og er mjög nauðsynlegt. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom líka með ágætisábendingar og við höfum heyrt ýmsar ábendingar hvað þetta varðar og rætt það meira að undanförnu en oft áður.

Það á að vera hægt að setja þetta fram á þann veg að allur almenningur geti auðveldlega sett sig inn í það. Það sem mér finnst þó einna verst er að við sjáum ekki hver þróun fjárlaga var hér áður, eða fjárheimilda til einstakra stofnana o.s.frv.

Hv. þingmaður nefndi að erfitt væri að átta sig á því hvað hver fjárlagaliður þýðir og ég held að það sé rétt. En á sama hátt vantar líka að við sjáum hver þróunin hefur verið í viðkomandi stofnun, getum við sagt, eða fjárlagalið.

Ég er sammála hv. þingmanni og þakka henni fyrir að taka þetta upp. Ég vil þó segja, og ég held að við séum öll sammála um það ef við skoðum það, að það er mjög ósanngjarnt að skamma hæstv. fjármálaráðherra sem hvað eftir annað leggur fram frumvarp, sem vonandi fer í gegn, sem hefur það meðal annars að markmiði að innleiða betri framsetningu á þessum þáttum.