145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður ætlar að ræða um vegaframkvæmdir og flugvellina, samgöngumál á landsbyggðinni og annað slíkt. Ég vil spyrja í seinna andsvari við þennan talsmann Framsóknarflokksins, sem er mjög áhrifamikill fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, formaður þingflokks og fjárlaganefndarmaður, af því að Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksfundi sínum, landsfundi eða hvað það nú heitir, á vordögum 2013, rétt fyrir kosningar, ásamt með skuldaleiðréttingunni, niðurfellingu skulda sem ég ræddi áðan, að öllu því sem hafði þurft að taka af öldruðum og öryrkjum skyldi skilað til baka: Hvers vegna fá aldraðir og öryrkjar ekki bætur sínar hækkaðar, lífeyrisgreiðslur sínar hækkaðar, ég vil ekki nota orðið bætur, frá og með 1. maí eins og aðrir launþegar og láglaunafólk í þessu landi? Ef hann vildi bæta því svari við í seinna andsvari um vegamál og samgöngumál. (Gripið fram í.)