147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir kom inn á í upphafi ræðu sinnar áðan sem varðar efnisyfirlit fyrir greinargerð með fjárlagafrumvarpi. Mér finnst þetta ekki vera eitthvert smámál sem eigi bara að nefna eða láta í léttu rúmi liggja. Kannski vilja einhverjir líta á það sem tuð, en í mínum huga er þetta stórt aðgengismál, stórt lýðræðismál og í rauninni stórt samfélagsmál, því að það snýst um að ekki bara við þingmenn getum lesið fjárlagafrumvarpið, heldur einnig að almenningur geti með þægilegum hætti kynnt sér efni þess og veitt okkur þannig aðhald, hvort sem við erum í meiri hluta eða minni hluta á þinginu. Mér finnst þetta vera ábending sem skiptir máli inn í stóru umræðuna um fjárlög ríkisins sem við eigum að taka alvarlega og ég vona það að hún verði skoðuð í ráðuneytinu.

Af því að tíminn er að hlaupa frá mér í þessu fyrra andsvari mínu langar mig að spyrja hv. þingmann út í sýn hennar á stóru línurnar sem fjárlagafrumvarpið leggur ásamt tekjufrumvörpunum. Hvað eru þessi mál annað en uppskrift að því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að reka samfélagið hér næstu árin? (Forseti hringir.) Hverjar eru stóru línurnar sem hv. þingmanni birtast í þessu fjárlagafrumvarpi?