148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:39]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er fullur af harmi, ég verð bara að viðurkenna það. Mér finnst þetta svo skelfilega slæmt fjárlagafrumvarp. Þetta í engu samræmi sem búið var að lofa. Við eigum að taka loforð alvarlega. Við ræddum þetta kosningafund eftir kosningafund. Við fullyrtum það, bæði Samfylkingin og VG. Við vorum búin að fjármagna loforðin. Við ætlum að auka tekjur ríkisins. Það á að gera á hátindi uppsveiflunnar. Það er einföld hagfræði. Við eigum að efla tekjustofna ríkisins á hátindi uppsveiflunnar, búa til varanlegar tekjuleiðir til að setja í menntamálin. En þessi ríkisstjórn gerir það ekki. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að menntakerfið sé eitt mikilvægasta tækið til lífskjaraaukningar og lífskjarajöfnuðar. En þessi ríkisstjórn er ekki að stuðla að því. Þið eruð einungis að setja um helming af því sem Háskóli Íslands kallaði eftir og formaður VG kallaði sjálf eftir fyrir bara nokkrum vikum.

Formaður VG benti einnig á að efla þyrfti rannsóknir. Af hverju kemur núll króna í rannsóknarstig á háskólastigi? Af hverju kemur núll króna í barnabætur? Af hverju halda vaxtabætur áfram að lækka?

Helmingur þeirra sem þáði vaxtabætur á sínum tíma er dottinn út úr vaxtabótakerfinu. Einn fjórði er dottinn úr barnabótakerfinu. Af hverju ekki að endurreisa þau kerfi sem ég veit að standa hæstv. forsætisráðherra nærri hjarta?

Það var tækifæri að hafa hér félagshyggjuríkisstjórn. Rifjum það aðeins upp. Þá hefði hæstv. forsætisráðherra ekki þurft að verja þetta skelfilega frumvarp. Ég get fullyrt það að hæstv. forsætisráðherra hafði val. Hún kaus að velja þessa ríkisstjórn sem er að 98% með sama fjárlagafrumvarp og hún og félagar hennar kölluðu ömurlegt spennitreyjufrumvarp og hægrisveltistefnu. VG náði 2% breytingum. Það er bara óásættanlegt. Þið þurfið að svara okkur og kjósendum ykkar fyrir það.