148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:52]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra geti treyst jafnaðarmannaflokki Íslands varðandi það að hér verði tryggt öflugt heilbrigðiskerfi. Þess vegna er okkur heitt í hamsi því að vonbrigðin eru slík að þetta frumvarp Vinstri grænna, fyrsta fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur, stendur ekki undir væntingum. Það er ekki í samræmi við það sem þessi flokkur hefur sagt í ræðu og riti.

Já, við köllum eftir auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið. Ég held að gerist ekki skýrara. Við tökum undir orð hæstv. heilbrigðisráðherra um að efla þurfi heilbrigðiskerfið.

Með leyfi forseta, sagði núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir einu ári:

„Styrkja þarf tekjugrunna ríkissjóðs til þess að gera betur við íslenska heilbrigðiskerfið.“

Af hverju er það ekki gert? Af hverju er það ekki gert í þessu frumvarpi? Hér liggur mjög skýrt fyrir vilji hæstv. heilbrigðisráðherra um að styrkja heilbrigðiskerfið. Þess vegna er ég svo gáttaður á að það sé ekki gert með öflugri hætti en raun ber vitni, að hér séu menn einfaldlega stoltir af að hafa náð 2% breytingu á hægri sveltistefnunni, sem þau kölluðu svo sjálf.

Núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra kallaði fyrir ári síðan eftir ríkisstjórn sem starfa myndi í anda félagshyggju og jöfnuðar. Já, ég kalla enn þá eftir þeirri ríkisstjórn. Því miður er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ekki ríkisstjórn félagshyggju og jöfnuðar. Það sést bara svart á hvítu þegar fjárlagafrumvarpið er lesið. Það eru eintóm vonbrigði og fær gjörsamlega falleinkunn, ekki síst þegar kemur að heilbrigðismálunum sem öll þjóðin batt vonir við að fengi loksins athygli og fjármuni frá ríkisstjórninni eins og þörf er á.