148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi varðandi hugmyndir hv. þingmanns um sameiginlega stjórn yfir íslenska heilbrigðiskerfinu: Miðað við íslenska stjórnskipan er þessi stjórn í höndum heilbrigðisráðherra á hverjum tíma með þeirri ráðgjöf sem ráðherrann hefur aðgang að í gegnum landlæknisembættið og fleiri slíka. Ég vil upplýsa þingmanninn og þingheim um það líka að auðvitað er mikilvægt samráð haft við forstjóra Landspítalans og þær lykilstofnanir sem þar eru. En auðvitað hlýtur þetta líka að vera partur af heilbrigðisstefnu til lengri framtíðar.

Hin spurningin sem hv. þingmaður bar upp snerist um samspil einkarekinnar og opinberrar þjónustu. Það er alveg ljóst að breytingar hafa orðið á kerfinu á undanförnum árum á þann veg að það hefur verið á kostnað opinberu þjónustunnar. Framlögin til hennar hafa aukist um 3% á sama tíma og einkarekna þjónustan hefur aukist um 57%. (Forseti hringir.) Það er alveg augljóst að megináhersla þess ráðherra sem hér stendur verður í þágu opinbera kerfisins.