148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það þannig að þetta fjárlagafrumvarp er borið upp af ríkisstjórnarflokkunum þremur. Því er ekkert óeðlilegt að spyrja hv. þingmann út í frumvarpið þar sem það hlýtur að hafa verið kynnt í þingflokkunum og þar á meðal áhrif þess að fara í stórauknar skattahækkanir sem boðaðar eru.

Hér hefur verið minnst á kolefnisgjaldið. Mér heyrðist á hv. þingmanni hér rétt áðan að ekki hafi farið fram nein greining eða kynning á áhrifum þess að hækka kolefnisgjaldið um 50%. Ég veit ekki hvort það er þá sanngjarnt, fyrst þingmaðurinn er búinn að segja að það hafi ekki verið kynnt fyrir honum eða þingflokknum, að velta því fyrir sér hvaða áhrif sú hækkun hefur á ferðaþjónustuna, hvaða áhrif hún hefur á farmiðagjald, hvaða áhrif hún hefur á kostnað landsbyggðarfólks við að sækja sér heilbrigðisþjónustu og annað til Akureyrar eða til Reykjavíkur. Hv. þingmaður hlýtur að hafa fengið einhverjar upplýsingar um hvaða áhrif þetta hefur.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur síðan fram að jafnvel eru hugmyndir uppi um að innheimta komu- eða brottfarargjald. Hvaða áhrif hefur það á ferðaþjónustuna? Hv. þingmaður talaði mikið um ferðaþjónustuna í ræðu sinni hér áðan. Því hlýtur líka að hafa verið velt upp við þingflokkana hvaða áhrif það gæti haft.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur líka fram að seinka á afnámi ívilnana til bílaleigna. Hvaða áhrif hefur það á ferðaþjónustuna sem hv. þingmaður talaði mikið um áðan?

Talað er um að hækka fjármagnstekjuskatt um 10%, minnir mig, eða eitthvað slíkt, en ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann út það í núna, ég ætla að geyma mér það.

En ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þær skattahækkanir sem boðaðar eru í fjárlagafrumvarpinu — af stjórnarflokkunum þremur, af hv. þingmanni og hans flokki — hafa á landsbyggðina. Hvaða áhrif hefur þetta á landsbyggðarkjósendur, stuðningsmenn hv. þingmanns? Hvaða áhrif hefur þetta á þá sem þurfa að sækja sér þjónustu um langan veg? Hvaða áhrif hefur þetta á vísitöluna þegar menn fara að hækka hluti sem beinlínis hafa áhrif á hana ef það verður með þeim hætti?

Maður veltir þessu fyrir sér því að fjárlagafrumvarpið ber (Forseti hringir.) þess merki að fara á í miklar hækkanir, en ekki er verið að lækka neitt á móti, enda eru útgjöldin stóraukin hjá Sjálfstæðisflokknum.