148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er komin nokkur gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir að stjórnarsáttmálinn sé ekki nógu langur. Ég verð nú að vísa þeirri gagnrýni til föðurhúsanna. Ég held að hann sé alveg nógu langur. Eðli máls samkvæmt er ekki allt í honum. Þegar kemur að hagsmunum Íslands varðandi viðskipti við EES-markaðinn þá er það eitthvað sem ég held að sé engin sérstök ástæða til þess að taka fram í stjórnarsáttmála, það er viðvarandi verkefni og ekki tímasett. Núna setjum við ef allt er talið um 2,5–3 milljarða þar, þ.e. kostnaðurinn í tengslum við framkvæmd EES-samningsins og þær breytingar sem fyrirhugaðar eru t.d. varðandi Íslandsstofu og sömuleiðis þær breytingar sem hafa verið tilgreindar í skýrslu vinnuhóps sem var kynnt í sumar og unnið núna eftir. Þar voru 150 tillögur og búið er að framkvæma núna 30 og verða framkvæmdar 90 á þessum vetri, þær miða einmitt mjög að því að styrkja markaðssókn okkar erlendis. Þannig að mér finnst engin sérstök ástæða til þess að taka það sérstaklega fram. Það liggur alveg fyrir að ef við ætlum að halda samkeppnishæfni okkar og halda uppi hagvexti þá þurfum við að auka innflutning okkar verulega á hverju einasta ári. Það er auðvitað kjarni máls. Til þess er nú leikurinn gerður að stórum hluta þegar kemur að utanríkisþjónustunni.

Varðandi Brexit, þetta er annar mikilvægasti markaður okkar, við eigum gríðarlega mikið undir að við séum með sömu kjör og við erum með núna og helst betri. Eðli málsins samkvæmt forgangsröðum við í það þegar sú staða kemur upp að Bretar ganga út úr Evrópusambandinu. Ég tel 63 milljónir ekki stóra upphæð, enda er upphæðin í rauninni hærri vegna þess að við höfum forgangsraðað í þessa þágu alveg frá því að þetta mál kom upp.