148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tæpa hérna á nokkrum þeim atriðum sem lúta að málum í ráðuneyti samgangna og sveitarstjórna og byggða. Í frumvarpi til fjárlaga 2018 er gert ráð fyrir ríflega 62 milljörðum króna, eða tæplega 8% af heildargjöldum, til fjölbreyttra verkefna sem heyra undir ráðuneytið.

Gert er ráð fyrir að fjárheimildir hækki á milli ára um 7,7% eða tæplega 4,5 milljarða. Umfangsmestu verkefnin eru samgöngur og fjarskipti. Fjárheimild þess málefnasviðs nemur ríflega 38 milljörðum. Þar af nemur hlutur fjarskipta og póstmála um 1,2 milljörðum.

Varðandi samgöngurnar er heildarframlag til þeirra ríflega 36 milljarðar. Er hækkunin þar á milli ára um 3 milljarðar. Auk þess má geta að við afgreiðslu fjárlaga fyrir einu ári, þ.e. árið 2017, hækkuðu framlög til samgöngumála um 4,5 milljarða, þá tímabundið en eru núna komin inn sem varanleg fjárhæð. Má því segja að frá því að fjárlagatillagan var lögð fram í fyrra hafi framlög til samgangna hækkað um 7,5 milljarða miðað við árið 2018.

Það er engu að síður brýnt að halda áfram að hækka fjármagn til viðhalds og framkvæmda vegna vaxandi umferðarþunga um vegakerfið. Þar er í dag gert ráð fyrir ríflega 19 milljörðum króna og er hækkunin um 1,5 milljarður á milli ára. Af þeim er ráðgert að verja um ríflega 8 milljörðum til viðhalds á vegakerfinu sem hefur þá hækkað frá 5,5 milljörðum á árinu 2016 í 8,3 á árinu 2018. Þar þarf enn að bæta í inn í framtíðina til þess að viðhalda þessum mikilvægu kerfum okkar.

Umfangsmestu verkefnin, nýframkvæmdir, eru Dýrafjarðargöng, framkvæmdir við Reykjanesbraut til að minnka umferðartafir. Þar var opnaður fyrsti áfangi til að mynda við Krýsuvíkurafleggjara í dag. Það er tvöföldun á einbreiðum brúm. Síðan er markmiðið að á árinu 2018 verði lokið við að setja slitlag á síðasta kafla Hringvegarins við Berufjarðarbotn. Þá verður komið slitlag á allan hringinn. Auk þess kemur ný Vestmannaeyjaferja til landsins á næsta ári. Framlög til hafnarframkvæmda hækka um ríflega 500 millj. kr. milli ára og framlög til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu um liðlega 370. Stefnt er að því að verja þessari hækkun einkum til viðhalds á innanlandsflugvöllum.

Eitt helsta markmiðið í fjarskiptum er landsátakið í lagningu ljósleiðara utan markasvæða í dreifbýli, Ísland ljóstengt, undir því heiti. Það er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga, íbúa, veitu-, fjarskiptafyrirtækja og verktaka við ljósleiðaravæðingu landsins. 2018 verður þriðja ár verkefnisins. Á fyrstu tveimur árunum hafa yfir 30 sveitarfélög fengið úthlutað styrkjum fyrir yfir um 2000 nýjar ljósleiðaratengingar.

Einnig er unnið á fjarskiptasviðinu að því að auka útbreiðslu háhraða farnets á vegakerfinu og fjölförnum ferðamannastöðum og er markmiðið að það verði orðið 93% árið 2018. Markmiðið með Ísland ljóstengt er að árið 2020, þegar við ljúkum verkefninu, verði 99,9% landsmanna, heimila og fyrirtækja tengd með háhraðaneti að minnsta kosti 100 megabæta tengingu.

Sveitarfélögin heyra einnig undir það. Þau þurfa að eflast og styrkjast til að geta sinnt þjónustu sinni og verkefnum og geta þannig boðið enn meiri og öflugri þjónustu en þau gera í dag. Unnið er á sviði sveitarstjórnarmála að því að efla sveitarstjórnarstigið með stærri, öflugri og sjálfbærari sveitarfélögum, breyttri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Einnig er stefnt að markvissari samskiptum ríkis og sveitarfélaga, nýtingu rafrænnar tækni við stjórnsýslu og auknu samráði við íbúa um stefnumörkun og ákvarðanatöku.

Í byggðamálunum eru viðföng á sviði byggðamála byggð á sóknaráætlun landshluta, jöfnunarsjóði flutningskostnaðar og flutningsjöfnunarsjóði olíuvara. Ein stofnun, Byggðastofnun, fellur undir byggðamál. Fjárveitingar til byggðamála hækkuðu um 25% á yfirstandandi ári og helst sú hækkun í fjárlagafrumvarpinu. Þeir fjármunir fara aðallega til eflingar byggðamálum og sóknaráætlunum.

Lögð verður fram þingsályktunartillaga 2018–2024 þar sem settar verða fram aðgerðir til að ná fram lögfestum markmiðum.

Þá er einnig haldið áfram verkefninu Brothættar byggðir þar sem er aukinn stuðningur við svæði þar sem hefur verið langvarandi fólksfækkun. Það er gert ráð fyrir samstarfi við átta byggðarlög árið 2018 sem getur varað í allt að fjögur til fimm ár. Og að lokum má segja um sóknaráætlanir landshluta að þær munu fá (Forseti hringir.) 100 milljóna viðbót. Þær eru með 402,5 millj. kr. en fara upp í 502,5 millj. kr., en er reyndar flutningur á fjármunum úr byggðaáætlun í sóknaráætlanir.