148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna samstarfið við sveitarfélögin. Í stjórnarsáttmálanum er þess getið að við viljum auka og bæta samstarfið. Hv. þingmaður nefnir hvort við hefðum hug á því að fara út í mögulegt samstarf er varðar gjaldfrjálsan mat í grunnskólum. Mér finnst það allt koma til tals og vera eitthvað sem við gætum rætt við þau. Hins vegar er það svo að við höfum auðvitað af því framhaldsskólastigið er á okkar ábyrgð þá hef ég í heimsóknum mínum núna nýverið í framhaldsskóla veitt því athygli að eitt af stóru vandamálunum þar er af tvennum toga. Í fyrsta lagi er mæting orðin mun verri í dag en hún var fyrir 10 árum, svo hefur brotthvarfið vaxið enn frekar.

Ég tel að áður en við förum jafnvel að huga að þessum þætti þá munum við beina sjónum okkar að framhaldsskólastiginu og hugsanlega reyna að tengja betur geðheilbrigðismálin og menntamálin til þess að reyna að huga að því hvers vegna unga fólkið okkar mætir ekki eins vel og við hefðum kosið.

En mér finnst það hins vegar varða okkur öll ef það er svo sem maður hefur heyrt, að fjölmörg börn mæti svöng í skólann. Þá eigum við að taka á því. Ég myndi vilja skoða það og gera úttekt á fátækum börnum í íslensku skólakerfi; hver staða þeirra er, hvernig við getum hugsanlega bætt stöðu þeirra, hvar þau standa líka námslega séð og hvaða hópar þetta eru. Ég hefði því mikla ánægju af því ef við gætum rætt þessi mál, ég og hv. þingmaður.