149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Stundum átta ég mig ekki á muninum á Sjálfstæðismanninum Bjarna Benediktssyni og fjármálaráðherranum Bjarna Benediktssyni. Ég veit að fleiri í þessum sal eru að spá í þennan mun. Nú fáum við fjárlagafrumvarp þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og samráðherrar hans stæra sig af ríkisútgjöldum hingað og þangað. Gott og vel, ég get tekið undir að það þarf meiri pening til eldri borgara, meiri pening til ungs fólks, meiri pening til hinna sjúku. En ég get ekki tekið undir að meiri pening þurfi til stórútgerðarinnar. Það þarf ekki meiri pening til Kristjáns Loftssonar.

Að því sögðu skil ég ekki Sjálfstæðismanninn Bjarna Benediktsson sem samþykkti á síðasta landsfundi sínum, bara fyrir nokkrum mánuðum, að lækka þyrfti útgjöld hins opinbera um 10 prósentustig af landsframleiðslu. Það þýðir á mannamáli að skera þarf niður hið opinbera, skera þarf niður hjá spítölum, löggæslu, skólum o.s.frv., um 300 milljarða kr.

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil lítið í Sjálfstæðismönnum þegar kemur að þessu. Hvað vill þessi flokkur eiginlega? Vill hann 100 milljarða kr. útgjaldaaukningu í innviði, eins og flokkurinn sagði kjósendum fyrir síðustu kosningar, eða vill hann 300 millj. kr. niðurskurð, eins og hann segir á landsfundum sínum?