149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stór hluti stefnu stjórnvalda á undanförnum árum hefur einmitt verið að greiða niður ríkisskuldir. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að við tókum lán annars staðar vegna viðhalds á vegum og heilbrigðiskerfis o.s.frv. Við erum núna að borga niður þá skuld. Þannig að skuldastaða okkar vegna hrunáranna er greinilega ekki komin í núll hvað það varðar. Við leggjum vissulega til mjög mikla fjármuni til þess að ná aftur þeirri stöðu sem við vorum í áður. Ég held að bara það endurspegli þá staðreynd að við erum ekki komin á sama stað og við vorum áður en við lentum í þessari skuldasöfnun.

Það er algjör óþarfi að að vera mjög nákvæmur í því að segja fyrir um hvenær við verðum komin á núllið, en ég tel það augljóst, bæði af umræðunni, þeim kjaraviðræðum sem við erum að sigla inn í, þeirri kröfu sem hefur verið í heilbrigðiskerfinu og þeim fréttum varðandi samgöngukerfið okkar o.s.frv., að við erum ekki komin að núllinu enn þá. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvenær það verður, það er erfitt að vera nákvæmur hvað það varðar, en ég held að mjög auðvelt sé að segja að við erum ekki komin þangað enn þá.

Jú, við erum með sterka stöðu til þess að borga upp þessar skuldir, ekki bara peningalegar ríkisskuldir, augljós lán, heldur líka innviðalánin sem við tókum. Ég hlakka tvímælalaust til áranna þegar við verðum komin aftur á núllið, á þann stað þar sem við vorum fyrir hrun og fyrir bóluna sem slíka. Ég held að það séu áhugaverð ár fram undan, að sjá hvernig við tökum á fjárlögum á þeim tíma.