149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Og síðast en ekki síst loftslagsmálum svo ég botni ræðu hv. þingmanns.

Það sem vantar í þessa umræðu um skuld okkar varðandi innviði er vaxtakostnaðurinn. Við vitum hann ekki. Hann er óljós. Við höfum aldrei fengið neina góða greiningu á honum í heild. Jú, að einhverju leyti, það var skýrsla sem Samtök iðnaðarins gáfu út sem sýndi aðeins fram á hver skuldin væri. En aftur: Hver er kostnaðurinn af því að vera með þá skuld? Þar er erfiðara að koma að.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, það þarf alltaf að skoða hvernig hið opinbera fer með þau fyrirtæki sem það rekur eða þá þjónustu sem það veitir. En þegar allt kemur til alls er það fólk sem sér um reksturinn, hvort sem er í einkarekstri, opinberum rekstri, sjálfboðavinnu eða hverju sem er. Fólk, hvar sem er, gerir mistök. Það verður spilling hvað varðar einokun, það verður opinber spilling hvað varðar það að velja að þessi en ekki hinn fái verkefnið o.s.frv. Það er þar sem mér finnst að við þurfum að líta betur til, að samkeppnisumhverfið sé laust við spillingu, að opinbera þjónustan sé laus við forgangsröðun bestu vina aðals og þess háttar.

Á sama tíma ættum við tvímælalaust alltaf að endurskoða hvað við fáum fyrir almannafé því að ein aðalspurningin okkar, sérstaklega í fjárlagaumræðunni, er: Hvernig förum við best með almannafé?