149. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að halda eitthvað áfram með yfirferðina. Hún er ansi viðamikil. Við þurfum að hafa fjármálaáætlun undir við umfjöllun um frumvarp til fjárlaga. Þar koma fram grunnatriðin sem hafa skal í huga þegar verið er að leggja fram fjárlög. Það sem ég rak mig á í yfirferð minni er að ýmis markmið stjórnvalda eru sett fram í fjármálaáætlun og ýmsar aðgerðir stjórnvalda líka. En í sumum tilvikum breytast markmiðin eða aðgerðirnar, annaðhvort fara þær burt eða nýjar koma í staðinn eða hverfa bara alveg. Til dæmis er markmið á málefnasviði 1, Alþingi, aukin fagþjónusta við þingnefndir. En í fjárlagafrumvarpinu er það markmið horfið. Það er ekki þar að finna lengur. Ég velti því fyrir mér: Þetta er markmið sem er með aðgerðum um aukna sérfræðiþjónustu við þingnefndir með tímaáætlun upp á 2018–2022 en það er engin aðgerð sem tengist þessu markmiði, er ekki til í fjárlögunum. Ég velti fyrir mér hvað kom fyrir þar.

Þegar maður skoðar fleira er ýmislegt annað. Það eru t.d. aðgerðir um að kanna leiðir til gjaldtöku í ferðaþjónustu, skoða komu- og brottfarargjöld. Sú aðgerð er horfin. Það á ekkert að kanna það lengur. Það er margt svona sem er erfitt að finna nema maður skoði bæði fjármálaáætlunina og fjárlögin. Það er nú einu sinni þannig samkvæmt lögum um opinber fjármál að stefnan á að koma fram í fjármálaáætluninni, útfærslan, kostnaðurinn við aðgerðirnar, kostnaðarskiptingin, sem er sett fram í fjármálaáætlun, á að koma fram í fjárlögunum. Það á ekki að koma fram ný stefna þar í rauninni.

Það væri eðlileg útskýring, kannski, að það hefði hreinlega náðst að klára þá aðgerð, þannig að það þyrfti þá ekki að fjármagna hana. Þá væri það bara útskýrt. Ekki láta hana hverfa án þess að segja af hverju, ef ekki er stefnubreyting. Ef það er stefnubreyting bíður það væntanlega fram til næstu fjármálaáætlunar, með útskýringu en það væri mjög vinsælt að fá útskýringar. Þær vantar.

Talað var mikið um eitt í fjármálaáætlun og komin er útfærsla á í fjárlögunum, það eru þessi tvímæli um lækkun tekjuskatts í neðra þrepi, sem í fjármálaáætlun er einfaldlega sagt: 1% lækkun á neðra þrepi tekjuskatts. Það er ekki tvínónað við það, það er bara sagt: Á kjörtímabilinu mun þetta lækka um 1%. En svo á öðrum stöðum í fjármálaáætlun er sagt að lækkun á skatti komi til með að samsvara 1% lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu. Vandamálið er að það er ekkert sem samsvarar 1% lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu nema nákvæmlega það. Það er hægt að segja, það kostar 14 milljarða. Það er hægt að segja að skattalækkanir verði upp á 14 milljarða. Þá er hægt að gera miklu víðtækari breytingar en eitthvað sem samsvarar 1% lækkun á neðra tekjuskattsþrepinu. Það skiptir pínu máli hvernig þetta er orðað. Ég ætla ekki að hengja mig of mikið í smáatriðin, þetta er frekar ábending um hvernig er betra að gera þetta skýrara í framtíðinni.

Ofan á bætist síðan að þetta átti að gerast í jöfnum skrefum og stendur meira að segja í fjárlagafrumvarpinu sjálfu að þessi lækkun á skatti ætti að gerast í jöfnum skrefum. Hins vegar getur maður ekki púslað því nægilega vel saman. Textinn bendir til þess að lækkun skatts í þessum fjárlögum sé í formi hækkunar persónuafsláttar. Um þessar 530 kr. eins og hefur komið fram. Það er ekki einn fjórði af þessum 14 milljörðum sem um ræðir. Það er einn áttundi eða svo. Það er eins og ég segi, þessi pítsuneið sem týndist einhvers staðar í gær.

Þetta er dæmi, finnst mér, um margt annað í fjárlagafrumvarpinu sem sýnir ekki á spilin. Það er ekki verið að sýna kostnaðaráætlunina, ekki verið að sýna stefnu stjórnvalda á skýran og mælanlegan hátt. Það er verið að fela spilin, stinga þeim upp í ermina, gefa einn áttunda núna en ekki einn fjórða, þetta tel ég, að vissu leyti, vera út af kjaraviðræðnavetrinum fram undan. Ég skil þá samningatækni að halda spilunum þétt að sér til að geta þá átt eitthvað uppi í erminni til að koma til móts við viðsemjendur. En á sama tíma er það líka pínu óheiðarlegt. Ég segi pínu óheiðarlegt, ég er ekki að reyna að ýkja neitt með það. Það er sagt að gera eigi þetta jöfnum skrefum, það er ekki gert. Það er ekki heiðarlegt. Einfaldlega svoleiðis.

Nema að þessi afgangur sé einhvers staðar annars staðar, þessi auka einn áttundi, það séu einhvers staðar líka aukatekjuskattslækkanir. Ég finn þær ekki. Maður þarf kannski að lúslesa frumvarpið betur. En það er eitt af vandamálunum sem við glímum dálítið við, að við fáum fjárlagafrumvarpið sem er um fjögur hundruð og eitthvað blaðsíður, mjög stuttu fyrir 1. umr. Það gerir að verkum að maður nær ekki að lesa sig alveg í gegnum frumvarpið á þann hátt að maður geti gert tengingar á milli efnisins úr einu málefnasviði í annað, á milli efnahagshorfa og hagspárinnar í fjármálaáætluninni, á móti stefnunni í fjármálaáætluninni og útfærslu stefnunnar í fjárlögum. Maður hefur hvorki tíma né yfirsýn, þetta eru um 800 blaðsíður sem þarf að púsla saman hérna. Eftir því sem upplýsingunum fjölgar, sérstaklega þegar þær eru ekki á það tölvulegu formi að maður þarf að lesa og setja minnispunkta og tengja það saman í heilanum og muna, þá er það bara miklu óskilvirkara en ef meiri tími væri gefinn í þetta. Þá væri 1. umr. mun dýpri. Það væri kominn meiri tími fyrir hagaðila og sérfræðinga úti í bæ til að koma með ábendingar sem við getum þá lagt betur fyrir ráðherra t.d. í dag og á morgun. Og til að fá betri spurningar og betri svör, skýrari fjárlög. Það á að vera markmiðið. Maður á ekkert að vera hræddur við að hafa skýr fjárlög. Það er gott að hafa skýr fjárlög.

En þegar við gerum þetta svona, þegar fjárlögin koma út með stuttum fyrirvara fyrir 1. umr., er að vissu leyti verið að hafa af okkur í þinginu ákveðin verðmæti sem 1. umr. á að vera. Hún verður yfirborðskenndari fyrir vikið. Hún gæti innihaldið einhvern misskilning, það gæti verið að ég hafi ekki fundið hinn helminginn af skattalækkununum. Það gæti alveg verið. Til þess þarf ég að lesa frumvarpið enn betur en ég hef gert hingað til. Ég er alls ekki búinn að lesa það nægilega vel til að mér finnist ég vera búinn að lesa það nægilega vel. Ég myndi vilja lesa það miklu oftar og miklu betur. Það kemur.

Þetta er ákveðið dæmi um það hvernig við notum tíma eða skort á honum til að komast hjá nákvæmari umræðu, til að þurfa ekki að sýna að í raun og veru eru aðgerðirnar sem eru hérna ekki kostnaðarmetnar. Þær eru ekki kostnaðarmetnar af því að verið er að fela upplýsingar. Þær eru ekki kostnaðarmetnar vegna þess að kostnaðarmatið er ekki til. Það er erfitt að þurfa að segja það. Þetta er eitthvað sem við ættum sem Alþingi að fá að vita. Þegar ég spyr: Af hverju þarf ég að láta þig fá 100 milljónir fyrir þessu? verður að vera hægt að útskýra það, þá verða ráðherrar hér á morgun, á málefnasviðunum, að geta svarað spurningum. Þegar ég spyr: Hérna er verið að hækka t.d. í ferðaþjónustuna, þar er útgjaldasvigrúm upp á 90 milljónir, af hverju er verið að láta þau þar fá auka 90 milljónir? Af hverju er ég að láta þau fá rúmlega 2 milljarða í fjárhagsramma? Er eitthvað þar innan rammans sem er í raun ofáætlað eða vanáætlað? Hvað með bundnu útgjöldin? Já, ég er með góða yfirsýn yfir þau hérna, 100 milljónir, rúmlega. Hvaða bundnu útgjöld eru þetta? Það ætti að vera rosalega auðvelt að svara því, meira að segja. En einhverra hluta vegna er það ekki aðgengilegt.

Þetta er svona kjarninn í því sem ég tel að við þurfum að gera betur. Ég hef bent á þetta nokkrum sinnum í undanförnum umræðum um fjárlög, fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Ég sé aðeins betri texta í aðgerðalistanum. (Forseti hringir.) Ég sé smá betrumbót. En ég held að það sé frekar af því að það er meiri reynsla og meiri þekking á að búa til frumvarp til fjárlaga en t.d. fjármálaáætlun (Forseti hringir.) þannig að við sjáum til í næstu fjármálaáætlun.