150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er mér ekki alveg að fullu ljóst hvað hv. þingmaður er að hugsa um eða í hvað hann er að vísa. Við getum skoðað frávikin í einstökum liðum, t.d. brotið þetta niður á málefnasvið, skoðað frumgjaldatöfluna og spurt: Er verið að fylgja frumgjaldatöflunni eins og henni var stillt upp í fjármálaáætlun? Þá myndi ég segja: Já, við erum að gera það. Frávik sem er að finna eru smávægileg.

Hafi það verið hugmyndin með þingsályktun um fjármálaáætlun að leggja allar meginlínurnar um það hvernig fjárlagafrumvarp ætti að líta út náum við því markmiði fullkomlega. Það getur einfaldlega ekki verið markmið í sjálfu sér að semja sjálft fjárlagafrumvarpið á vorin niður í smáatriði. Við erum að ákveða með þingsályktun, ekki með lögum heldur með þingsályktun, að leggja allar breiðu línurnar og fjalla um forsendurnar fyrir tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins sem kemur síðan fram að hausti.

Þetta finnst mér hafa tekist vel. Ef hv. þingmaður telur að það séu alvarleg frávik frá því sem þingið samþykkir sem grundvöll fjárlagafrumvarpsins og síðan þess frumvarps sem við ræðum hér í dag vildi ég gjarnan sjá dæmin vegna þess að ég hugsa bara alltaf um tilganginn með þessu öllu saman. Erum við að ná tilganginum? Ég er minna upptekinn af því að setja mjög stífa reglustiku á það hvort þetta er akkúrat allt saman á línunni. Það er meginhugsunin sem hlýtur að vera aðalatriðið, að við séum í öllum grundvallaratriðum búin að ræða forsendur fyrir tekju- og gjaldahlið og útfærslu þeirra í fjármálaáætlun þannig að það birtist þar.