150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil núna betur til hvers hv. þingmaður er að vísa, þ.e. hann vísar til einstakra lagagreina í lögum um opinber fjármál. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að ábatagreiningar og markmið þurfi að vera skýr, en ég held hins vegar að hv. þingmaður sé með of miklar væntingar um að við getum svarað öllu fyrir fram. Ég er ósammála því að við getum einfaldlega með því að láta reikna og skýra einstök verkefni svarað öllum spurningum meira og minna. Munurinn þarna á milli er einfaldlega það sem við köllum stjórnmál. Flokkarnir trúa á mismunandi leiðir í einstökum málum. Við höfum mismunandi sýn á það hvað skiptir miklu og hvað ætti að vera í forgangi. Það er ekki hægt að leggja algildan mælikvarða á það hversu mikið fjármagn þarf í einstök verkefni, hversu mikilvægt er að eyða einbreiðum brúm á móti því að setja aukna fjármuni í betri lyf. Við setjum þetta ekki í eitthvert excel-skjal og fáum út niðurstöðu.

Forgangsröðun fjármunanna er í raun og veru eitt af kjarnaverkefnum stjórnmálanna, að finna rétta jafnvægið þar á milli og geta tekið umræðu um það í þingsal og kynnt það í fjárlagafrumvarpi og í fjármálaáætlun. Ég er sammála hv. þingmanni um að menn þurfi að gera þinginu reikningsskil á nýtingu fjármuna og geta setið fyrir svörum um það hvers vegna er verið að auka við á einstaka sviðum og hvaða árangri það á að skila. En ef þessi umræða á að fara fram af einhverri sanngirni held ég að við höfum aldrei í þingsögunni gert jafn alvarlega atlögu að því að svara þessum spurningum eins og við erum að gera í dag þar sem við erum í alvörunni að ræða í fyrsta skipti fimm ár fram í tímann. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður vísar til gamla tímans. Í gamla tímanum var engin fimm ára áætlun. Í gamla tímanum kom fjárlagafrumvarp í október, (Forseti hringir.) í gamla tímanum komu tekjuráðstafanir í nóvember. (Forseti hringir.) Í gamla tímanum kláruðust fjárheimildir í febrúar.