150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir marga athyglisverða punkta sem hann kom hér inn á. Ég ætla að byrja á því að fjalla aðeins um það sem hv. þingmaður byrjaði sína ræðu á, að benda á kafla í greinargerð með frumvarpinu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er ansi vandaður kafli. Það ber að taka mið af þeirri óvissu sem þar er farið í gegnum, óvissuþáttum ekki síst í tengslum við Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og hvaða áhrif hún hefur. Þar er viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína nefnt og þar er farið yfir hagvaxtarþróun í viðskiptalöndunum og það er auðvitað mikilvægt að setja þetta fram í því frumvarpi sem við ræðum.

Hv. þingmaður tengdi síðan þessa óvissu við þær hagspár sem við miðum við og leggjum til grundvallar þegar við setjum fram fjárlagafrumvarp og byggjum útgjöld og tekjur á. Hv. þingmaður, sem situr í fjárlaganefnd, fór í gegnum þessa vinnu þar sem ríkisstjórnin setur inn óvissusvigrúm, akkúrat til þess að mæta þessu, og kom inn á að ekki væri tekið tillit til annarra spáa og gerð einhver meðaltalsspá. Þá er til að nefna að þar tókum við — ekki satt, hv. þingmaður? — einmitt tillit til annarra spáa þegar hv. fjárlaganefnd var að fara í gegnum þessa óvissuþætti.