151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. 35 milljarðar eru þessar sérstöku mótvægisaðgerðir. Það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni. Hitt eru sjálfvirku sveiflujafnararnir sem á að grípa til og eru bara góð hagfræði og ég hrósa ríkisstjórninni fyrir að fara eftir þeim réttu hagfræðikenningum að ríkið taki á sig þessa sveiflu í auknu atvinnuleysi með atvinnuleysisbótum o.s.frv.

Ef við tökum það til hliðar eru sérstakar mótvægisaðgerðir 35 milljarðar. Það stendur skýrum stöfum í fjárlagafrumvarpinu. Ég skil ekki af hverju það er nóg. Sérstaklega miðað við það að þegar við lögðum um 9 milljarða til í nýsköpun í vor þá kom upp úr kafinu í lok sumars að eftirspurnin eftir þeim fjármunum var meiri en nóg. Nú er það orðið stefna stjórnvalda fyrir næsta ár að leggja til nákvæmlega sömu upphæð og stjórnarandstaðan lagði til í vor en núna er þörfin orðin enn meiri en var í sumar. Þannig að ég átta mig ekki á því hvernig 35 milljarðar eru nóg. (Forseti hringir.) Ég vil fá útskýringar á því en ég finn þær ekki í fjármálaáætluninni.