151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:46]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þessi fjárlög fjölga hvorki störfum né taka utan um þann hóp sem hefur misst atvinnuna. Þessi fjárlög eru ekki hin græna bylting sem hér hefur verið boðuð og enn eru fjárfestingarnar of litlar. Af hverju segi ég þetta? Því fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar nemur 1% af landsframleiðslu og dugar engan veginn til að mæta einni dýpstu kreppu í 100 ár. Viðbótin í umhverfismál er 0,1% af landsframleiðslu og viðbótin í nýsköpun er 0,3%. Það er of lítið og of naumt skammtað, herra forseti. Við þurfum að gera betur til að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað og til þess þarf að beita ríkisfjármálunum með myndarlegri hætti en hér er gert. Ég átta mig á því að halli ríkissjóðs er mikill en það er réttlætanlegt í mínum huga að hafa hann meiri til að við getum komist upp úr þeim djúpa öldudal sem íslenskt hagkerfi er núna í. Að sjálfsögðu mun birta um síðir og hagkerfið taka við sér til lengri tíma litið en núna er tíminn til að beita ríkisfjármálunum myndarlega þegar kemur að grænum skrefum, fjárfestingu, nýsköpun og opinberri þjónustu.

Atvinnuleysi er helsta vandamál okkar í dag. Það er eitur í beinum Íslendinga. Núna er um 20.000 Íslendingar atvinnulausir. Það stefnir í að þeir verði um 25.000 næstu jól. Við þurfum að beita öllum tiltækum ráðum til að sporna gegn atvinnuleysi en í þessu fjárlagafrumvarpi sýnist mér gert ráð fyrir að það lækki einungis um 1 prósentustig. Það er ekki nægjanlegt í því ástandi sem við erum að glíma við, herra forseti. Við þurfum að stuðla að atvinnuskapandi tækifærum. Við þurfum að treysta innviðina og hina opinberu innviði sem margir hverjir voru í talsverðum vandræðum fyrir Covid.

20.000 manns eru án atvinnu en því til hliðar hefur störfum fækkað á vinnumarkaði. Það hefur fækkað um 20.000 störf á vinnumarkaðinum, fyrir utan þá sem eru atvinnulausir, sem er hlutfall af þeim sem eru á vinnumarkaðnum. Til að setja þá tölu í samhengi eru 20.000 störf samanlagt öll störfin á Akureyri, Austfjörðum og Vestfjörðum og fari atvinnuleysi upp í 30.000 manns eins og hefur heyrst þá getum við bætt Reykjanesbæ við þennan dapurlega samanburð.

Hér er ekki nægilega mikið gert í fjárfestingarhlutanum. Hæstv. ráðherra hefur sagt að þessi tala, sem hann teflir hér á borð og er 1% af landsframleiðslu, taki mið af þeim verkefnum sem hægt er að ráðast í. Þá spyr ég hv. formann fjárlaganefndar og ráðherra — ef við finnum frekari verkefni, ef sveitarfélögin koma til fjárlaganefndar og segjast geta gert meira, eða nýsköpunargeirinn eða hið opinbera — hvort við séum ekki tilbúin að taka því fagnandi hendi og tryggja fjármögnun í þau verkefni sem skapa arð og störf.

Fjárfestingarnar eru eitthvað sem ég hef talsverðar áhyggjur af. Ég hef líka áhyggjur af atvinnuleysisbótunum og við erum ítrekað búin að ræða það í þessum sal að þær eru of lágar. Ég veit að íslenska ríkið er að setja mikla fjármuni í atvinnuleysisbætur og það tekur að sjálfsögðu mið af þessu mikla atvinnuleysi en að ætlast til að fólk lifi á rúmlega 240.000 kr. eftir að tekjutengda tímabilinu lýkur er ekki ásættanlegt, herra forseti. Við ættum að taka skref til að hækka tímabundið grunnatvinnuleysisbæturnar. Þetta er ömurleg staða. Auðvitað vita allir að það er ömurlegt að missa vinnuna. Að sjálfsögðu er það mikið efnahagslegt högg en það hefur líka alls konar félagslegar og jafnvel heilbrigðislegar áskoranir í för með sér fyrir viðkomandi einstakling og fjölskyldu. Við þurfum að gera betur gagnvart þessum stóra hópi. Nú þegar eru of stórir hópar sem þurfa að lifa á 250.000–300.000 kr., öryrkjar, hluti eldri borgara o.s.frv. Við megum ekki fjölga í þeim hópi Íslendinga sem neyðast til að lifa á 240.000 kr., það er of lág upphæð og það vita auðvitað allir í þessum sal.

Ég deili ekki þeim áhyggjum sem hafa heyrst um að með því að hækka atvinnuleysisbætur muni það draga úr vilja fólks til að leita sér að atvinnu. Það er umræða sem við höfum svo sem tekið áður og er tekin víða um heim en þegar enga atvinnu er að finna þá er það ekki tilfellið. Ég nálgast þetta frekar úr hinni áttinni. Ég vil að við léttum undir með þeim fjölskyldum sem hafa misst vinnuna. Það finnst mér að við ættum að einhenda okkur í, herra forseti.

Þetta eru helstu gagnrýnisatriði hvað þetta varðar sem ég sé í fjárlagafrumvarpinu. Það er auðvitað áhugavert að skoða skattbreytingar. Ég hef verið svolítið krítískur á þá hugmynd sem er í fjárlagafrumvarpinu að hér eigi að fara að skattleggja raunávöxtun fjármagnstekna í stað nafnávöxtunar. Það er umræða sem við tökum væntanlega síðar í vetur. Mér sýnist hér verið að verja fjármagnseigendur, einn hópa, gegn verðbólgu. Það eru 2 milljarðar eyrnamerktir í þessa skattalækkun.

Kannski hljóma ég eins og rispuð plata. Ég hef verið að gagnrýna það og bent á það að krónutala veiðigjalda hefur verið að lækka, m.a. vegna þeirra kerfisbreytinga sem við höfum farið í. Stundum er sagt við mig að veiðigjaldið væri enn lægra, hefðu menn ekki farið í þá breytingu sem þessi ríkisstjórn gerði 2018. Þá bendi ég á, til að svara þeirri gagnrýni, að þegar ríkisstjórnin breytti lögum um veiðigjald 2018 kom umsögn frá Alþýðusambandinu og þar stendur, með leyfi forseta: „Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega fyrirhugaðri lækkun veiðigjalda …“

Þetta er gagnrýni sem var teflt fram á sínum tíma þegar þessar breytingar voru gerðar og veiðigjöldin þurfa að vera hærri. Þau voru næstum því þrisvar sinnum hærri síðast þegar ríkisstjórnin var við völd. Ég veit að þau eru afkomutengd. Ég þekki það ágætlega. En þegar krónutala veiðigjalda er orðin álíka há og útvarpsgjaldið ættum við að íhuga á hvaða vegferð við erum komin með kerfið. Við sáum tölurnar sem greinin birti sjálf um daginn, á sjávarútvegsdeginum, þá kom í ljós að arðgreiðslur til eigenda útgerðarfyrirtækja voru um 62 milljarðar á undanförnum fimm árum. Hugsið ykkur, 62 milljarðar á fimm árum. Arðgreiðslur eru að sjálfsögðu fyrir utan launin sem þessir aðilar fá, fyrir utan hagnaðinn sem fyrirtæki þeirra sýna, fyrir utan hækkun hlutabréfa þeirra og fyrir utan söluhagnað ef þeir selja þessi sömu hlutabréf. Þannig að árlegar arðgreiðslur renna beint í vasa útgerðarmanns og fjölskyldu hans og þær eru orðnar hærri en veiðigjöldin sum árin. Við sjáum bara krónutöluna, aftur er ég að bera saman krónutöluna, veiðigjöldin hafa verið að lækka frá ári til árs þrátt fyrir að hagnaðurinn sé talsverður í greininni. Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja undanfarin fimm ár var nefnilega 200 milljarðar. Að sjálfsögðu vil ég að sjávarútveginum vegni vel en mér finnst samt sanngjarnt að stórútgerðin, ég er fyrst og fremst að tala um stórútgerðina, greiði hærra verð fyrir þennan aðgöngumiða að einum gjöfulustu fiskimiðum jarðar. Um það snýst þessi grundvallarspurning og ég nefni það í þessu samhengi því þetta tengist tekjumöguleikum íslenska ríkisins og við þurfum að sjálfsögðu á öllum okkar tekjum að halda til að mæta þessu höggi.

Ég er alveg sammála þeim sem hafa sagt að nú sé ekki tíminn til að hækka skatta og við ættum í rauninni ekkert að vera að gera það. Við ættum frekar að lækka skatta til að örva. Við eigum að spýta í sums staðar og jafnvel lækka skatta. Ég hef áhyggjur af litlu fyrirtækjunum sem sjaldan er talað um sem eru hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Það eru fyrirtæki með kannski einn, tvo, þrjá, fjóra, fimm starfsmenn, þetta eru einyrkjarnir, iðnaðarmenn, hárgreiðslustofur, endurskoðendaskrifstofur, þetta er ótrúlega fjölbreytileg starfsemi og við þurfum einhvern veginn að létta henni róðurinn. Þetta eru veitingastaðir að sjálfsögðu, sem eru í sérstakri hættu út af Covid, listamenn o.s.frv. Við þurfum einhvern veginn að ná betur til þessara hópa en hér er gert. Ég hef talsverðar áhyggjur af þessu.

Við þurfum að stækka netið og hugsa til ákveðinna hópa og svæða. Suðurnesin eru svæði sem ég hef talsverðar áhyggjur af. Þar er atvinnuleysi orðið 20%. Ég gat áðan um listafólk og fólk sem vinnur í menningu, skemmtikraftana, þeir hafa ítrekað bent á að þeir eru að upplifa algjört tekjufall og hafa í rauninni ekki fundið farveg í þeim aðgerðum sem hér hefur verið ráðist í þannig að við skulum bara hlusta á fólkið úti í feltinu. Auðvitað veit ég að fólk er að reyna að gera sitt besta og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu. Ég læt ekki eins og svo sé. Ég veit að þetta er erfið staða og ég veit að þetta er eitthvað sem enginn sá fyrir, þetta gríðarlega högg í íslenska hagkerfinu.

Það er kannski ágætt að fara yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í. Sumt hefur gengið ágætlega og annað ekki eins og gengur en við sjáum að hlutabótaleiðin virtist virka þannig að ég hrósa því nú. Ég er hrifinn af Allir vinna átakinu sem nú er verið að framlengja. Svona atriði þurfum við að draga betur í ljósið. Landsbankinn birti ákveðna greiningu á fjárfestingum á þessu ári og þar kom svolítið áhugavert fram vegna þess að hér hafa verið samþykktir tveir, þrír fjáraukar. Landsbankinn sagði fyrir viku síðan, með leyfi forseta:

„Fjárfesting ríkissjóðs minnkaði um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 […] Sé litið á heildarmyndina er samt nokkuð ljóst að áform síðustu missera um stóraukna opinbera fjárfestingu hafa ekki náðst enn sem komið er, hvort sem litið er á opinberar tölur um þjóðhagsreikninga eða tölur um fjármál hins opinbera.“

Hér er Landsbankinn að draga fram að fjárfestingartölurnar eru kannski ekki eins og við bjuggumst við og þetta snertir það sem ég gat um í upphafi, að við þurfum að setja meiri fjármuni í fjárfestingar, alls konar fjárfestingar, auðvitað verklegar fjárfestingar, samgöngubætur, en við þurfum líka að huga að því að ná til mismunandi hópa í okkar samfélagi, til beggja kynja o.s.frv. Aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í voru umdeildari, eins og uppsagnarleiðin. Ég hef ekki séð aðrar ríkisstjórnir fara þá leið að niðurgreiða uppsagnir. Ég held að sú leið hafi verið mistök. Brúarlán voru ein af þessum stóru aðgerðum og áttu að vera 80 milljarðar en voru núna í byrjun september orðin 1 milljarður samkvæmt þeim fréttum sem ég rakst á og eini lántakandinm var Icelandair, eða sú samstæða. Frestun skattgreiðslna tekur kannski einhvern tíma en það var einn fimmti af því sem til stóð, lokunarstyrkirnir voru í lok sumars einungis 8% af því sem til stóð og afgreidd stuðningslán um 11%. Ferðagjöfin var of lítil. Markaðsátakið fór fyrir lítið þegar landinu var lokað. Svo er gagnrýnisverður fyrirhugaður stuðningur við fjölmiðla því að hann var svolítið sérkennilegur. Búið var að ákveða að styrkja einkarekna fjölmiðla um 400 milljónir fyrir Covid. Svo var tilkynnt að styrkja ætti fjölmiðla vegna Covid og þá ákvað ríkisstjórnin að taka fyrri 400 milljónirnar og bara styrkja þá um 400 milljónir. Ég vona að þetta sé nokkurn veginn skýrt. Við þurfum að huga svolítið að einkareknum fjölmiðlum og mér sýnist að verið sé að gera það í þessu frumvarpi.

Félagslegu aðgerðirnar eru ekki alveg nógu sterkar og þá ekki síst þegar kemur að vanda hinna atvinnulausu, það er það sem við þurfum að huga að. Ég veit, herra forseti, að verkefnin eru ærin en það er svo margt sem við getum verið sammála um. Það er enginn sem talar gegn nýsköpun eða aukinni fjárfestingu í raun og veru. En það sem við deilum hér um er umfang fjárfestingar og nýsköpunar. Ég tek það stundum sem dæmi, af því að við fáum þessar upplýsingar í fjárlaganefnd, að Tækniþróunarsjóður, sem er lykilsjóður á vettvangi nýsköpunar, hefur bent á að fjöldi verkefna sem fá hæstu einkunn í mati sjóðsins á styrkhæfum verkefnum er mikill. En fjölda verkefna er ekki hægt að fjármagna vegna skorts á fé. Þetta eru ekki stórar tölur, ég held að Tækniþróunarsjóður sé kominn upp í 3 milljarða, eitthvað svoleiðis. Það er verið að leggja meira fé í þetta og fagna ég því, höldum því alveg til haga, en hér held ég að við ættum að setja enn meira. Ég sá fréttir í sumar um að Tækniþróunarsjóður teldi að ef hann fengi 5–6 milljarða myndi það duga til að fjármagna þau verkefni sem eru burðug og uppfylla þau ströngu skilyrði sem eru fyrir styrk, sem dæmi. Auðvitað finnst mér að við ættum að hlusta á svona tillögur því við erum með stór fjárlög, 1.000 milljarða. Tölurnar eru orðnar stórar og við erum kannski orðin svolítið blind á þær. En allt telur þetta.

Að lokum, herra forseti, þá vil ég taka þetta saman: Við erum á fordæmalausum tímum en þeir eru tímabundnir. Við munum komast upp úr þessu. Við þurfum að beita ríkisfjármálunum með myndarlegri hætti. Við þurfum að fjölga störfum hjá hinu opinbera og ekki síst einkageiranum, við getum gert hvort tveggja. Ef við lítum aðeins á opinbera geirann þá er ég ekki að tala um einhverja atvinnubótavinnu. Ég er að tala um að styrkja hinar opinberu stofnanir þar sem þess er þörf. Við sjáum að það vantar 400 hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfið. Við erum samt búin að mennta 1.000 hjúkrunarfræðinga sem starfa við annað en hjúkrun. Lögreglusamband Íslands metur að það vanti um 200 lögreglumenn. Það vantar sálfræðinga í heilsugæsluna og skólana og félagsráðgjafa vantar víða þannig að ég bendi á þessar grundvallarstéttir sem við gætum fjölgað í. Formaður BSRB hefur bent á að stöðugildum hjá ríkinu hafi fækkað hlutfallslega á undanförnum 11 árum. Það er umhugsunarvert vegna þess að verkefnið er risavaxið hjá þessum geira.

Ég hef verið gagnrýndur fyrir að tala of mikið um opinber störf. Ég vil tala um opinber störf vegna þess að þau eru hluti af myndinni en við þurfum að sjálfsögðu líka að styrkja einkageirann. Hann er í vandræðum og ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra hvað það varðar að við þurfum að taka markviss skref til að byggja aftur upp. Við þurfum að nálgast ferðaþjónustufyrirtæki sem eru að fá þetta risavaxna högg, skemmtanaiðnaðinn, veitingahúsaiðnaðinn, þessi afmörkuðu svið, við þurfum með einhverjum hætti að ná betur til þessara aðila. Mér finnst það satt best að segja ekki gert nægjanlega í þessu frumvarpi. Auðvitað er hægt að finna ýmislegt jákvætt í því en það sem ég er að reyna að gera hér er að hvetja ráðherrann og meiri hlutann til góðra verka. Hann hefur haft orð á því að við séum í sama báti, þá skulum við sýna að við séum það. Teygjum okkur aðeins lengra þegar kemur að fjárfestingarhlutanum, þegar kemur að því að hjálpa þeim sem þurfa að lifa á strípuðum atvinnuleysisbótum. Það er útlátalítið af okkar hálfu núna. Við getum gert það og það er góð hugmyndafræði og góð pólitík að mínu mati að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti og taka síðan aðeins lengri tíma til að greiða niður hallann.

Nú er ég kannski kominn aðeins út fyrir efnið því við ræðum fjármálaáætlun á morgun en það glittir í óútfærðan niðurskurð eftir rúm tvö ár upp á tæplega 40 milljarða. Við eigum eftir að takast á um það. Ég óttast auðvitað að sá niðurskurður, ef farið verður í hann, gæti lent á þeim hópum sem reiða sig á opinbera þjónustu, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn, sjúklingar eða fátækt fólk. Þetta eru hópar sem hafa reitt sig á opinbera þjónustu og við þurfum að hlífa þeim eins og kostur er. Þessir hópar hafa verið mjög krítískir á þessa ríkisstjórn og nú síðast hafa bæði Öryrkjabandalagið og félög eldri borgara ályktað með frekar hörðum hætti um þetta fjárlagafrumvarp, telja langt því frá að það nái að mæta þeirra þörfum þótt að hluta sé. En þetta er eitthvað sem við þurfum að gera. Við hljótum að geta gert aðeins betur þegar kemur að þessum stóru hópum. Ég hef ítrekað sagt að Ísland er þrátt fyrir allt ríkt land. Við erum tíunda ríkasta land í heimi en til að geta hjálpað þessum hópum þá þurfum við að sjálfsögðu að afla tekna. Á meðan það er ekki hægt þá eigum við að skuldsetja okkur eins og er verið að gera í þessu frumvarpi. En við þurfum að gera það meira, svo ég tali bara hreina íslensku, við þurfum að auka hallann meira og taka svo aðeins lengri tíma til að ná honum niður.

Ísland er land tækifæranna en ekki fyrir alla. Við þurfum að búa til spennandi hagkerfi og samfélag þar sem allir finna sína fjöl, þar sem allir geta lifað sómasamlegu lífi. Ég veit að við gerum ekki allt fyrir alla en getum við ekki byrjað á tekjulægstu hópunum, ekki síst þegar kemur að svona ástandi eins og núna er? Þegar fólk sem vill vinna fær ekki vinnu þurfum við að skapa vinnuna á meðan, bæði hjá einkageiranum og opinbera geiranum, en taka líka tímabundið betur utan um þá hópa sem neyðast til að lifa á Íslandi sem er dýrasta land í heimi og það nær enginn endum saman á 240.000 kr. Það segir sig svolítið sjálft, herra forseti.

Að öðru leyti hlakka ég til vinnunnar í nefndinni og ég veit að við fáum fjölmargar umsagnir og vonandi getum við hlustað á þær. Það hefur verið svolítil lenska hjá okkur í fjárlaganefndinni að fá marga gesti en gera kannski aðeins of lítið með þær umsagnir þannig að ég vil hvetja fjárlaganefnd til að sameinast um tillögur málinu til framdráttar og lenda ekki í pólitískum skotgrafahernaði því núna er neyðarástand og við eigum að snúa bökum meira saman. Við erum lítið samfélag og við erum allt of oft að rífast um keisarans skegg. Ég er ekkert undanskilinn þar og vona að við getum aðeins unnið betur saman og gert þetta frumvarp betra og gefið fólki von í því. En því miður er það ekki nægjanlegt að mínu mati við fyrsta lestur.