151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir prýðisræðu. Eins og ég skil hv. þingmann er hann nokkuð sammála stefnunni sem birtist í þessum fjárlögum og snýr að því að verja lífskjörin, verja tilfærslukerfin, hreyfa ekki við sköttum, lækka fremur álögur, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera og kemur nú að fullu til framkvæmda. Ég nefni sem dæmi í því efni þriggja þrepa kerfið og tekjuskattinn.

Hins vegar kemur hv. þingmaður mikið inn á að ekki sé verið að gera nóg. Nú afgreiddum við þrjá fjárauka á tímabilinu apríl til júní, samtals um 103 milljarða, ef ég man tölurnar rétt. Við horfum framan í þá stöðu núna að við erum með rúmlega 1.000 milljarða fjárlög sem eru nokkurn veginn í samræmi við gildandi fjármálaáætlun. Svo ræðum við endurskoðun fjármálaáætlunar á morgun.

Hv. þingmaður er hins vegar duglegur að setja stærðir í samhengi og segir að ekki sé nóg gert, það þurfi að gera meira. Við verjum grunnkerfin okkar, eins og verið er að gera og ég veit að hv. þingmaður telur mjög mikilvægt, þ.e. heilbrigðisþjónustuna, velferðarkerfið og menntamál. Ef við tökum málefnasvið þessara þriggja kerfa plús vaxtagjöld eru tekjurnar á næsta ári áætlaðar 772 milljarðar. Þá duga þær akkúrat fyrir þessu. Öll hin málefnasviðin, útgjöldin, sem við erum að verja til að viðhalda opinberu þjónustustigi og lífskjörum (Forseti hringir.) eru tekin að láni.

Ég veit að það kom fram í ræðu hv. þingmanns að hann væri sammála þeirri stefnu sem í þessu birtist. En það hljóta að vera einhver mörk á því (Forseti hringir.) hvenær nóg er nóg. Og hvar eru þau mörk? Ég spyr hv. þingmann.