151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var mögulega ekki nægilega skýr í spurningunni af því að hv. þingmaður vék síðan að því í ræðu sinni að hann hefði áhyggjur af því að þegar við ræddum fjármálaáætlun 2023–2025 þyrftum við að huga að því að draga úr skuldaaukningunni, 35–40 milljarðar árlega. Það kemur til af því að við þurfum að borga vexti af þessari lántöku, 60 milljónir á næsta ári. Það væri nú gott að geta notað þá peninga í annað.

Þegar við horfum á lög um opinber fjármál velti ég fyrir mér grunngildunum sjálfbærni og stöðugleika og hvort það væri ábyrg pólitík að horfa ekki á heildarstöðuna þegar við förum með skuldir upp í 50%. Það eru ekki dekkstu sviðsmyndirnar, 50% af allri verðmætasköpun í landinu á einu ári. Ef hæstv. ríkisstjórn kæmi með fjárlög og myndi bæta verulega í til allra málefnasviða og allra þessara þátta sem hv. þingmaður segir að séu ekki nóg, gætu það þá verið ábyrg stjórnmál eða ábyrg fjármálastýring? Við þyrftum þá að kljást við miklu, miklu hærri fjárhæðir inn í framtíðina og leggja byrðar á komandi kynslóðir.

Hv. þingmaður sagði sjálfur í ræðu sinni að þetta væri tímabundið ástand. Við erum með ónotuð framleiðslutæki og vinnuafl. Störfin eru ekki farin frá þeirri atvinnugrein þar sem þetta birtist hvað sterkast, í ferðaþjónustunni. Við verðum bara að viðhalda trúnni og, eins og verið er að gera með öllum aðgerðum, halda þessu gangandi eins og hægt er svo að við getum mætt eftirspurninni og störfin haldið lífi þegar eftirspurnin kemur. Því að hún kemur.