151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég klára skylduna og segja að þau viðbrögð sem birtast okkur í orðum ríkisstjórnarinnar um aukin útgjöld ríkisins og lækkun skatta eru góð hagfræði í þessum aðstæðum. Í niðursveiflu er eðlilegt að hið opinbera komi með innspýtingu í hagkerfið og minnki niðursveifluna og hið andstæða á svo að gerast í uppsveiflu. Orð ríkisstjórnarinnar um þessa hagfræði sína eru eitt en hvað ríkisstjórnin ákveður að gera við innspýtinguna er annað. Einnig hljótum við að spyrja hvort mótspyrnan sé nægilega mikil, of lítil eða kannski of mikil. Verkefnin fram undan eru því tvíþætt. Annars vegar þarf ríkisstjórnin að útskýra af hverju 35 milljarðar á næsta ári eru nægilega mikið í mótvægisaðgerðir, fyrir utan sjálfvirku útgjaldakerfin, í mestu kreppu í heila öld. Í öðru lagi þurfa stjórnvöld að útskýra af hverju þau verkefni sem ríkisstjórnin velur eru góð. Af hverju eru þau verkefni betri en einhver önnur verkefni?

Í upphafi þessarar umræðu lagði ég einfalda spurningu fyrir fjármálaráðherra, grundvallarspurningu sem hefði átt að vera auðvelt að svara. Eru mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar viðeigandi miðað við aðstæður? Sérstaklega miðað við að ítrekað hefur verið sagt að betra sé að gera meira en minna, sérstaklega miðað við það að ef ekki verður meiri hagvöxtur en búist er við þá þarf að fara í niðurskurð árið 2023. Svör fjármálaráðherra voru fyrirsjáanlegur pólitískur útúrsnúningur þar sem spurningunni var ekki svarað heldur fengum við fullt af orðum um eitthvað allt annað en spurt var um. Svarið var að það væri ekkert sjálfsagt að fara eftir fræðunum, sem er stórkostlega merkilegt. Það ætti að hrósa stjórnvöldum fyrir að fara eftir faglegum og fræðilegum aðferðum í stað pólitískra aðferða. Ég er ósammála þessu og þess vegna set ég umfang sjálfvirku tækjanna til hliðar þegar ég skoða viðbrögð stjórnvalda. Sjálfvirku tækin ættu að virka óháð því hverjir eru við stjórn. Kostnaðurinn við þau væri sá sami sama hverjir væru við stjórn. Það er ekki pólitískt tæki, einfaldlega hagfræðilegt og efnahagsleg tæki. Atvinnuleysisbætur eru efnahagslegt tæki til að bregðast við atvinnuleysi.

Til viðbótar þurfa stjórnvöld svo að leggja til viðeigandi aðgerðir ef þarf eða jafnvel stilla til sjálfvirku tækin. Það er stundum gert. Hækka kannski atvinnuleysisbætur tímabundið eins og gert hefur verið með tekjutengingu eða einhverjar aðrar aðgerðir sem virka á þessi sjálfvirku tæki. En aðgerðirnar sem við þurfum að fjalla um eru þessar sérstöku mótvægisaðgerðir stjórnvalda, ekki þær sjálfvirku nema kannski stillingarnar á þeim.

Aftur að fjárlagafrumvarpinu. Það eru ansi mörg málefnasvið sem þarf að ræða í því. Við þurfum að ræða um lífeyri, málefni sveitarfélaga, heilbrigðiskerfið, menntakerfið. Við þurfum að fjalla um samgöngur, nýsköpun og umhverfismál og síðast en ekki síst þurfum við að ræða um framtíðina því að þegar allt kemur til alls er framtíðin mikilvægust. Þetta er jú frumvarp um framtíðina, nánar tiltekið um opinber fjármál á næsta ári. Í þessu frumvarpi er stefna ríkisstjórnarinnar fyrir árið eftir kófið — vonandi lýkur kófinu í kringum áramótin eða mjög snemma á næsta ári. Kannski gerist það ekki og þá erum við tvímælalaust í annarri stöðu. Ég sé þetta fjárlagafrumvarp sem stefnu ríkisstjórnarinnar eftir kófið, sem uppbyggingarfrumvarp. Á árinu 2020 höfum við verið að sinna varnarstarfi og að mínu mati sinnt uppbyggingarstarfi of lítið. Við höfðum tækifæri til að setja meira fjármagn í nýsköpun strax í upphafi en ríkisstjórnin greip það tækifæri ekki. Nú leggur ríkisstjórnin fram sömu upphæð í nýsköpun og stjórnarandstaðan lagði til í vor. Að sjálfsögðu ber að fagna góðum verkum en það þurfti þessa fjármuni fyrr og núna þarf meira af því að komið hefur í ljós að það var tvímælalaust þörf fyrir alla þá fjármuni sem stjórnarandstaðan lagði til í vor og þeir hefðu getað nýst strax í sumar. Síðan þá hafa enn fleiri tækifæri komið upp. Og ef við hefðum brugðist betur við í sumar værum við jafnvel með enn fleiri möguleika núna því að tækifæri búa til ný tækifæri. Atvinnuleysið myndi kosta okkur minna og við fengjum meiri tekjur vegna nýrra starfa.

Lykilatriðið sem við þurfum að huga að er uppbyggingin. Þannig náum við aftur sjálfbærni í ríkisfjármálunum. Píratar horfa alltaf til framtíðar. Píratar eru stofnaðir sem framtíðarflokkur. Þar kom saman fólk sem sá að ef við héldum áfram á sömu braut og var verið að feta myndi það þýða gríðarlegar skerðingar á borgararéttindum og samfélag Stóra bróður Orwells myndi valta yfir okkur. Ég verð að segja að sá spádómur hefur gengið eftir að miklu leyti. Ef fleiri hefðu hlustað á Pírata úti um allan heim þá væri ástandið betra. Píratar náðu þó nokkrum árangri í Evrópu og nýlega leit dagsins ljós persónuverndarlöggjöf sem er bein afleiðing baráttu Pírata. Það var stórt framfaraskref í baráttunni gegn þeirri framtíð sem Píratar sáu fyrir fyrir áratug, en enn á eftir að stíga mörg skref á þeim vettvangi.

Við erum hins vegar í áhugaverðri stöðu á Íslandi. Við erum með fjármálaráðherra sem horfir ekki til framtíðar eftir lausnum heldur til fortíðar. Við erum með fjármálaráðherra sem talar alltaf um Ísland 2.0, eins og hann sé einhver Pírati með hugbúnaðaruppfærslu fyrir Ísland. Vandamálið er að við hefðum átt að uppfæra í 2.0 um síðustu aldamót eins og allir aðrir gerðu. Svo hefði átt að halda uppfærslunum áfram og ef við hefðum gert það værum við að uppfæra Ísland í 5.0 núna. Og hvað á ég við með því? Jú, ég á við þá almennu tækniuppfærslu sem veraldarvefurinn hefur gengið í gegnum. Það er viðeigandi samlíking því að þróun veraldarvefsins hefur verið tæknivæðing samskipta. Og stjórnmál eru lítið annað en samskipti. Það er einnig viðeigandi af því að við þurfum vissulega að uppfæra Ísland í 2.0 en við þurfum að ganga miklu lengra en það. Við þurfum líka að fara í gegnum uppfærslur 3, 4 og 5 sem fyrst. Við eigum ekki að bíða í áratugi eftir næstu uppfærslu. Núverandi ástand, Ísland 1.0, er eins og fyrsta útgáfan á vefnum þar sem við getum bara lesið og skoðað. Þar er engin gagnvirkni, engin samskipti, bara tölvuvæddur pappír. Í 2.0 uppfærslunni bætist sá möguleiki við fyrir notendur, kjósendur í þessu tilviki, að eiga samskipti. Það er hægt að koma með athugasemdir. Þetta er til að mjög takmörkuðu leyti í dag t.d. með umsagnarkerfi Alþingis og samráðsgátt stjórnvalda. Það liggur hins vegar við að það þurfi að senda bréfpóst til að geta tekið þátt í því athugasemdakerfi. En ef við skoðum alla stjórnsýsluna erum við langt frá því að vera komin með þá stjórnsýslu samskipta sem felst í 2.0 uppfærslunni. Sú uppfærsla er miklu víðtækari en bara að geta sent athugasemdir fram og til baka. Hún er nefnilega virkt samráð við öll sem hafa áhuga á því samráði, meira að segja á hún að þýða að stjórnvöld geri sem mest í því að athuga hvort þau sem hafa ekki áhuga hafi örugglega ekki áhuga. Enn fremur þarf að hlusta á athugasemdir sem fram koma í samráðsferli.

Tökum dæmi. Í áðurnefndri samráðsgátt stjórnvalda er umsögn Jóns Ólafssonar um drög að frumvarpi til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Í þeim drögum sem nú liggja fyrir á samráðsgátt Stjórnarráðsins er nánast ekkert reynt að tengja tillögur, röksemdir og útskýringar við almenningssamráðið, vísanir til einstakra þátta þess eru tilviljanakenndar og á stöku stað villandi. Ekki er reynt með neinum kerfisbundnum hætti að byggja á samráðinu þegar svo vill til að niðurstöður þess eru í samræmi við frumvarpsdrögin og engin tilraun er gerð til að skýra frávik þegar í drögunum eru farnar aðrar leiðir en samráðið gefur til kynna að almenningur styðji.“

Það er ekki tilefni til að spara stóru orðin í þessu.

Stjórnarskrárfélagið segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Höfuðtilgangurinn virðist sá að réttlæta og fá fólk til að sætta sig við hreina og klára valdníðslu; að stjórnmálaflokkar á Alþingi geti gert breytingar á stjórnarskrá eins og þeim sýnist þrátt fyrir að yfir 2/3 hlutar kjósenda hafi þegar samþykkt efnislegan grundvöll nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til í nafni þingsins.

Landsmönnum virðist ætlað að gleyma að allt það sem stjórnarskrárnefnd formanna stjórnmálaflokkanna er að fást við hefur þegar verið rætt og afgreitt í löngu lýðræðislegu ferli utan og innan Alþingis.

Þessi framganga er óréttlætanleg út frá siðferðilegum og lýðræðislegum sjónarmiðum og á ekki að eiga sér stað í nokkru lýðræðisríki.“

Þannig að þegar fjármálaráðherra kallar eftir 2.0 uppfærslu fyrir Ísland hefur hann greinilega ekki hugmynd um hvað hann er að tala um því að hann og ríkisstjórn hans vinna gegn þeim breytingum sem sú uppfærsla byggir á.

Þriðja uppfærslan í kjölfarið er sjálfvirkni og samþætting. Við erum með þessa uppfærslu á nokkrum stöðum í stjórnkerfinu. Skil á skattskýrslum uppfylla þessa uppfærslukröfu. Einnig er verið að vinna í því að gera þinglýsingar rafrænar og aðgengilegri. Þar er tækniuppfærsla athugasemda komin í ákveðna sjálfsafgreiðslu. Það væri frábært að komast í 3.0. Það væri gríðarlegur sparnaður fyrir hið opinbera og einnig myndi það laga margan hausverkinn í samskiptum við hinar ýmsu stofnanir. Þetta er uppfærsla sem t.d. leysir áttunda verkefni Ástríks í þrautunum tólf. Það verður ekkert mál að finna leyfi A38 þegar við höfum uppfært Ísland í 3.0.

4.0 er svo risavaxin uppfærsla. Hún snýst um aðgang að gögnum. Kannast einhver við það? Eins og með 3.0 uppfærsluna erum við þegar með vísi að þessari uppfærslu í opnum reikningum ríkissjóðs. En það er bara byrjunin á því sem ætti að vera aðgengilegt fyrir alla. Möguleikarnir sem 4.0 uppfærslan býður upp á eru endalausir og eru nauðsynlegir fyrir fimmtu uppfærsluna sem snýst um að opinber þjónusta verði sniðin að hverjum og einum, persónuleg þjónusta. Þegar við fáum Ísland 5.0 getur hið opinbera haft ákveðið frumkvæði að því að varðveita réttindi. Það þarf ekki að leita eftir endurgreiðslunni á virðisaukaskatti sem maður á rétt á. Maður fær hana af því að maður á rétt á henni og án þess að þurfa að vesenast í að sækja um hana. Fjármálaráðherra vill setja upp gamalt stýrikerfi. Ísland 2.0 er gamalt stýrikerfi sem stjórnvöld settu ofan í skúffu. Það er ekki framtíðarsýn að taka það upp og dusta af því rykið því að við þurfum ekki 20 ára gamalt stýrikerfi sem veit ekki einu sinni hvað snjallsímar eru.

Förum aðeins í klassíska pólitík svo fólk hér innan húss hafi kannski smááhuga á þessu. Það eru mörg málefni sem við þurfum að ræða í þessari umræðu. Það eru málefni sveitarfélaga, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngur og nýsköpun. Af því að þetta er 1. umr. um málið skal ég geyma aðeins ítarlegri umfjöllun til 2. umr. eftir að við erum búin að fá umsagnir frá almenningi. En ef ég renni léttilega yfir þessi málefni eins og þau birtast mér í fjárlagafrumvarpinu þá þarf þingið að skoða þau mjög vel.

Sveitarfélögin verða fyrir tekjuskerðingu vegna atvinnuleysis í gegnum útsvar en þau verða einnig fyrir tekjuskerðingu út af jöfnunarsjóðnum. Þau verða í raun fyrir tvöfaldri skerðingu á tekjustofnum sínum af sömu ástæðu. Það er mjög undarlegt fyrirkomulag því að ef sveitarfélög þurfa að fara í lántökur til að sinna lögbundnum verkefnum þá tapa allir, líka ríkissjóður. En ríkissjóður er miklu betur í stakk búinn til að fjármagna slíkt tap en sveitarfélögin. Þetta er vandamál með tekjustofna sveitarfélaga, við vitum það öll, en það hefur ekkert verið gert í því. Tekjustofnarnir duga einfaldlega ekki fyrir þeim verkefnum sem sveitarfélögin sinna. Það er þekkt vandamál. Mig grunar að það sé einfaldlega verið að svelta sveitarfélögin til sameininga. Ef svo er, er það óheiðarleg aðferðafræði. Þó að fjármálaráðherra segi að sveitarfélögin séu sjálfstætt stjórnsýslustig með sjálfstæða tekjustofna og hafi tæknilega rétt fyrir sér er það rangt á svo marga aðra vegu. Ríki og sveitarfélög eru í samvinnu sem opinberir aðilar. Sú samvinna er ekki á jafnræðisgrundvelli, langt frá því. Ríkið hefur miklu meiri aðkomu að þinginu sem í vissum tilvikum lítur út eins og stimpilstofnun fyrir ráðherraræðið. Með því hefur framkvæmdarvaldið gríðarlega mikinn aðgang að löggjafarvaldinu og skilgreiningunni á því hvernig tekjustofnar sveitarfélaganna eru. Það er gríðarlega ójafnt gefið þar. Ríkið er með sveitarfélögin í ákveðnu ölmususambandi þar sem tekjustofnar sveitarfélaganna duga mjög skammt til að sinna lögbundnum verkefnum. Engin ríkisstjórn virðist hafa verið viljug til þess að laga það vandamál af ýmsum ástæðum, bæði góðum og slæmum. Nýlega og sérstaklega í uppsveiflu myndi maður segja að það hafi verið af slæmum ástæðum, ég alla vega, eða af eigingjörnum ástæðum. Eigingirni er ekki góð.

Menntakerfið og nýsköpunarmál eru síðan lykillinn að framtíðinni. Við þurfum að sinna menntun, grunnrannsóknum og hlúa að þeim tækifærum sem við fáum þar. Það er gleðilegt að loksins sé verið að leggja aukið fjármagn í nýsköpun og grunnrannsóknir en mig grunar, miðað við þær upplýsingar sem við fáum, að til séu enn fleiri tækifæri sem hægt er að nýta og ef einhvern tímann á að nýta þau tækifæri þá er það núna. Ég mun kalla eftir upplýsingum um stöðu mála í nefndarvinnunni. Við þurfum að fá gott yfirlit um úthlutanir og umsóknir í alla hina helstu nýsköpunarsjóði og um stöðu menntakerfisins. Svokallað reiknilíkan er notað til að reikna hversu mikið háskólar og framhaldsskólar fá fyrir hvern nemanda og það hefur verið hunsað í mjög langan tíma að uppfæra það. Ástæðan er sú að næsta svið sem á inni uppfærslu er mjög fjölmennt, það eru mjög margir nemendur þar á bak við, þannig að sú uppfærsla kostar mjög mikið. Þá stoppar allt. Það er mjög merkilegt. En ég sé engar breytingar í menntakerfinu. Einu breytingarnar sem ég sé í rauninni er að koma til móts við fleiri nemendur. Það er ekki aukið fjármagn nema það sem fylgir þeim nemendum sem eru í kerfinu nú þegar, en það er alveg jafn lítið fjármagn á hvern nemanda og hefur verið áður.

Þá eru það heilbrigðismál og samgöngur. Mér finnst dálítið fáránlegt að heyra ríkisstjórnina monta sig af auknum fjárframlögum í þessi málefnasvið. Það er einfaldlega búið að svelta þessi málefnasvið lengi. Við erum með mikla skuld á þessum sviðum, innviðaskuld, og það þurfti að fara að greiða upp þá skuld. Það er nákvæmlega ekkert merkilegt við að aukin fjárframlög fari í heilbrigðismál og samgöngur. Þetta var nauðsynlegt og það vissu það allir og allir lofuðu því fyrir kosningar. Þetta er annað dæmi um að ríkisstjórninni finnst sjálfsagt að fá klapp á bakið fyrir að gera það sem þarf að gera. Eins og fjármálaráðherra sem vildi fá hrós fyrir að beita sjálfvirkum efnahagstækjum. Það er ekkert merkilegt við það. Mér finnst það bara sjálfsagt.

Að lokum eru svo lífeyrismál og umhverfismál. Að mínu mati eru þessi mál ásamt atvinnumálum stóru áskoranirnar. Ég ætla að enda umfjöllunina um málefnasviðin á þeim málum. Ég hef þegar fjallað aðeins um atvinnumálin, þ.e. framtíðina og nýsköpunina, en umhverfismálin eru ekki síður mikilvæg til framtíðar. Umhverfisáhrif vegna loftslagsbreytinga munu kannski ekki verða gríðarleg á Íslandi í náinni framtíð og því finnst kannski mörgum erfitt að veita þeim þá athygli sem þau þarfnast. Það er auðveldara að beina athyglinni að snjóflóðavörnum, sem dæmi, sem fá fjármagn upp á 1,6 milljarða aukalega en loftslagsvarnir sem fá 1 milljarð, af því að það voru mörg snjóflóð síðasta vetur. Það er eðlilegt að bregðast við slíkum aðstæðum með auknu fjármagni. En við sjáum síður afleiðingar hnattrænnar hlýnunar og enn síður hvaða áhrif það mun hafa á Ísland. En vandamálið er samt til staðar hangandi yfir okkur eins og snjóhengja sem bara stækkar og stækkar. Það væri betra að vera búin að klára varnirnar áður en hún fellur, ekki eftir að hún fellur. Kannski verðum við heppin eins og við vorum í vetur, það mátti ekki miklu muna, en kannski verðum við óheppin. Við eigum enn eftir að fá nægilega góða loftslagsáætlun sem útskýrir fyrir okkur hvernig við ætlum að ná settum markmiðum, hvað það kemur til með að kosta og hver ábatinn af þeirri áætlun er. Núverandi aðgerðaáætlun skilar okkur nefnilega einungis hálfa leið.

Við sjáum nú þegar áhrif loftslagsbreytinga víða um heim. Sjaldgæfir umhverfisatburðir gerast oftar, meiri flóð, meiri þurrkar, fleiri hitabylgjur, meiri öfgar. Við ráðum enn við breytingarnar þótt þær séu farnar að valda skaða. Vandamálið er að það mun kosta okkur gríðarlega mikið að aðlagast breytingunum. Það er vandinn í hnotskurn. Við viljum ekki þurfa að eyða pening í að aðlagast breytingum. Við viljum einfaldlega koma í veg fyrir að við þurfum að aðlagast og það gerum við með því að koma í veg fyrir svo miklar breytingar á loftslagi. Stór svæði sem nú eru í byggð munu verða óbyggileg. Það þýðir fólksflutninga og uppbyggingu annars staðar. Stór landsvæði, sem hafa verið kölluð brauðkarfa heimsins, munu þorna upp og ekki geta staðið undir nafni. Það mun þurfa að rækta upp og byggja upp ný brauðkörfusvæði. Það kostar og tekur tíma. Bein áhrif á Ísland eru kannski ekki mikil, mesta óvissan þar er súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs og Golfstraumurinn og náttúrlega jöklarnir eftir því sem líður á og orkuframleiðslan hjá okkur, en það eru önnur úrlausnarefni sem koma til með að laga það áður en það gerist, minna vandamál þar.

Vandamálið í heild er hins vegar hnattrænt og við verðum að leysa okkar hluta af vandanum. Hann er vissulega lítill í hnattrænum skilningi því að við erum lítil þjóð en það getur aldrei verið afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Okkar hluti er hlutfallslega stærri en smæð okkar í alþjóðasamfélaginu. Og ef litlu aðilarnir komast upp með að gera ekki neitt þá nota stóru aðilarnir sömu rök. Og hvar á að draga línuna? Það má ekki draga hana neins staðar, allir verða að taka þátt.

Að lokum þurfum við að ræða lífeyrismál, ekki lífeyrissjóðina þó að það þurfi vissulega að ræða líka. Við þetta tilefni þurfum við að ræða um lífeyri almannatrygginga. Í fjárlagafrumvarpinu hækkar lífeyrir almannatrygginga um 3,6% um áramót. Það er til jafns við spá um almenna launaþróun í landinu á næsta ári. Þannig virka lögin um almannatryggingar. Það hefur komið fram hérna í máli ríkisstjórnarinnar að svona eru bara lögin. Lífeyrir á að hækka jafn mikið og almenn launaþróun eða verðbólga, hvort sem er hærra. Lífeyririnn er þannig verðtryggður og einnig launatryggður. Vandamálið er að lífeyrir hækkar samkvæmt spá, ekki samkvæmt raunverulegri verðbólgu eða raunverulegri launaþróun. Afleiðingin af því er að lífeyrir hefur rýrnað um a.m.k. 50% frá aldamótum. Hann ætti að vera 50% hærri. Spáin hefur ítrekað mistekist. Í einungis sex skipti á undanförnum 23 árum hefur spáin verið hærri en raunin varð. Sú túlkun að lífeyrir hækki bara samkvæmt spá er ákvörðun. Það er ákvörðun fjármálaráðuneytisins að túlka lögin þannig. Það er ekki sjálfsögð túlkun og að mínu mati er það röng túlkun.

Vandamálið sem blasir við okkur í þessu fjárlagafrumvarpi er ekki bara að lífeyrir hækki einungis um 3,6%, sem verður örugglega minna en laun þingmanna hækka, hlutfallslega meira að segja, alveg eins og lífeyrir hækkaði bara um 3,5% um síðustu áramót meðan laun þingmanna hækkuðu um 6,3%. Vandinn sem blasir við okkur núna eru lífskjarasamningarnir eða réttara sagt að lífeyrisþegar fá ekki lífskjarasamninga. Lífskjarasamningar miðuðu við að hækka lægstu laun hlutfallslega mest. Það þýðir að ef lífeyrir hækkar samkvæmt meðalhækkun þá er það hlutfall miklu lægra en lægstu laun hækkuðu um. Gefum okkur dæmi þar sem einn er með 100.000 kr. í laun, einn er með milljón og einn með 10 milljónir. Ef við hækkum laun um 10.000 kr. þá hækkar sá sem er með lægstu launin um 10%, sá sem er með miðlaunin hækkar um 1% og sá hæstlaunaði hækkar um 0,1%. Meðaltalshækkun í þessu fyrirkomulagi er 0,27%. Ef við hækkum hins vegar öll laun um sömu prósentu fá þeir launahæstu mesta hækkun í krónutölu en þeir sem eru með lægstu launin hækka minnst í krónutölu. Hlutfallslegur munur helst þó hinn sami milli allra launa. Vandamálið sem við glímum við núna er að lífeyrisþegar fá meðaltalslaunahækkunina sem er 0,27% en ekki 10.000 kr. eins og allir hinir fá. Það þýðir að lífeyrisþegar fá bæði hækkunina sem hefur rýrt lífeyri þeirra um meira en 50% á tveimur áratugum og eru að missa af lífskjarasamningum.

Ég varð dálítið orðlaus þegar ég sá þetta í fjárlagafrumvarpinu. Ef það er eitthvað sem við þurfum að laga í frumvarpinu þá er það þetta. Þetta er framtíðarvandamál. Þetta er risastór galli á frumvarpinu. Síðast lögðum við Píratar fram breytingartillögu til að laga þessa rýrnun sem ríkisstjórnin hafnaði. En núna leggjum við fram tillögu sem lagar þennan galla varðandi lífskjarasamningana og ég vona að þingið taki henni vel. Hún er í framlögðu breytingartillöguskjali sem allir hafa aðgang að hérna frammi og á netinu.

Þau rök eiga augljóslega líka við um atvinnuleysistryggingar en þar þarf að bæta lífskjarasamningum við líka, alla vega hvað varðar strípaðar atvinnuleysisbætur. Ekki þær sem eru tekjutengdar núna, það ætti ekki að þurfa. Upphæðin varðandi atvinnuleysisbæturnar myndi ekki eiga við ef tekin væri ákvörðun um að hafa þær áfram tekjutengdar nema að því leyti til að það myndi hafa áhrif á lægstu laun á nákvæmlega sama hátt og lífskjarasamningarnir gera, þannig að upphæðin yrði lægri en hún er í breytingartillögunni. Þess vegna þarf nefndin að fara dálítið yfir tölurnar og hvernig aðrar ákvarðanir eru teknar samhliða þeim.

Almennt séð eru Píratar framtíðarflokkur. Við horfum til framtíðar og sjáum fyrir okkur ákveðna sviðsmynd, ákveðið samfélag sem byggist á velsældarhagkerfi, sem er að komast af stað í fjármálaáætlun núna, mjög gleðilegt. Hvaða áhrif þau viðmið hafa er ógreinilegt akkúrat eins og er, en þetta eru góð fyrstu skref. Við sjáum hins vegar aðrar breytingar sem eru að gerast í náinni framtíð sem við þurfum að taka tillit til í opinberum fjármálum. Það er ákveðin sjálfvirknivæðing sem er að fara að ganga yfir. Það er sjálfvirknivæðingin sem er hluti af 5.0 uppfærslunni sem við ættum að vera á fullri ferð í að innleiða. En nei, við erum langt, langt eftir á þar. Þessi sjálfvirknivæðing hefur mjög mikil áhrif á atvinnulífið og vandamálið sem liggur fyrir framan okkur núna er atvinnulífið, atvinnuleysið. Með aukinni sjálfvirknivæðingu fækkar störfum en það hefur alltaf verið sagt: Það myndast ný störf. Já, það hefur verið rétt hingað til. Það þýðir ekki að það haldi áfram að vera rétt. Enn fremur virkar þetta á þann hátt að nýju störfin sem skapast eru ekki eins langlíf og störfin sem þau tóku við af. Ný störf verða fyrr sjálfvirknivædd. Tökum þá þróun áfram í nokkra hringi í viðbót. Nýtt starf sem myndast hefur kannski tíu ára líftíma áður en búið er að sjálfvirknivæða það. Starf sem tekur við hefur kannski fimm ára líftíma áður en það verður sjálfvirknivætt o.s.frv. Það verða óhjákvæmilega gríðarlegar breytingar á því hvernig atvinnu mannveran kemur til með að stunda á næstu áratugum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa til og hugsa um. Hvernig á hagkerfið að líta út í því umhverfi?

Við sjáum fram á ákveðna orkubyltingu, loksins. Það er mjög græn bylting í gangi. Ég sá fréttir bara í gær um ákveðna rafrás sem býr einfaldlega til eigið rafmagn, virkar á mjög lítilli orku en virkar samt. Það eru framfarir í ofurþéttum rafhlöðum sem eru mjög umhverfisvænar. Þessi orkubylting mun þurrka út það forskot sem við höfum í grænni orku, það að byggja stíflur og nota fallvötn til að búa til orku verður miklu óhagkvæmara og ekki nærri eins umhverfisvænt og þeir kostir sem koma til með að bjóðast okkur á næstu áratugum. Við sjáum fram á gríðarlega byltingu í landbúnaði, t.d. með kjötrækt sem ég hef oft talað um hérna. Þegar ég talaði fyrst um það vissi landbúnaðarráðherra ekki einu sinni hvað ég var að tala um, hélt að ég væri að tala um eitthvert próteinduft. Ég vona að fólk hafi lært eitthvað síðan þá. Þetta er rúmlega 100 ára gömul tækni sem er að nálgast fjöldaframleiðslu. Þegar það gerist þá útrýmum við þörfinni á fjöldaframleiðslu dýra til manneldis. Það verður gríðarlega gott fyrir þær aðstæður sem við sjáum núna, t.d. varðandi faraldra. Mikið af þessum fjölónæmu bakteríum og faröldrum byrjar einmitt á þessum stöðum þar sem dýr eru, fara á milli þeirra eða koma upp vegna sýklalyfja o.s.frv. Það allt hverfur sem gerir að verkum að við verðum miklu betur í stakk búin að glíma við framtíðarfaraldra. Uppruni þeirra verður á miklu fyrirsjáanlegri stað í rauninni en núna. Úti um allt er dýrarækt sem mjög lítið eftirlit er með, eins og við höfum séð í Kína. Við sjáum líka fram á opið aðgengi að framleiðslu sem kemur til með að breyta öllu.

Niðurstaðan er að framtíðarsamfélagið verður ekki eins og það sem við búum í núna. Ef við horfum eftir lausnum sem voru notaðar fyrir 20 árum komum við til með að sitja eftir með sárt ennið þegar framfarirnar skella loksins á okkur.