152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra ber fyrir sig að verðbólguþrýstingur haldi aftur af sóknarmöguleikum þessarar ríkisstjórnar. Þá hefur hæstv. ráðherra beint spjótum sínum að launþegum og ábyrgð þeirra í þessu verðbólguumhverfi. En ég spyr: Hvert er framlag ríkisstjórnarinnar og ráðherra inn í kjaraviðræður, inn í verðbólguna? Stærsti hluti verðbólgu í dag er vegna íbúðaverðshækkana. Ekkert nýtt er að finna í þessum fjárlögum um húsnæðismál. Þá lýsir hæstv. fjármálaráðherra því yfir að nú hækki barnabætur. Samt er ljóst af lestri frumvarpsins að engin breyting er þar á upphæðum, upphæðum sem geta skipt sköpum í kjaraviðræðum. Í staðinn fyrir að taka af skarið, móta markaðinn, taka ábyrgð á stöðunni með aðgerðum í húsnæðismálum og raunverulegum viðbótum á barnabótum, draga þannig úr verðbólguþrýstingi til langs og skemmri tíma og veita þannig svigrúm til sóknar svo við getum hætt að reka samfélagið í stöðugu viðbragði, er ákveðið að segja bara pass. Er ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra á þessum liðum verðbólgunnar engin?