152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:00]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er til staðar grundvallarmisskilningur á því hvernig við rekum hagkerfið. Hugmyndin að baki því að styrkja stöðu húsnæðismarkaðarins er einmitt að draga úr þessum sífellda þrýstingi á rekstrarhliðinni sem veldur því m.a. að einn stærsti útgjaldaliðurinn hjá ríkissjóði, sem eykst á hverju ári, er launa- og verðlagsbætur sem eru drifnar áfram af fasteignaverði í dag. Ég er ekki að tala um að eyða pening í eitthvað. Ég er að tala um kerfisbreytingar á húsnæðismarkaði, markaði sem þessi ríkisstjórn hefur algerlega horft fram hjá á undanförnum árum. Ég spyr aftur: Hvað ætlið þið að gera meira í húsnæðismálum til að draga úr þeirri spennu sem lekur yfir í allt hagkerfið, lekur yfir á launakröfur, lekur yfir í kostnað fyrirtækja og kostnað ríkissjóðs? Það er góð hagstjórn að styðja betur við fasteignamarkaðinn.