152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:05]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Ég er á þeirri skoðun, og við í Samfylkingunni höfum verið á þeirri skoðun, að það beri að styrkja landbúnað og dreifða byggð á Íslandi. Það er eðli stuðningsins sem við gerum athugasemdir við. Evrópusambandið sem hv. þingmaður vísar til hér reynir t.d. í dag að beina styrkjum í þá átt að styrkveitingar séu almennar, þannig að ef bændur vilja fara út í annars konar framleiðslu sem er loftslagsvænni þá missi þeir ekki styrkina. Það er ekki þannig í dag. 70% er framleiðslutengt þannig að það þrýstir þeim í gamaldags lifnaðarhætti og dregur úr nýsköpun í greininni. Við viljum sjá blómlega byggð hérna. Það skiptir máli. En við viljum líka að nýliðar í landbúnaði geti verið stórhuga á nýjum stöðum, geti tekið að sér ræktun á öðrum vörum sem þykja kannski loftslagsvænni þótt það þurfi auðvitað alltaf að vera eitthvert sambland þarna. Þannig að það er eðli styrkveitingar sem skiptir máli og ég sakna þess að þessum stærsta einstaka lið sem ríkisstjórnin stýrir beint sé ekki betur stýrt í loftslagsmálum.