Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:18]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er þannig að allar stærri framkvæmdir eru metnar með tilliti til arðsemi og ábata og það er einn af þeim þáttum sem eru notaðir til að raða þeim í forgangsröð, eins og hv. þingmaður kom inn á. Umferðaröryggisrýni er einnig á öllum framkvæmdum í dag sem tryggir að við séum að bæta umferðaröryggið; byggðasjónarmið sannarlega til að tengja saman svæði; loftslagsáhrif eru líka komin inn og miklu fleiri þættir sem tekið er tillit til. Við leggjum síðan af stað með einhverja samgönguáætlun og þingið fjallar um hana og leggur blessun sína yfir hana eða færir til eftir atvikum og fjármagn fer síðan í það frá fjárlaganefnd. Eins og ég sagði áðan þá er sá sem hér stendur alveg viljugur til að eyða talsvert meiri og fleiri milljörðum í samgöngumannvirki en standa til boða. Á næsta ári þarf að draga saman seglin um 3 milljarða sem þýðir að það kemur fyrst og fremst niður á verkhraða.

Hv. þingmaður spyr um Reykjanesbrautina. Hún er eitt af þeim stóru verkefnum sem hefðu gjarnan mátt vera komin af stað eða vera að fara af stað. Það hefur reyndar dregist vegna skipulags og vinnu við samninga við landeigendur og fleira eins og gengur. Einnig hefur verkið orðið dýrara þannig að ekki eru til fjármunir svo að hægt sé skuldbinda verkið. Ég vænti þess hins vegar og veit, þar sem þetta er nú eitt af áherslumálum mínum, ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar, að við munum geta boðið þetta út eins fljótt og auðið er og þá á næsta ári. Það er auðvitað háð því að það komi viðbótarfjármagn, (Forseti hringir.) þá getum við gert það fyrr. En ég minni (Forseti hringir.) hv. þingmann á að við erum búin að gefa loforð við fjárlagavinnuna um að draga saman seglin um 3 milljarða.

(Forseti (OH): Forseti minnir hæstv. ráðherra á að virða ræðutíma.)