Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:01]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál. Ég kýs að líta á þetta svona: Hvert er verkefnið? Það eru orkuskiptin og það sem okkur vantar núna er meiri fyrirsjáanleiki og því fyrr sem við höfum það, því betra. Við þurfum að koma okkur af þeim stað að vera að hugsa um þetta frá ári til árs í fjárlagafrumvarpinu. Bæði fyrir þá sem kaupa og líka sem selja verður fyrirsjáanleikinn að vera til staðar. Okkur vantar inn í þetta t.d. bílaleigubílana og þetta er allt eitthvað sem verið er að vinna að og því fyrr sem við getum komið með þetta, því betra. Stærri bílarnir eru eftir, það er nokkuð sem við þurfum að fara í líka. Það eru miklar tækniframfarir í þessu. Menn hafa talað mjög lengi um það t.d. að það sé eingöngu hægt að vera með stærri bílana á rafeldsneyti en nú eru komnir vörubílar, stórir bílar — þegar maður var krakki kallaði maður þetta vörubíla, ég veit ekki hvort það sé til eitthvað fínna heiti yfir það — sem eru keyrðir áfram af rafmagni og eftir því sem ég best veit, heyrði það að vísu bara svona út undan mér, þá er verið að reyna einn bíl hérna á Íslandi, búið að vera að gera það. En svo þurfum við líka að líta til þess að þetta sé fyrir alla tekjuhópa, það sé líka góður eftirmarkaður af þessum bílum og hér séu ekki bara dýrustu bílarnir. Þetta er bara verkefni sem við þurfum að vinna eins hratt og mögulegt er, virðulegur forseti. Ég vildi óska að þetta væri það eina, af því að þingmaðurinn spurði um áhyggjur mínar og viðhorf, það er bara á mjög mörgum stöðum þegar kemur að loftslagsmálum sem við þurfum að vinna hraðar. Það bara liggur fyrir. Við þurfum að hafa loftslagsgleraugun á öllum þáttum og þetta er bara eitt af þessum verkefnum sem við þurfum að fara í.